MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Erni Friðrikssyni fyrir hönd Félags járniðnaðarmanna: "VEGNA fullyrðinga Hannesar G. Sigurðssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra VSÍ í Morgunblaðinu í gær, föstudag 19. júlí, um launakjör og kjarabaráttu málmiðnaðarmanna, telur Félag járniðnaðarmanna mikilvægt að staðreyndir þessarar umræðu verði dregnar fram í dagsljósið.
Yfirlýsing frá formanni Félags járniðnaðarmanna

Fullyrðingar um launa-

skrið standa óhaggaðar

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Erni Friðrikssyni fyrir hönd Félags járniðnaðarmanna:

"VEGNA fullyrðinga Hannesar G. Sigurðssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra VSÍ í Morgunblaðinu í gær, föstudag 19. júlí, um launakjör og kjarabaráttu málmiðnaðarmanna, telur Félag járniðnaðarmanna mikilvægt að staðreyndir þessarar umræðu verði dregnar fram í dagsljósið.

Hannes sakar formann Félags járniðnaðarmanna um að spilla fyrir árangri samningaviðræðna í Hvalfjarðargöngum með því að dreifa röngum upplýsingum um launaþróun í þeim tilgangi að valda ólgu á vinnumarkaðnum og reyna þannig að knýja á um launaskrið.

Upplýsingar þær sem formaður Félags járniðnaðarmanna hefur um verulegt launaskrið í málmiðnaði eru komnar frá Kjararannsóknarnefnd, þar sem Hannes á sæti fyrir hönd VSÍ.

Launakannanir Kjararannsóknarnefndar sýna að allt árið 1995 hafa laun í málmiðnaði verið að hækka. Þær staðfesta trúverðugleika nýjustu könnunarinnar.

Hannes dregur sérstaklega í efa að nýjustu upplýsingar Kjararannsóknarnefndar um laun í málmiðnaði séu réttar. Þær ná yfir síðasta ársfjórðung 1995. Þessar tölur eru byggðar á minna úrtaki en venjulega, en samt álíka stóru og hjá trésmiðum og bifvélavirkjum. Engu að síður staðfesta þessar tölur þá þróun sem fram kemur í þremur undangengnum könnunum Kjararannsóknarnefndar árið 1995.

Tilraun Hannesar til að rugla óskyldum hlutum inn í launagreiðslurnar falla um sig sjálfar. Hann segir að inni í launatölunum séu, auk bónusgreiðslna, verkfæragjald, fæðispeningar, fatapeningar o.fl. Þetta breytir ekki niðurstöðinni, því málmiðnaðarmenn fá ekki greitt verkfæragjald, fatapeninga eða fæðispeninga, að undanskildum blikksmiðum, sem fá greitt verkfæragjald.

Hannes sakar Félag járniðnaðarmanna um að ýta undir ólgu með því að gefa rangar upplýsingar um laun málmiðnaðarmanna. Staðreyndin er sú að eingöngu er vitnað til upplýsinga Kjararannsóknarnefndar og þær framreiknaðar með 3% hækkun sem kom til framkvæmda um síðustu áramót. Þessar ósönnu og alvarlegu ásakanir Hannesar falla um sjálfar sig þegar kannanir Kjararannsóknarnefndar eru skoðaðar í samhengi fyrir árið 1995.

Til viðbótar er vert að geta þess að þó Kjararannsóknarnefnd hafi ekki gert launakannanir á árinu 1996, þá hefur þessi launaþróun haldið áfram í málmiðnaðinum. Sem betur fer virðist lokið samdráttartímabili launastöðvunar og atvinnuleysis í málmiðnaði. Eftirspurn eftir málmiðnaðarmönnum er mikil og fer vaxandi.

Fullyrðingar Hannesar um það að iðnaðarmenn við Hvalfjarðargöng komi til viðræðna um launakjör á grunni rangra upplýsinga um laun sín eru einnig út í hött. Þar stranda samningar einfaldlega á því að vinnuveitendur bjóða kjör sem mundu þýða launalækkun fyrir hluta viðsemjenda þeirra. Þetta hafa starfsmenn staðfest.

Öðru vísi mér áður brá, kynni einhver að segja um þær hnútur sem hér er kastað að Félagi járniðnaðarmanna. Til skamms tíma kepptust vinnuveitendur við að segja að laun væru of há, á meðan launþegar sögðu þau of lág. Sú sérkennilega staða er nú komin upp að fulltrúi vinnuveitenda keppist við að telja mönnum trú um að laun málmiðnaðarmanna séu lægri en fram kemur í fréttabréfi Kjararannsóknarnefndar ­ þar sem þessi sami fulltrúi vinnuveitenda gefur út þessar upplýsingar.

Í þessu tilfelli verður Vinnuveitendasambandið þó að sætta sig við að lögmál markaðarins um framboð og eftirspurn, sem væntanlega eru vel þekkt á þeirri skrifstofu, hafa einfaldlega orðið til þess að þrýsta upp launum í málmiðnaði. Þau hafa að öllum líkindum hækkað frá því Kjararannsóknarnefnd gerði sína síðustu könnun í árslok 1995.

Meðfylgjandi eru upplýsingar úr fréttabréfum Kjararannsóknarnefndar sem staðfesta þá launaþróun sem átt hefur sér stað í málmiðnaði."Launabreytingar hjá málmiðnaðarmönnum á höfuðborgarsvæðinu árið 1995 skv. fréttabréfum Kjararannsóknanefndar

Greitt tímakaup í dagvinnu Vinnustundir Hreint Neðri Meðaltal Efri Meðal Greidd dagv. Heildar á viku tímakaup fjórðungur dagvinnu fjórðungur tímakaup laun á mán. mánaðarlaun

1. ársfj. 1995 51,6 602 kr. 552 kr. 608 kr. 668 kr. 724 kr. 105.400 kr. 161.900 kr. 2. ársfj. 1995 52 622 kr. 571 kr. 630 kr. 711 kr. 746 kr. 109.200 kr. 167.990 kr. 3. ársfj. 1995 49,3 648 kr. 570 kr. 679 kr. 736 kr. 783 kr. 114.500 kr. 167.200 kr. 4. ársfj. 1995* 52 666 kr. 599 kr. 684 kr. 754 kr. 812 kr. 118.600 kr. 183.000 kr.

Með 3% hækkun 686 kr. 617 kr. 705 kr. 777 kr. 836 kr. 122.158 kr. 188.490 kr. 1. janúar 1996

* Nýjasta könnun KjararannsóknarnefndarFjöldi vinnustunda að baki upplýsingunum á hverjum tíma

1. ársfj. 1995 76.000 2. ársfj. 1995 60.000 3. ársfj. 1995 41.000 4. ársfj. 1995 30.000