Fjölnir Björnsson Ég man fyrst eftir Fjölni í frumbernsku minni, sennilega hef ég verið fjögurra eða fimm ára, en þá dvaldi hann á heimili foreldra minna um tíma, rétt eftir að hann flutti til Reykjavíkur. Tókst þá með okkur góð vinátta, sem enst hefur fram til þessa dags, og bar ég ávallt mikla virðingu fyrir þessum frænda mínum. Fjölni var margt til lista lagt og lagði hann gjörva hönd á margt. Áhugamál hans voru mörg, svo sem tónlist, lestur góðra bóka, félagsmál og stjórnmál.

Hann lagði stund á mörg störf á lífsleiðinni, stundaði almenna verkamannavinnu, sjómennsku, var bílstjóri og stundaði verslunarstörf í eigin verslun um tíma. Verslaði hann þá með útvarpstæki, hljómflutningstæki og plötur. Öll störf sem hann stundaði munu hafa farið honum vel úr hendi og ávann hann sér vináttu og traust þeirra sem áttu við hann viðskipti. Ég man eftir að þegar ég kom til hans í verslunina á Bergþórugötunni, voru það ekki síður hinir minna megandi í þjóðfélaginu, sem voru viðskiptavinir hans, og fóru greiðslur þá stundum eftir efnum og ástæðum viðskiptavinarins. Fyrir mörgum árum kenndi Fjölnir þess sjúkdóms sem leiddi hann til bana nú. Margir hafa fengið verulegan bata með hjartaaðgerðum erlendis og nú upp á síðkastið hér heima. Fjölnir fór til London árið 1984 að leita sér lækninga, en því miður tókst aðgerðin ekki og hann fékk ekki þann bata sem vænst var, og háði sjúkdómurinn honum ávallt síðan. Fljótlega eftir það hætti hann við verslunina og gat lítið unnið síðan.

Með Fjölni Björnssyni er genginn mikill ágætismaður, sem allir sem hann þekktu munu minnst með virðingu og söknuði.

Við vottum Baldri syni hans samúð okkar, svo og öðrum hans nánustu.

Kristmundur Halldórsson.