ALÞJÓÐLEGI dómstóllinn, sem settur var upp í Den Haag í Hollandi til að rétta yfir mönnum, sem grunaðir eru um að hafa framið stríðsglæpi í stríðinu í fyrrverandi Júgóslavíu, hefur að undanförnu sætt nokkurri gagnrýni fyrir vinnubrögð sín.
Stríðsglæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna í Haag Vinnubrögð dómstólsins

sæta aukinni gagnrýni

ALÞJÓÐLEGI dómstóllinn, sem settur var upp í Den Haag í Hollandi til að rétta yfir mönnum, sem grunaðir eru um að hafa framið stríðsglæpi í stríðinu í fyrrverandi Júgóslavíu, hefur að undanförnu sætt nokkurri gagnrýni fyrir vinnubrögð sín.

Mikið er í húfi að dómstólnum takist að byggja upp trúverðugleika hjá öllum aðilum, sem er þó erfitt verk með tilliti til þess að hann er undir miklum alþjóðlegum þrýstingi. Í fyrradag sakaði rússneski utanríkisráðherrann dómstólinn um hlutdrægni, og tíndi til sem rök fyrir þessari skoðun sinni að hann væri of pólitískur og gætti ekki jafnvægis í aðgerðum sínum.

Vitni sökuð um að bera ljúgvitni

Í réttarhöldum yfir Bosníu- Serbanum Dusan Tadic, sem hafa verið á dagskrá dómstólsins undanfarna daga, hafa nú tveir bosnískir múslímar verið sakaðir um að bera ljúgvitni.

Dómstóllinn hefur nú starfað í níu vikur. Á þeim tíma hefur hann hlýtt á vitnisburð 33 vitna, og byggt þannig upp mynd af víðtækum og skipulegum þjóðernishreinsunum Serba í héruðum í Bosníu.

Dusan Tadic er ákærður fyrir 15 morð og misþyrmingar á múslímskum föngum í fangabúðunum í Omarska, Keraterm og Trnopolje á árinu 1992. Hann heldur því fram að villzt hafi verið á mönnum, hann hafi aldrei komið í búðirnar. Fjölmörg vitni, sem lifðu af vist í búðunum hafa borið, að þau hafi séð Tadic þar. En verjendur hans halda því fram að mörg vitnanna fari aðeins með sögusagnir og lýsi Tadic aðeins eftir frásögnum annarra. Þannig tókst verjendum hans að leiða tvö vitni í mótsagnir í vitnisburði sínum, og saka nú vitnin um að bera vísvitandi ljúgvitni vegna haturs síns á öllum Serbum; þeim sé sama hver sé dæmdur, þau vilji aðeins hefnd.

Mál Tadic er aðeins eitt af mörgum og sýnir þann vanda sem rétturinn er í. Hann þarf að temja sér mikla varkárni í vinnubrögðum þar sem hann starfar í hápólitísku umhverfi. En það eru einmitt vinnubrögð réttarins sem hafa hlotið mestu gagnrýnina upp á síðkastið.

Sérfræðingar óvandvirkir

Í Der Spiegel fá vinnubrögð sérfræðinga dómstólsins, sem höfðu það hlutverk að safna saman heimildum og vitnisburðum um stríðsglæpi í stríðinu, ekki háa einkunn. Til dæmis hafi þeir aðeins endurtekið fyrir réttinum það, sem vitnazt hafði fáum vikum eftir fall Srebrenica og birzt hafði í fjölmiðlum um allan heim. Sérfræðingur dómstólsins, sem sérstaklega var sendur til að rannsaka voðaverk í Austur-Bosníu, Frakkinn Jean-René Ruez, vitnaði í framburði sínum hvað eftir annað í blaðagreinar úr Figaro og Washington Post .

Spiegel segir Ruez hafa blandað saman staðfestum frásögnum af staðreyndum við hryllingssögur, sem hann þekkti sjálfur aðeins sem sögusagnir og hafði ekki leitað staðfestingar á.

Allar óstaðfestar sögusagnir, sem fram eru bornar fyrir réttinum, eru fengur fyrir verjendur hinna ákærðu. Þeir geta með þeim dregið trúverðugleika og hlutleysi réttarins í efa, taki hann tillit til þeirra. Þær staðreyndir sem kunnar eru og staðfestar um atburðina við Srebrenica eru nógu hryllilegar, engin þörf er á að tefla trúverðugleika þeirra í tvísýnu með óstaðfestum sögusögnum.

Heimildir: Politiken, Der Spiegel, Reuter .

Reuter BOSNÍSK kona yfirgefur líkhúsið í borginni Visoko eftir að hafa borið kennsl á lík ættingja síns, sem grafið var upp við þorpið Svarke. Morðin voru hluti þjóðernishreinsana Serba í Bosníu.