7. mars 1996 | Aðsent efni | 847 orð

Lifum við hvert andartak?

Líföndun ­ Hvað er það?

FLESTIR kannast við að hafa haldið niðri í sér andanum við einhverja vanlíðan; ótta, spennu eða aðrar sterkar tilfinningar, jafnvel gleði. Það er tákn um að við getum ekki tekið á móti því sem er að gerast. Líföndun er mjög einföld sjálfshjálparaðferð þar sem fer saman meðvituð öndun og hugartækni og við lærum að upplifa andartakið eins og það er.
Lifum við hvert andartak?

Líföndun ­ Hvað er það?

Líföndun er umfjöllunarefni Guðrúnar Arnalds , Helgu Sigurðardóttur og Hildar Hákonardóttur í

þessari grein. FLESTIR kannast við að hafa haldið niðri í sér andanum við einhverja vanlíðan; ótta, spennu eða aðrar sterkar tilfinningar, jafnvel gleði. Það er tákn um að við getum ekki tekið á móti því sem er að gerast.

Líföndun er mjög einföld sjálfshjálparaðferð þar sem fer saman meðvituð öndun og hugartækni og við lærum að upplifa andartakið eins og það er. Við öndum viðstöðulaust á ákveðinn hátt til að losa um spennu og orkuhöft sem hafa myndast í líkama okkar. Það er mikilvægt að halda áfram að anda og finna fyrir líkamanum án þess að samsama sig með sársaukanum, spennunni eða hvað það nú er sem við finnum fyrir. Öndunartími er venjulega ein klukkustund og á þeim tíma förum við í gegn um ákveðið hringferli þar sem spenna losnar og síðan verður sátt eða samhæfing.

Samhæfing táknar í þessu samhengi að við erum að opna vitundina fyrir tilfinningum sem við berum í brjósti og viðurkenna þær, án allra dóma, sem hluta af okkur sjálfum svo þær geti ekki lengur stjórnað okkur ómeðvitað. Við lærum að það er óhætt að finna fyrir tilfinningum sínum og hætta að flokka þær niður í réttar og rangar/ góðar og vondar. Með því að flokka tilfinningar á þann hátt, sköpum við vanlíðan í lífi okkar. Við urðum tilfinningaverur strax á fósturstigi og búum okkur til mynd af heiminum út frá reynslu okkar. Misumunandi einstaklingar túlka sömu reynslu á ólíkan hátt.

Við bregðumst við lífinu út frá fortíðinni. Þess vegna segjum við oft; ég vissi að þetta myndi fara svona. Við búum til okkar eigið lífslögmál. Mjög oft er mottó okkar eða lífslögmál formað strax í fæðingunni. Fyrsta tilfinningin eða fyrstu skynviðbrögðin verða að þessu lögmáli. "Mér er ekki óhætt hérna", þá meinum við í lífinu, í líkamanum eða á jörðinni, er dæmi um algengt lífslögmál. "Ég hef aldrei nógan tíma" eða "Enginn kærir sig um mig" eru önnur algeng dæmi um lífslögmál sem við drögnumst með.

Tilfinning margra er sú að við séum fórnarlömb í heljargreipum samfélags, sem við höfum þó tekið þátt í að skapa. Mörg erum við óánægð með fortíðina og höfum áhyggjur af framtíðinni en bælum vanlíðanina og látum eins og ekkert sé. Algengar úrlausnir eru að leigja video og lifa í gegnum um líf annarra með hjálp fjölmiðla, sefa líkamann með tóbaki, mat, áfengi og löglegum eða ólöglegum lyfjum.

Við getum stigið út úr mynstrum okkar á auðveldan hátt. Það gerist ekki á einni nóttu en með því að verða meðvituð um tilfinningar sem stjórna okkur getum við farið að lifa því lífi sem við óskum okkur. Líföndun með góðum leiðbeinanda er yfirleitt mjög ánægjuleg reynsla sem hefur djúpstæð áhrif á líf okkar án þess að reynslan sé á nokkurn hátt "dramatísk". Sjálfsvinna þarf ekki að vera sprenging og alger uppstokkun heldur getur hún verið ánægjulegt ferðalag með mátulegum áföngum á leið til meiri þroska og vellíðunar. Þegar mesta tilfinningalosunin hefur átt sér stað er óhætt að anda einsamall. Líföndun hefur reynst mörgum mikil orku- og heilsubót, enda ekki ný kenning að bæling tilfinninga skapi m.a. líkamlega vanheilsu.

Til eru mismunandi áherslur við líföndun. Þróun síðustu áratuga hefur orðið sú að nálgast tilfinningar á sífellt agaðari máta. Þá er rík áhersla lögð á djúpan og stöðugan andardrátt og sá sem andar er leiddur í gegn um hvað eina sem hann upplifir í önduninni, jafnvel sterkar tilfinningar, á mildan hátt.

Þegar við leysum upp gömul tilfinningamynstur leysum við um leið nýtt afl úr læðingi (sumir kalla öndun af þessu tagi "orkuöndun"). Að lokinni öndun sköpum við okkur meðvitandi ný og betri lífslögmál til að fara eftir. Þau lögmál sem við byggjum líf okkar á eru oft sáraeinföld. Lögmál eins og: "Mér er fullkomlega óhætt að þiggja og gefa kærleika" eða "Mér er óhætt að fyrirgefa og gleyma fortíðinni" eða "Mér er óhætt að upplifa allar tilfinningar mínar" eru dæmi um jákvæð lífsviðhorf.

Með því að opna fyrir nýjum möguleikum sköpum við meiri gleði og hagsæld í lífi okkar og erum færari um að lifa hvert andartak. Öll eigum við rétt á að geta lifað lífinu í gleði og sátt. Allt þjóðfélagið í heild nýtur góðs af því að einstaklingnum líði vel og sé að nýta tíma sinn á uppbyggilegan hátt. Ef allir eru að gera sitt besta margfaldast afkastageta samfélagsins á öllum sviðum.

Stöðugt eykst vitneskjan sem berst hingað til lands um fornar og nýjar aðferðir til að efla líkama og sál. Líföndun er ein þeirra. Líföndun er aðeins nokkurra áratuga gömul sjálfshjálparaðferð. Upphafsmaður hennar er Bandaríkjamaðurinn Leonard Orr. Síðastliðið ár hefur komið hingað kennari, Shanti Miles, og þjálfað fimm einstaklinga í að beita þessari aðferð. Auk greinarhöfunda eru það Hallgerður Gísladóttir og Ólöf Sesselja Óskarsdóttir. Þessi hópur ásamt Shanti Miles gefur þeim sem vilja kost á að kynnast líföndun á þriggja daga helgarnámskeiði 17.-19. mars. Með tilkomu þessa hóps hafa aukist möguleikar þeirra sem áhuga hafa á að komast í líföndun.

Guðrún er nuddari og hómópati, Helga er hjúkrunarfræðingur og myndlistakona og Hildur er vefari.

Guðrún Arnalds Helga Sigurðardóttir Hildur Hákonardóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.