SIGURÐUR Þórólfsson gullsmiður hefur opnað sýningu á silfurmunum í Listasafni Kópavogs ­ Gerðarsafni, neðri hæð. Sýninguna nefnir hann Í bárufari og vísar þar til fjörusteina sem hann notar í mörg verka sinna. Um 40 verk eru á sýningunni, þar af yfir 30 silfurskúlptúrar, en einnig eru sýnd örsmá skipslíkön úr gulli og silfri, skreytt eðalsteinum.
Sigurður Þórólfsson gullsmiður sýnir silfurmuni

í Listasafni Kópavogs ­ Gerðarsafni Smíðar fyrst og fremst með höfðinu

SIGURÐUR Þórólfsson gullsmiður hefur opnað sýningu á silfurmunum í Listasafni Kópavogs ­ Gerðarsafni, neðri hæð. Sýninguna nefnir hann Í bárufari og vísar þar til fjörusteina sem hann notar í mörg verka sinna. Um 40 verk eru á sýningunni, þar af yfir 30 silfurskúlptúrar, en einnig eru sýnd örsmá skipslíkön úr gulli og silfri, skreytt eðalsteinum.

Sigurður er um margt óvenjulegur listamaður, en hann er fjötraður í hjólastól vegna vöðvarýrnunar. Til þess að geta smíðað setur hann leðurólar utan um úlnliðina og með vogarafli getur hann lyft höndunum upp í vinnustellingar og skapað þannig fíngerða gripi úr gulli og silfri.

"Þótt ég hafi misst töluverðan mátt á síðustu árum er stöðugleikinn enn til staðar, enda er taugakerfið í góðu lagi. Ég hef því fullkomna stjórn á því sem ég er að gera," segir Sigurður. "Maður smíðar líka fyrst og fremst með höfðinu en ekki höndunum, handlagni er því mjög villandi hugtak. Það er miklu nær lagi að segja að menn séu hagir."

Sigurður viðurkennir þó að sum viðfangsefni hafi reynst sér óþægur ljár í þúfu. Hann hafi því oft orðið að skipta um aðferð. "Það hefur yfirleitt gengið, en ef allt um þrýtur kalla ég bara á konuna mína," segir listamaðurinn og glottir. "Síðan er ég náttúrulega búinn að vélvæða mig, er kominn með vélsög, sem hefur létt mér lífið."

Engin áhætta tekin

Margir hlutirnir sem Sigurður hefur skapað er agnarsmáir, einkum í skipslíkönunum, en hann líkir eins nákvæmlega eftir fyrirmyndinni og kostur er. Nefnir Sigurður sem dæmi líkan af Hval 8, sem hann smíðaði um árið, en þá fylgdi hann teikningum af skipinu út í ystu æsar. "Í því tilfelli þorði ég reyndar ekki að taka neina áhættu, enda er Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. kröfuharður maður sem gjörþekkir skipin sín."

Segja má að hinar öfgarnar hafi komið fram þegar Sigurður var að glíma við Húnaröstina SF, en þegar upp var staðið kom í ljós að peran var of stór á líkaninu. Hákon Magnússon skipstjóri og aflakló lét það hins vegar ekki á sig fá, heldur lét einfaldlega breyta Húnaröstinni í samræmi við líkanið. "Ég veit ekki betur en það hafi gefið góða raun," segir Sigurður.

Sigurður er enginn nýgræðingur í listinni. Á öndverðum sjöunda áratugnum vann hann mikið í tré en neyddist til að hætta þegar "litla íbúðin sem ég bjó í var orðin full". Sneri hann sér þá að silfrinu - "maður talar ekki um gull, þar sem það er of dýrt til að leika sér með" - og fann fljótt köllunina. "Silfrið er óskaplega skemmtilegt efni, það rekur svo mikið á eftir manni, enda verður silfur ekki að silfri fyrr enn á lokastiginu. Allt í einu er maður kominn með glampann."

Um langt árabil sinnti Sigurður listinni, þó eingöngu í hjáverkum. "Í aldarfjórðung var ég skrifstofustjóri í stóru fyrirtæki en varð að láta af störfum fyrir sex árum vegna vöðvarýrnunarinnar. Í fyrstu var ég hræddur við að fara heim og eyða öllum deginum á verkstæðinu í bílskúrnum. Fljótlega gerði ég mér hins vegar grein fyrir því að sá ótti var ástæðulaus, enda er þetta miklu skemmtilegra en að blaða í skjölum og hanga í símanum. Það var ótrúlegur munur að losna úr amstri hversdagsins."

Sigurður lét reyndar ekki þar við sitja, heldur tók próf í gullsmíði árið 1992. Sýningin í Gerðarsafni er fjórða einkasýning hans, en síðast sýndi hann í anddyri Norræna hússins fyrir fjórum árum. Sigurður hefur auk þess tekið þátt í mörgum samsýningum. Má þar nefna fjórar alþjóðlegar sýningar í London, þar sem hann hlaut viðurkenningu fyrir verk sín.

Á sýningunni í Gerðarsafni verður jafnframt sýnt myndband sem lýsir vinnu Sigurðar við skipslíkönin. Myndatöku og klippingu annaðist Páll Reynisson. Sýningin er opin daglega frá kl. 12-18, nema mánudaga, og lýkur 20. október.

Sigurður

Þórólfsson

Morgunblaðið/Þorkell HVALUR 8, eitt af skipslíkönum Sigurðar, er í eigu Kristjáns Loftssonar forstjóra Hvals hf.