ÞRÍR bændur í Svarfaðardal, sem skáru niður allt sitt sauðfé vegna riðuveiki 1994 og '95 ætla að hefja fjárbúskap á ný. Bóndinn á Ingvörum keypti reyndar um 90 lífgimbrar sl. haust og hann ætlar að kaupa 15 til viðbótar á komandi hausti. Hins vegar hyggst bóndinn á Tjörn ekki hefja fjárbúskap á ný. Þá er óvíst hvað bóndinn á Þverá gerir í framtíðinni.
Riðuveiki hefur herjað á bændur í Svarfaðardal í langan tíma Þrír bændur taka

lífgimbrar í haust

ÞRÍR bændur í Svarfaðardal, sem skáru niður allt sitt sauðfé vegna riðuveiki 1994 og '95 ætla að hefja fjárbúskap á ný. Bóndinn á Ingvörum keypti reyndar um 90 lífgimbrar sl. haust og hann ætlar að kaupa 15 til viðbótar á komandi hausti. Hins vegar hyggst bóndinn á Tjörn ekki hefja fjárbúskap á ný. Þá er óvíst hvað bóndinn á Þverá gerir í framtíðinni.

Riða kom upp á fimm bæjum í Svarfaðardal á þessum árum, á Þverá, Dæli, Hofsá, Ingvörum og Tjörn og var allt fé á bæjunum skorið niður. Riðuveiki hefur reynst bændum í dalnum erfið viðureignar og haustið 1988-89 var Svarfaðardalur fjárlaus með öllu í kjölfar riðuveiki sem þá kom þar upp.

Þrisvar skorið niður á Tjörn

Kristján Hjartarson bóndi á Tjörn segist hættur fjárbúskap og hann er búinn að rífa fjárhús sín, sem reyndar voru orðin léleg. Þrisvar hefur þurft að skera niður allt fé á Tjörn vegna riðuveiki, nú síðast eftir sauðburð í fyrra. Kristján er aðallega með kúabúskap og hann segir mun hagstæðara fyrir sig að skipta sauðfjárkvóta sínum yfir í mjólkurkvóta og halda áfram á þeirri braut sem og á söngbrautinni.

Gunnar Rögnvaldsson bóndi á Dæli í Skíðadal er búinn að panta 25 lífgimbrar í haust en hann var með um 60 ær er riðan kom upp síðast. Tvisvar hefur hann þurft að skera niður sinn stofn vegna riðu.

Gífurleg vinna við þrif og sótthreinsun

Árni Steingrímsson, bóndi á Ingvörum, sem jafnframt er formaður fjárskiptanefndar, segir að nú síðast hafi fyrst greinst riða hjá sér og í kjölfarið á hinum bæjunum fjórum. Árni sagði að bændur hafi þurft að leggja í gífurlega vinnu við þrif og sótthreinsun á húsum sínum eftir að fénu var slátrað og til viðbótar þurfi þeir nú að úða við heymaur. Hann er nýlega búinn að selja mjólkurkvóta sinn en er þó með eitthvað af nautgripum.

Guðrún Lárusdóttir, húsfreyja á Þverá, segir að þar á bæ hafi ekki verið tekin ákvörðun um áframhaldandi fjárbúskap en þó sé ljóst að ekki verði teknar lífgimbrar í haust. Á Þverá er rekið nokkuð stórt kúabú, sem og á Hofsá og þar er verið að reisa nýtt fjós með 60 básum. Á Hofsá verða teknar lífgimbrar í haust en ekki fékkst uppgefið hversu margar þær verða.

Flestar gimbrarnar eru keyptar af Ströndum og eitthvað frá Þistilfirði og Langanesi og þeim fylgir auðvitað einn og einn lambhrútur.