Þorbjörg Hulda Guðjónsdóttir Þegar laufin eru eitt af öðru að tínast af trjánum og fyrsta snjóinn hefur fest í Vörðufellinu, sem óhjákvæmilega boðar okkur komu vetrarins, berst okkur fréttin um andlát Huldu á Eiríksbakka. Ekki er hægt að segja að það hafi komið á óvart, því að hún hafði átt við vanheilsu að stríða um nokkurt árabil.

Hulda fæddist í Úthlíð í Biskupstungum en fluttist barnung með foreldrum sínum að Eiríksbakka í sömu sveit. Eiríksbakkinn er ekki stór jörð en slægjur voru taldar í betra lagi og engjarnar bættar með áveitu eins og víða var reynt á fyrri hluta þessarar aldar. Veiði í Stóru- Laxá mun hafa verið til nokkurra búdrýginda. Þegar Hulda er nýfermd missir hún móður sína, þá elst þriggja systkina. Jón Bjarnason bóndi í Auðsholti segir í viðtali við Áslaugu Ragnars fyrir nokkrum árum er hann minnist fyrri tíðar: "Þessi stúlka (Hulda) tók við móðurhlutverkinu á heimilinu og sá upp frá því alveg um uppeldi yngri systkinanna auk allra annarra starfa sem hún hafði á hendi." Og síðan bætir hann við: "Um annað var ekki að ræða og ég held að enginn hafi býsnast yfir því." Síðan hafði Hulda búsforráð hjá föður sínum meðan að hans naut við, en hann lést 1966. Eftir það bjó hún einsömul, en margir unglingar, bæði skyldir og vandalausir, dvöldust hjá henni í lengri eða skemmri tíma og hjálpuðu til við bústörfin og lærðu að taka þátt í lífsbaráttunni og öllum kom hún til nokkurs þroska, eins og þar stendur.

Þegar við fluttumst í nágrennið fór ekki hjá því að samband tækist við Eiríksbakka, enda var viðmót Huldu á þann veg, að maður skynjaði fljótt velvild, tryggð og greiðvikni hennar, skipst var á heimsóknum og ekki spillti það þegar ljóst var að við áttum sama afmælisdaginn. Elsta dóttir okkar dvaldi um vortíma hjá Huldu um sauðburðinn og minnist þeirrar dvalar með ánægju.

Hulda hafði eins og gefur að skilja aldrei stórt bú og spekingar mundu vafalaust kalla það dragbít á hagvöxtinn, en hún hugsaði vel um sína jörð og hafði gott gagn af sínum skepnum og stundum duttu mér í hug hendingarnar hans Guðmundar Friðjónssonar um ekkjuna við ána:

Hún elskaði ekki landið en aðeins

þennan blett, af ánni nokkra faðma, o.s.fr.

Hún kunni að ætla sér af og keppti að því að búa að sínu og vera sem mest sjálfbjarga og sem minnst öðrum háð, enda þótt hún þæði hjálp, ef svo bar undir. Nágrannarnir sáu um að koma áburðinum á túnið en á seinni árum fékk hún aðstoð við heyskapinn. Smaladagarnir á Eiríksbakka gátu líka verið skemmtilegir.

Hulda gerði ekki víðreist um dagana en hún lagði mikið upp úr því að eiga alltaf þægilega hesta sem hún gat skroppið á til næstu bæja eða fylgt manni á leið ef svo bar undir og ekki brást að hún færi ríðandi í Reykjaréttir.

Undirritaður hefur af og til haft fólk í verklegu námi, flest af erlendu bergi brotið og þegar tími var kominn til þess að þessir nemar færu einsamlir í vitjun var oftast fyrst farið að Eiríksbakka og þótt tjáskipti milli Huldu og þessa fólks væru kannski í stirðara lagi kom það ekki að sök, því að viðmótið var þannig að hver og einn fylltist sjálfstrausti og ævinlega leystist vandinn fyrr en varði.

Þegar ég hitti Huldu síðast á Blesastöðum, þar sem hún naut frábærrar aðhlynningar, var mjög farið að halla undan fæti fyrir henni. Sjónin lítil sem engin og minnið skert. Þó raulaði hún fyrir okkur vísupart og glettist eins og hún gerði oft þegar komið var að Eiríksbakka. Góð kona er gengin og komin til þeirrar strandar sem hún var lengi búin að þrá. Blessuð sé minning hennar.

Gunnlaugur Skúlason.