Guðrún Olga Stefánsdóttir Hún Olga vinkona mín og frænka er dáin, farin úr þessari jarðlífsvist. Hún var búin að stríða lengi hetjulegri baráttu við skæðan sjúkdóm og var löngu orðin þreytt og þráði það eitt að mega að fá að sofna. Hvað þráir annað helsjúk manneskja en að fá frið, sofna laus úr þessum viðjum.

Ég vil minnast hennar frá því ég sá hana fyrst. Hún var glæsileg kona bæði í sjón og reynd. Hún er heilsteypt manneskja, maður getur ef til vill einu sinni á ævinni hitt svona manneskju, að vera alltaf tilbúin að gera öðrum greiða og standa við allt, hvort það var smátt eða stórt. Bæði fyrir börnin sín og vandalausa.

Hún ræktaði líka garðinn sinn, það var hennar metnaður að hafa hann fallegan. Bæði á Suðurgötunni þar sem hún átti síðast heima og fyrir austan í Hjarðartúni í Hvolhreppi, sem var sannkallað listaverk, sem fékk margoft viðurkenningu.

Einnig var hún fyrir sígilda tónlist, það var auðséð að hún hafði næman fegurðarsmekk og tilfinningu fyrir því listræna því öll hennar verk voru unnin af listfengi.

Ég minnist kvikmyndarinnar Draumar eftir Akira Kurosawa sem við vöktum hálfa nótt yfir. Sérstaklega þeirrar fegurðar og þeirra áhrifa sem við urðum fyrir. Drengur hleypur út í regnið til að sjá staðinn þar sem ferskjutréð vex og blómum skrýdd jörðin glitrar af regninu og blámóðan sýnist blárri í næturhúminu. Það var þessi mikla fegurð og gróður sem hún unni mest.

Ólafur og Olga hófu búskap í Reykjavík en stofnuðu fljótlega nýbýlið Hjarðartún í Hvolhreppi og fluttu þangað haustið 1953. Ólafur var búfræðingur frá Hólum og hafði einnig lokið námi í málaraiðn. Búið var ekki stórt og allt vélvætt og stundaði hann málarastörf jafnframt og með árunum í vaxandi mæli uns þau hættu búskap 1965. Stundum hafði hann vinnuflokk sem oft bjó á heimili þeirra. Ólafur var í hreppsnefnd og hlóðust brátt á hann störf í þágu sveitarfélagsins fyrst sem oddviti, síðan sveitarstjóri. Þessu fylgdi mikið álag á heimili og húsmóðurina sem studdi hann vakin og sofin í starfi.

Olga útskrifaðist frá hjúkrunarskóla Íslands sem hjúkrunarkona 29. maí 1950. Þegar Ólafur veiktist varð hann að vera í hjólastól og hugsaði Olga algjörlega um hann, og þegar hann fór á spítala fór hún á hverjum degi til að hjúkra honum á spítalanum og kom ekki heim fyrr en á kvöldin.

Ég kveð þig, kæra vina mín. Guð leiði þig að vötnunum þar sem þú munt næðis njóta. Vitringur hefur sagt að lífið sé aðeins daggardropi á lótusblómi (Tagore).

Nú ríkir kyrrð í djúpum dal

þótt duni foss í gljúfrasal.

Í hreiðrum fuglar hvíla rótt,

þeir hafa boðið góða nótt.Nú saman leggja blómin blöð,

er breiddu faðm mót sólu glöð.

Í brekkum fjalla hvíla hljótt

þau hafa boðið góða nótt.Nú hverfur sól við segulskaut

og signir geisli hæð og laut,

en aftanskinið hverfur hljótt,

það hefur boðið góða nótt.

(Magnús Gíslason) Ég vil votta börnunum og öllum þeirra niðjum innilega samúð mína.

Matthildur Þ. Matthíasdóttir.