ÞÝSKA ríkisstjórnin hefur ákveðið að bjóða út rekstur nýs GSM-símakerfis og verður kerfið hið fjórða þar í landi. Fyrir eru GSM-símakerfi þýska ríkisfyrirtækisins Deutsche Telekom, þýska fyrirtækisins Mannesmann, sem rekið er í samstarfi við bandaríska fyrirtækið Airtouch Communications,


Rekstur GSM-síma-

kerfis boðinn út í Þýskalandi

Rekstraraðili valinn m.a. eftir útbreiðslu

ÞÝSKA ríkisstjórnin hefur ákveðið að bjóða út rekstur nýs GSM-símakerfis og verður kerfið hið fjórða þar í landi. Fyrir eru GSM-símakerfi þýska ríkisfyrirtækisins Deutsche Telekom, þýska fyrirtækisins Mannesmann, sem rekið er í samstarfi við bandaríska fyrirtækið Airtouch Communications, auk símakerfis sem þýsku fyrirtækin Thyssen og Veba reka í samstarfi við bandaríska símafélagið BellSouth.

Gert er ráð fyrir því að fjöldi tilboða muni berast í rekstur hins nýja kerfis, að því er fram kemur í frétt The Wall Street Journal á miðvikudag. Þrjú fyrirtæki hafa lýst því yfir að þau hyggist bjóða í rekstur kerfisins í sameiningu, en þau eru þýsku fyrirtækin RWE, Viag og breska símafélagið British Telecom. Þá er einnig talið líklegt að AT&T verði meðal bjóðenda.

Þýska ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún muni loka fyrir tilboð um miðjan októbermánuð og að nýr rekstraraðili verði valinn 4. febrúar.

Gengið út frá gæðum og útbreiðslu þjónustu

Doerr Harad, starfsmaður þýska póst- og símamálaráðuneytisins, sem Morgunblaðið ræddi við í gær, sagði að við val á nýjum rekstraraðila væri miðað við hversu mikla útbreiðslu viðkomandi fyrirtæki hygðist bjóða, auk ýmissa tæknilegra og stjórnunarlegra þátta.

Hann sagði að greiða þyrfti fyrir leyfið en það væri fyrirfram ákveðin upphæð og því ekki um það að ræða að leyfið yrði veitt hæstbjóðanda.

Þýska ríkisstjórnin gerir þá lágmarkskröfu til bjóðenda að hið nýja kerfi muni ná til a.m.k. 75% þjóðarinnar fyrir árslok 2001. Hins vegar lítur stjórnin það jákvæðum augum ef boðin er meiri útbreiðsla í útboðinu, að því haft er eftir fulltrúa ráðuneytisins í The Wall Street Journal.

Síðast þegar rekstur GSM-símakerfis var boðinn út í Þýskalandi þrýstist þessi dreifingarprósenta mikið upp í útboðinu og fór svo að Thyssen, Veba og BellSouth, sem hlutu leyfið, skuldbundu sig til þess að ná til a.m.k. 92% þýsku þjóðarinnar innan 5 ára.

Raunar kröfðust forráðamenn fyrirtækjanna að lágmarksdreifing yrði hækkuð í ljósi þessa, til þess að fyrirbyggja að fyrirtækið stæði jafnfætis nýjum aðilum í samkeppninni. Hins vegar hafa þeir lýst því yfir að líkast til muni mikil samkeppni um leyfið tryggja það að dreifingarhlutfallið þrýstist upp fyrir fyrrnefnd 75%.