Orðabók fyrir yngstu lesendurna BARNAORÐABÓKIN heitir orðabók sem bókaforlagið Iðunn hefur gefið út fyrir yngsta lesendahópinn. Sigurður Jónsson frá Arnarvatni tók saman bókina.

Orðabók fyrir yngstu lesendurna

BARNAORÐABÓKIN heitir orðabók sem bókaforlagið Iðunn hefur gefið út fyrir yngsta lesendahópinn. Sigurður Jónsson frá Arnarvatni tók saman bókina. Barnaorðabókin er ætluð lesendum í yngri bekkjum grunnskóla og er samin með það fyrir augum að nýtast sem kennslubók í notkun orðabóka.

Sigurður sagði í samtali við Morgunblaðið að haft hefði verið samband við hann frá forlaginu, eftir að ákveðið hafði verið að gefa út slíka orðabók og hann beðinn að sjá um ritun bókarinnar.

"Þetta var mjög spennandi verkefni," sagði Sigurður. "Ég hef ekki fengist við svona orðabókargerð áður. Ég naut hins vegar leiðsagnar og ráða hjá þeim sem betur vissu á ýmsum sviðum, þar á meðal frá foreldrum, börnum og kennurum."

Hann var spurður hvað hefði ráðið vali orða í bókina. "Við létum útbúa fyrir okkur tíðniorðaskrá með um það bil tveimur milljónum orða. Skráin var sett saman úr 60 til 70 textum. Við tókum toppinn af henni."

Sigurður segir að þegar sé hafinn undirbúningur þess að gefa út næstu bók í þessum flokki, það verður orðabók fyrir eldri bekki grunnskóla og framhaldsskólanema. Sú bók verður með 20 til 30 þúsund orðum.

Sigurður Jónsson frá Arnarvatni hefur unnið við Orðabók Háskólans og með Íslenskri málnefnd.

Barnaorðabókin inniheldur 2.300 orðmyndir og er skreytt með rúmlega 400 teikningum eftir Gunnar Karlsson. Bókin er 263 blaðsíður að stærð.