Drangsnesi-"Ægishjálmur skal ristur á blý og blýmyndinni þrengt á enni sér milli augnabrúnanna. Er hverjum sigur vís sem gengur móti óvini sínum. Ægishjálmur er líka örugg vörn við reiði höfðingja." Svo er í Galdraskræðu Skugga (Jochums M.
Ægishjálmur - þjóð-

sögur af Ströndum

Drangsnesi - "Ægishjálmur skal ristur á blý og blýmyndinni þrengt á enni sér milli augnabrúnanna. Er hverjum sigur vís sem gengur móti óvini sínum. Ægishjálmur er líka örugg vörn við reiði höfðingja." Svo er í Galdraskræðu Skugga (Jochums M. Eggertssonar) lýst galdrastafnum Ægishjálmi sem síðan árið 1930 hefur verið merki Strandasýslu og er stafurinn talinn hafa mikla verkan.

Fá svæði á Íslandi eru í hugum fólks jafn tengd göldrum og dulúð og Strandir. Strandamenn hafa hingað til átt erfitt með að benda þeim sem vildu kynna sér sögur og sagnir af galdramönnum, tröllum og annarri þjóðtrú sem tengist svæðinu á einhverjar ákveðnar bækur þar sem á aðgengilegan hátt væri hægt að finna þjóðsögur af Ströndum. Sögur þessar og sagnir er að finna í öllum helstu þjóðsagnasöfnum sem gefin hafa verið út en ekki endilega tekið fram að þær tengist Strandasýslu sérstaklega.

Því var það að héraðsnefnd Strandasýslu réðst í það að gefa út á bók valdar þjóðsögur úr Strandasýslu. Bókin heitir Ægishjálmur, þjóðsögur af Ströndum. Magnús Rafnsson valdi sögurnar og sá um útgáfuna. Bókin, sem er í kiljuformi, er það sem kalla má ferðamannavæn því hún er af mátulegri stærð til að hafa í farteskinu þegar ferðast er um Strandir. Er í henni kort af Strandasýslu þar sem tölur vísa til kaflanúmera og sýna helstu sögusvið sagnanna. Flestar tegundir sagna eiga fulltrúa í kverinu og þar er að finna sögur úr flestum sveitum sýslunnar og loks má geta þess að þær eru ekki síst valdar með það í huga að góða skemmtun mætti hafa af lestri þeirra.

Héraðsnefnd Strandasýslu kynnti útgáfu bókarinnar að Laugarhóli í Bjarnarfirði 27. júní sl.

Morgunblaðið/Jenný Jensdóttir MAGNÚS Rafnsson les úr Ægishjálmi á útgáfukvöldi bókarinnar að Laugarhóli í Bjarnarfirði 27. júní sl.