KRÖFLUVIRKJUN var gangsett á ný sl. mánudag en rafmagnsframleiðsla hafði þá legið niðri frá 6. maí. Frá upphafi hefur verið sumarstopp í Kröflu í 4-5 mánuði og tíminn notaður til viðhalds. Ein vélarsamstæða hefur verið keyrð í virkjuninni og er framleiðslugeta hennar um 30 MW (megawött).
Kröfluvirkjun gangsett á ný í vikunni Vinna við gufuöflun fyr-

ir vélasamstæðu 2 hafin

KRÖFLUVIRKJUN var gangsett á ný sl. mánudag en rafmagnsframleiðsla hafði þá legið niðri frá 6. maí. Frá upphafi hefur verið sumarstopp í Kröflu í 4-5 mánuði og tíminn notaður til viðhalds. Ein vélarsamstæða hefur verið keyrð í virkjuninni og er framleiðslugeta hennar um 30 MW (megawött). Eins og komið hefur fram hefur stjórn Landsvirkjunar samþykkt að vélasamstæða 2 verði sett upp og að gufu verði aflað til framleiðslu á 15 MW í fyrsta áfanga, sem geta gefið um 100-120 GWst (gígawattstundir) á ári. Áætlaður kostnaður við þennan fyrsta áfanga er um 700 milljónir króna.

Bjarni Már Júlíusson, stöðvarstjóri Mývatnssvæðis, segir að framkvæmdir við gufuöflun hafi hafist fyrir um tveimur vikum en þá var byrjað að höggbora. Þá er verið að flytja borinn Jötun norður í Kröflu og er reiknað með að borun hefjist í kringum næstu mánaðamót.

Tvær lágþrýstiholur boraðar

"Boraðar verða tvær lágþrýstiholur og þá verður gömul og ónýtt hola hreinsuð. Sjálf stöðin verður klár í þessum fyrsta áfanga en til að hægt verði að keyra vél 2 með fullum afköstum þarf að fara í frekari gufuöflun og meðfylgjandi uppbyggingu á gufuveitunni. Ákvörðun um slíkt liggur hins vegar ekki fyrir á þessari stundu," segir Bjarni.

Vél 2 hefur verið til staðar ósamsett í Kröflu frá upphafi og einnig er húsnæði, kæliturn og spennir fyrir hendi. Stefnt er að því að framkvæmdum við þennan fyrsta áfanga verði lokið á síðasta ársfjórðungi næsta árs, að sögn Bjarna, og að þá geti framleiðsla með vél 2 hafist.

Frá því að rafmagnsframleiðsla hófst formlega í Kröflu árið 1978 hefur vél 1 ávallt verið stöðvuð í 4-5 mánuði á sumri og annað hvert ár er vélin tekin upp. Að þessu sinni er stoppið aðeins rúmir tveir mánuðir og er stysta stopp til þessa.

"Ástæða þess að við förum svo snemma í gang aftur hér er m.a. sú að margar stöðvar Landsvirkjunar eru í endurbótum og stækkun vegna aukinnar orkusölu, auk þess sem vatnsbúskapur landsins er undir meðallagi. Því þykir tryggara að fara með Kröflu inn um leið og unnið er að því að bæta vatnsstöðuna."

Næg orka á Kröflusvæðinu

Bjarni segir að á Kröflusvæðinu sé nægjanleg gufuorka til að fullnýta virkjunina. Búið er að gera viðnámsmælingar á svæði í nokkurri fjarlægð frá stöðinni og lofa þær góðu. Hins vegar þarf að bora tilraunaholur til að kanna svæðið betur. Bjarni segist því ekki hafa áhyggjur af því að orkan sé ekki til staðar en hins vegar sé spurning hvað kosti að ná í hana.

Á undanförum árum hefur verið unnið markvisst að því að færa virkjunina og stjórnbúnað hennar til nútímalegra horfs. Bjarni segir, að þessar breytingar kalli m.a. á breytt vaktafyrirkomulag og geri jafnframt fjargæslu stöðvarinnar mögulega. Alls eru 16 stöðugildi í Kröflu og að auki eru þar hátt í 10 sumarstarfsmenn í ýmsum verkefnum.

Hugsanleg bygging tveggja 20 MW stöðva í Bjarnarflagi er nú í umhverfismati, en þar hefur verið rekin 3 MW gufuaflsstöð frá árinu 1969. Bjarni segir að þó ekki hafi verið tekin ákvörðun um að fara í frekari uppbyggingu þar enn, sé nauðsynlegt að hafa tilskilin leyfi til að hefja framkvæmdir þegar kallið kemur.

Morgunblaðið/Kristján VÉLASAMSTÆÐA 1 í Kröflu getur framleitt um 30 MW en eftir að vél 2 hefur verið tekin í notkun í lok næsta árs verður framleiðslugeta virkjunarinnar um 45 MW.BJARNI Már Júlíusson, stöðvarstjóri Mývatnssvæðis, í stjórnherbergi Kröfluvirkjunar.