Þorbjörg Hulda Guðjónsdóttir Nú er hönd að hægum beði

hnigin eftir dagsins þrautir.

Signt er yfir sorg og gleði,

sæstzt við örlög. - Nýjar brautir.

Biðjum þess á blíðum tónum

berast megi þreyttur andi

endurborinn ljóss að landi

lofandi dag með ungum sjónum.

(J. Har.) Þessar ljóðlínur komu í huga okkar er við heyrðum lát nágrannakonu okkar Huldu, en hún er nýlátin eftir erfið veikindi og farin að heilsu og kröftum 78 ára gömul.

Þegar öldruð manneskja eins og Hulda okkar fellur frá er því ekki að neita að maður þakkar Guði fyrir að hafa kallað hana til sín. Hennar þrautir eru á enda, hitt er annað að söknuður situr eftir hjá okkur hinum sem minnumst hennar með þakklæti fyrir það gildi sem hún gaf lífi okkar.

Hún Hulda var ekki af okkar tíma, hún ólst upp við erfiðari aðstæður og lifði á mestu umbrotatímum þjóðarinnar. Hún missti móður sína er hún var rúmlega fermd og tók við hússtörfum á heimilinu ásamt yngri systkinum sínum, en þar sem hún var elst þá hafa störfin trúlega hvílt töluvert á henni. Síðar varð það hennar hlutskipti að verða eftir á Eiríksbakka og standa fyrir búi með föður sínum á meðan hann lifði. Eftir lát hans kaus hún heldur að búa ein á föðurleifð sinni, þó erfitt væri, heldur en að búa á mölinni sem hefur orðið hlutskipti svo margra. Þarna bjó hún ein með dýrunum sínum; kúm, kindum, hestum, hænum, hundi og ketti og ekki síst gamla vagnhestinum, honum Skjóna, sem hún notaði fyrir vagn til að flytja ýmislegt til á búi sínu. Skjóni var orðinn 30 vetra gamall þegar hann féll frá en síðan eru liðin mörg ár. Skjóni var meira að segja fenginn lánaður með vagninn sinn í kvikmynd sem gerð var um forna búskaparhætti á Suðurlandi.

Hulda hugsaði vel um skepnurnar sínar, heimalingarnir fengu stóra pela af mjólk, kýrnar fengu volgt vatn að drekka þegar kalt var, kisa svaf í besta stólnum í stofunni og svona mætti lengi telja.

Hulda þurfti hjálp við heyskapinn er árin tóku að færast yfir og voru nágrannar og venslafólk boðnir og búnir til að hjálpa henni. Þá var oft saman kominn hópur af fólki, ekki síst af börnum og unglingum. Heyskapurinn á Eiríksbakka verður okkur ógleymanlegur í endurminningunni og þá sérstaklega yngri kynslóðinni. Eða töðugjöldin að heyskap loknum, þykkt súkkulaði með rjómapönnukökum, flatkökum með heimareyktu hangikjöti, eggjabrauði eða upprúlluðum pönnukökum með miklum sykri. Það var útbúið stórt borð uppi í stofu í gamla bænum - en yfirleitt fékk fólk sem leit inn hjá Huldu kaffisopa í eldhúsinu á neðri hæðinni. Þarna sátu allir eins þétt og hægt var. Krakkarnir reyndu að vera stillt og prúð og hámuðu í sig kræsingarnar, síðan gengu þeir um í stofunni fullir lotningar og gáfu auga ýmsum sérstæðum hlutum, myndum og gömlum styttum, saumavélinni og svona mætti lengi telja. Í gluggunum voru blóm þess tíma, stórar pelagoníur, blómstrandi kólusar og lísur, því að Hulda hafði gaman af blómum. Þarna var rabbað saman yfir góðgerðunum, fullorðna fólkið um hvernig heyskapurinn hefði nú tekist þetta skiptið, heyið nógu þurrt, hvort það væri nóg o.s.frv. Krakkarnir spjölluðu um eitthvað annað sem engir máttu heyra sem eldri voru og mikið var nú hlegið og skemmt sér. Það var líka mikil upphefð fyrir krakkana þegar Hulda þakkaði fyrir hjálpina og hún tók í hönd allra, þeirra yngstu líka.

Nú er þetta allt orðið uppkomið fólk í dag og verðum við vör við þessa dagana hvað þetta er dætrum okkar í fersku minni. Þeim eru einnig minnisstæðir allir útreiðartúrarnir sem farnir voru að Eiríksbakka. Þá kom Hulda út á hlað til að spjalla og ætíð fengu þær hrós frá henni, ja, mikið er hesturinn fallegur hjá þér og mikið siturðu nú vel í hnakknum. Svona hrós var gaman að fá því að allt sem Hulda sagði það meinti hún og það kom beint frá hjartanu.

Seinna flutti svo Hulda í nýtt hús á jörðinni sinni og töðugjöldin héldu áfram en það var ekki sami hátíðarblærinn yfir þeim og í gamla bænum. Þá var allt orðið miklu nútímalegra.

Hulda var með afbrigðum gestrisin, allir urðu að koma inn og fá kaffisopa sem á bæinn komu, hún hætti oft við verk til að fara inn í bæ og hita kaffi. Hún lauk bara verkinu seinna, jafnvel að nóttu til.

Hulda hafði gaman af að skreppa einstöku sinnum af bæ en það mátti ekki vera of oft. Það var nóg að gera heima fyrir einyrkja. Hún hafði gaman af söng og söng stundum í góðra vina hópi, t.d. um réttirnar á haustin en þangað fór hún alltaf ríðandi meðan heilsan leyfði. Hún hafði óskaplega gaman af hestum. Huldu blessaðri leið oft illa á haustin þegar hún þurfti að láta lömbin í sláturhúsið, það var henni erfitt. Nú taka dýrin hennar á móti henni hinum megin og þakka henni umhyggjuna.

Hulda giftist ekki og eignaðist ekki börn en börn og unglingar hændust að henni. Hún tók oft ungling sér til hjálpar á sumrin og yngri börn dvöldust oft hjá henni um tíma. Þetta voru systkinabörnin hennar en einnig aðrir vandalausir. Þetta fólk sýndi það að því þótti vænt um hana og hélt áfram kunningsskap við hana eftir að það varð uppkomið fólk.

Hulda krafðist einskis sér til handa, hvorki metorða né þess sem telst til veraldlegra gæða, hennar lífshamingja var fólgin í því starfi sem hún unni og sönnum vinum og vandamönnum. Hún átti mikið af kunningjum í sveitunum í kring sem komu oft við þegar þeir áttu leið um. Vinkonur hringdu reglulega í hana og eins var með systkini hennar. Þetta var henni mikils virði, ekki síst síðustu árin.

Hulda unni jörðinni sinni og gat ekki hugsað sér að flytjast þaðan lifandi en "fóstran góða", móðir náttúra, sér um sína. Það fór þannig að blessuð Hulda fann ekki eins mikið fyrir því og margur hefði haldið, að þurfa að flytjast á brott. Um miðjan vetur 1992, svo til fyrirvaralaust, missti hún heilsuna og gat lítið verið heima eftir það - en skyldfólk og venslafólk átti sinn þátt í því að hún gat dvalist heima öðru hverju svo umskiptin urðu ekki eins hörð.

Hulda dvaldist að mestu á dvalarheimilinu á Blesastöðum eftir að hún missti heilsuna. Þar leið henni vel og öllum þótti vænt um hana. Hún var oft létt í skapi og söng ef einhver var til að syngja með henni. Þarna á Blesastöðum gátu kunningjarnir litið inn alveg eins og á Eiríksbakka meðan hún bjó þar. Heilsunni hnignaði áfram og þar kom að hún flutti að vistheimilinu Kumbaravogi og dvaldi þar síðustu mánuði lífs síns eða þar til hún lést þann 13. október eins og áður segir.

Lokið er ævi sérstæðrar konu sem aldrei mun gleymast þeim sem vel þekktu. Hún verður lögð til hinstu hvíldar í sveitinni sinni í dag.

Aðstandendum öllum vottum við samúð.

Við viljum ljúka þessari kveðju okkar með orðum úr Matteusar guðspjalli: "Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig". Blessuð sé minning Þorbjargar Huldu Guðjónsdóttur.

Hafliði, Ragnhildur og

dætur, Ósabakka.