SKÝJAHÖLLIN, barna- og fjölskyldumynd Þorsteins Jónssonar, fær lofsamlega dóma í þýskum dagblöðum en hún hefur verið sýnd í kvikmyndahúsum í Berlín síðastliðnar ellefu vikur. "Sígild saga með frábærum landslagsmyndum frá Íslandi," segir meðal annars í TIP og "skemmtileg, glettin og ævintýraleg saga fyrir börn og fullorðna," segir í Frankfurter Rundschau.
Skýjahöllin, barna- og fjölskyldumynd eftir Þorstein Jónsson Fær góða dóma

í Þýskalandi

SKÝJAHÖLLIN, barna- og fjölskyldumynd Þorsteins Jónssonar, fær lofsamlega dóma í þýsk um dagblöðum en hún hefur verið sýnd í kvikmyndahúsum í Berlín síðastliðnar ellefu vikur.

"Sígild saga með frábærum landslagsmyndum frá Íslandi," segir meðal annars í TIP og "skemmtileg, glettin og ævintýraleg saga fyrir börn og fullorðna," segir í Frankfurter Rundschau.

Þorsteinn segir að það sé afar sjaldgæft að barnamyndir fái svo góðar viðtökur í Þýskalandi en myndin var meðal annars valin kvikmynd mánaðarins af virtri kvikmyndastofnun í Berlín.

Skýjahöllinni er dreift í þrettán eintökum í Þýskalandi og verður meðal annars jólamynd kvikmyndahúsa í níu borgum. Eftir sýningar í kvikmyndahúsum verður myndin gefin út á myndbandi og sýnd í sjónvarpi. Þá hefur hún verið keypt til sýninga í þýska skólakerfinu.

Skýjahöllin, sem gerð er eftir sögu Guðmundar Ólafssonar um Emil og Skunda, hefur reyndar farið víðar og nýverið var hún tekin til sýninga í kvikmyndahúsum í Sviss og Noregi. Var aðalleikarinn Kári Gunnarsson, 12 ára Hafnfirðingur, viðstaddur frumsýninguna í síðarnefnda landinu.

Segir hann að ferðin hafi í alla staði verið mjög vel heppnuð og það sé mjög ánægjulegt að myndinni skuli vegna jafnvel erlendis og raun ber vitni. Kári kveðst ekki hafa gert það upp við sig hvort hann muni leggja leiklistina fyrir sig í framtíðinni en vonar þó að hann fái tækifæri til að spreyta sig í fleiri kvikmyndum.

Seld til sextán landa

Dreifingu Skýjahallarinnar annast Nordisk Film, sem er stærsti dreifingaraðilinn á þessu sviði á Norðurlöndum og alls hefur verið gengið frá sölu hennar til sextán landa, aðallega í sjónvarp og myndbandaútgáfu, en einnig til sýninga í kvikmyndahúsum. Eru þau - auk Noregs, Sviss og framleiðslulandanna Þýskalands og Danmerkur - Brasilía, Slóvenía, Rússland, Pólland, Holland, Portúgal, Finnland, Ítalía, Austurríki, Eistland, Litháen og Lettland en í september var Skýjahöllin opnunarmynd á Norrænni kvikmyndaviku í Riga.

Þorsteinn segir að þessar viðtökur séu staðfesting á því, að mögulegt sé að framleiða kvikmyndir fyrir alþjóðlegan markað í litlu eins manns fyrirtæki í Reykjavík. Segir hann þetta ekki síst ánægjulegt í ljósi þess að samkeppnin á evrópskum kvikmyndamarkaði sé hörð enda fylgi jafnan flóð auglýsinga bandarískum kvikmyndum. "Við þetta erum við að keppa með lítið á bak við okkur - og getum því ekki verið annað en ánægðir."

Þorsteinn segir að viðtökurnar ytra séu mikil hvatning og er fyrirtæki hans, Kvikmynd, að leggja drög að fleiri kvikmyndum um þessar mundir. Næstu myndir verða að líkindum Bergmál í fjöllunum eftir frumsömdu handriti Þorsteins, sem hugsanlega verður frumsýnd í apríl 1997, Æskublóð eftir sögu Guðjóns Sveinssonar Ört rennur æskublóð og mynd eftir handriti Gunnars Einarssonar sauðfjárbónda á Daðastöðum sem hefur vinnuheitið Fjöregg.

AÐALLEIKARINN Kári Gunnarsson og Þorsteinn Jónsson leikstjóri við gerð Skýjahallarinnar.

EMIL og Skundi í hita leiksins.