Aldarminning: Dr. Halldór Hansen, yfirlæknir Halldór Hansen fæddist á Miðengi á Álftanesi 25. janúar 1889 og er því á þessum degi liðin öld frá fæðingu hans. Foreldrar hans voru Björn Kristjánsson, kaupmaður, síðar bankastjóri og ráðherra, og Sigrún Halldórsdóttir frá Reynisvatni.

Halldór tók stúdentspróf fráMenntaskólanum í Reykjavík 1910. Læknisprófi lauk hann frá HáskólaÍslands 1914 með hárri 1. einkunn og liðu 12 ára þangað til jafn hátt próf var tekið við læknadeildina. Við framhaldsnám var hann á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn 19141916 og lagði einkum fyrir sig meltingarsjúkdóma. Í júní 1916 gerðist hann starfandi læknir í Reykjavík, stundaði almennar lækningar og gaf sig sér í lagi að meltingarsjúkdómum. Jafnframt var hann sjúkrahúslæknir á Landakotsspítala.

Halldór var viðurkenndur sérfræðingur í meltingarsjúkdómum 1923. Hann varði doktorsritgerð sína um pseudoulous og ulcus pepticum árið 1933 í Reykjavík og var fyrsti doktor í læknisfræði frá Háskóla Íslands. Félagi í Vísindafélagi Íslands var hann frá 1932. Prófdómari við læknadeild Háskólans var hann um árabil. Hann fór margar kynnis- og námsferðir um sína daga til útlanda, Danmerkur, Englands, Frakklands, Þýskalands, Austurríkis og Bandaríkjanna. Hann ritaði fjölmargar greinar í innlend og útlend læknarit. Yfirlæknir var hann á Landakotsspítala að Matthíasi Einarssyni látnum 1948-1959, en það ár varð hann sjötugur.

Á unga aldri tók Halldór mikinn þátt í íþróttum og var valinn í för glímumanna á Ólympíuleikana í Stokkhólmi 1912. Hann var einn af stofnendum og lengi í stjórn Íþróttasambands Íslands og heiðursfélagi þess frá 1929. Á fullorðinsárum stundaði hann lengi golfíþrótt af áhuga.

Halldór giftist 1911 Ólafíu Þórðardóttur frá Ráðagerði á Seltjarnarnesi. Hún var mikil menningar- og hæfileikakona og bjó honum friðsælt og fallegt heimili. Þau eignuðust fjögur börn. Elst er Sigrún, húsmóðir og fyrrum bankastarfsmaður í Reykjavík. Næst var Jón, sem drukknaði ungur í Atlantshafi á stríðsárunum, þegar skip það sem hann var á var skotið í kaf. Þriðja var Rebekka, sem var sjúklingur fráæskuárum og lést á góðum aldri. Yngst barna þeirra hjóna er Halldór, yfirlæknir í Reykjavík. Ólafía lést árið 1961. Síðari kona Halldórs var Rut Hermanns, fiðluleikari.

Eins og áður er vikið að var Halldór mikinn hluta starfsævi sinnar þrískiptur í starfi. Fyrri hluta dags stundaði hann sjúkrahússtörf og skurðlækningar, en seinni hluta dags almennar lækningar og svo störf í sérgrein sinni, meðferð á sjúklingum með meltingarsjúkdóma. Sjúkrasam lagspraxis hans var eins stór og leyfilegt var á hverjum tíma, og voru vinnuafköst hans að staðaldri mikil. Hann var stilltur og þolinmóður í lund, gaf sér jafnan góðan tíma tilstarfa sinna og eyddi gjarnan einum klukkutíma í viðtal við sjúkling sem leitaði hans í fyrsta skipti. Vinnudagur hans var því yfirleitt langur, 11-12 tímar án teljandi uppihalds, þó sáust sjaldan þreytumerki á honum, það var aldrei asi á honum, hann sýndist yfirleitt ekki í tímaþröng og hann var alltaf í góðu jafnvægi. Upp á hann mátti heimfæra orðtækið, að sá sem mest hefur að gera, má að flestu vera. Hann skipulagði starfsdag sinn vel og honum vannst vel það sem hann fékkst við hverju sinni. Bjó hann lengi frameftir ævi yfir feikimiklu starfsþoli, var einn þeirra, sem eru fæddir heil sugóðir og hafa fengið í vöggugjöf mikla líkamshreysti, þrek og viðnám gegn hverskonar álagi og sjúkdómum. Þá lagði hann mikla rækt við heilsu sína, stundaði reglubundið líkamsþjálfun og lifði heilsusamlegu lífi, eftir því sem hann kom því við á hverjum tíma.

Dr. Halldór Hansen var ekki hár maður vexti en vel á sig kominn, herðabreiður, niðurmjór, vöðvastælt ur, léttur í hreyfingum og safnaði ekki holdum með aldri. Hann var fríður sýnum og bauð af sér góðan þokka. Hann var ljúfmannlegur maður, lítillátur og yfirlætislaus og vann störf sín hávaðalaust. Lét hann sér mjög annt um sjúklinga sína, hafði einlægan vilja til að verða þeim að liði, lina vanlíðan þeirra, létta af þeim áhyggjum og ráða bót á meinum þeirra. Enda þótt læknavísindin væru ekki ýkja langt á veg komin framan af starfsævi hans, er ekki efamál, að hann kom mörgu góðu til leiðar í starfi sínu og bætti ófáum sjúklingum sjúkdóma þeirra.

Ekki mun það hafa verið vandalaust fyrir Halldór Hansen, að setjast í sæti Matthíasar Einarssonar, svo mikilfenglegur sem Matthías var, máttugur persónuleiki og dáður læknir. En eins og flest störf, sem Halldór tók að sér, fór honum það hlutverk vel úr hendi. Kom þar til elja hans, ástundun og fjölhæfni, látleysi, lipurð hans í samstarfi og alúðleg framkoma. Lengi hefur veriðá orði haft, hversu góður starfsandi hafi verið og sé á Landakotsspítala þannig að læknar spítalans hafi unnið þar vel og þægilega saman bæði hver og einn út af fyrir sig og einnig sem vel samstilltur og samstæður starfshópur. Ekki er ólíklegt, að Halldór hafi átt þar drjúgan hlut að máli þau ellefu ár, sem hann var yfirlæknir spítalans, oddviti hópsins, sá sem gaf tóninn og markaði viðhorf og starfshætti lækna og starfsliðs þar. Víst er um það, að vel kunnu starfsbræður hans að meta hann. Sýndu þeir honum hug sinn til hans, þegar þeir veittu honum verðuga viðurkenningu á sjötugsafmæli hans og gáfu út afmælisrit með frumsömdum fræðigreinum sínum honum til heiðurs. Var það stórmannleg gjöf, semmun hafa glatt Halldór, og var hún mjög að makleikum.

Eftir að Halldór lét af yfirlæknis störfum á Landakotsspítala, áttihann eftir sextán ár ólifuð. Hannsettist þó ekki að fullu í helgan stein, varð ekki með öllu aðgerðarlaus heldur hélt áfram að sinna almennum lækningum að nokkru leyti til æviloka og hélst verklund hans óþrotin allt fram á síðustu ár. Hann lést hinn 18. maí 1975, og hafði þá læknisstarf hans náð yfir 59 ár. Löngum og farsælum starfsferli var þar með lokið.

Fljótt fennir í sporin og flest læknisverk gleymast fyrr en varir, en á hitt má líta, að vandað læknisstarf ber launin í sjálfu sér eins og raunar svo mörg önnur störf, sem vel eru af hendi leyst. Lífið er stutt, gleymskan bíður flestra eftir starfslok og dauða, fáir lifa lengi í minningunni eftir sinn dag og "losnar og raknar sá hnútur sem traustast vér bindum". Engu að síður mega margir vera þakklátir fyrir þá lífsfyllingu og þýðingarkennd, sem vel unnin störf gefa í aðra hönd á ævitíma þeirra. Það er sú umbun góðra verka, sem ekki er minnst um vert í lífinu. Þá umbun hlaut Halldór Hansen ríkulega á langri ævi. Var hann vel að þeim launum kominn.

Þeim, sem kynntust Halldóri og urðu aðnjótandi liðsinnis hans og ljúfmennsku, munu alla tíð minnast hans með þakklæti og hlýjum hug.

Ólafur Sigurðsson, læknir.