Gunnhildur Davíðsdóttir Elsku amma mín.

Mér datt það bara ekki í hug að þegar ég kvaddi þig í júlí áður en ég fór til Frakklands að það væri í síðasta skipti sem ég sæi þig. Ef ég hefði vitað það hefði ég viljað tala meira við þig.

Ég er búin að senda þér kort og Habba frænka var búin að lesa það fyrir þig og mér líður betur að vita að þú varst búin að heyra eitthvað frá mér. Núna þarf ég að skrifa afa bréf og veit ég ekki hvað ég ætti að segja við hann í sambandi við þig. Mér finnst þú bara ekki vera dáin og að þú verðir í sveitinni þegar ég kem aftur.

Ég á erfitt með að sætta mig við þetta, það er rosalega erfitt að hugsa um allt það sem við gerðum saman þegar ég var í sveitinni hjá ykkur afa. Allar flökkuferðirnar okkar og þegar þú fannst aldrei afleggjarann heima á Laugarbökkum af því það var svo dimmt. Þegar þú varst að róta í 500 kr. kössunum í Höfn og þegar við sátum fyrir framan sjónvarpið með ís og snakk og horfðum á Matlock eða Derrick með allt í botni. Það var svo margt skemmtilegt sem við gerðum saman og mig langar að fá þig aftur.

Það er búið að vera erfitt að geta ekki talað við neinn um þig en ég hef reynt að hugsa um eitthvað annað því ef ég hugsa um þig fer ég bara að gráta.

Hvíl þú í friði.

Þín,

María Tryggvadóttir.