Unnið að stofnun KH-ÍBV í Eyjum Grunnur að stórveldi Ákvarðanir um sameiningu íþróttafélaganna Týs og Þórs eru ekki sársaukalausar hjá Vestmannaeyingum.

Unnið að stofnun KH-ÍBV í Eyjum Grunnur að stórveldi Ákvarðanir um sameiningu íþróttafélaganna Týs og Þórs eru ekki sársaukalausar hjá Vestmannaeyingum. Með þeim telja þeir sig þó hafa lagt grunn að nýju íþróttastórveldi sem byrjar með hreint borð fjárhagslega og fær allar tekjur gömlu félaganna. Helgi Bjarnason kynnti sér hvernig Eyjamönnum tókst að yfirvinna félagsríginn.

TVÖ stór íþróttafélög hafa verið í Vestmannaeyjum í 75 ár, Þór sem stofnaður var 1913 og Týr frá 1921. "Þessi félög eru búin að vinna vel fyrir byggðarlagið. Þau tóku bæði þátt í Íslandsmóti, voru yfirleitt í annarri deild og það var lítið um leiki. Þannig ólust kynslóðir upp," segir Viktor Helgason, þekktur knattspyrnumaður með ÍBV fyrr á árum. Eftir að Íþróttabandalag Vestmannaeyja var stofnað 1946 skráðu Þórarar og Týrarar sig í Íslandsmót í öllum flokkum undir merkjum ÍBV en einhvern tíma áður höfðu þeir sameiginlegt lið undir merki KV. Fyrir 20 árum var ákveðið að brjóta þetta allt upp að nýju, ÍBV sá um meistara- og 2. flokk en félögin sendu sér lið í yngri flokkunum. Með samningum fyrir hálfu öðru ári var ákveðið að leika undir merkjum ÍBV nema í allra yngstu flokkunum með því að félögin tóku að sér að reka ákveðna flokka. Starfið í knattspyrnunni hefur því verið á höndum þriggja aðila, ÍBV, Þórs og Týs.

Síðustu árin hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til að breyta þessu og sameina allt íþróttastarfið. Alvarleg tilraun var gerð fyrir ári fyrir forgöngu framkvæmdastjóra stærstu fyrirtækjanna í bænum og bæjarins en hún mistókst. Mismunandi fjárhagsstaða félaganna hefur haft sín áhrif en Þór skuldar mun minna en Týr. Talið er að síðarnefnda félagið skuldi um 40 milljónir kr. og það er í miklum fjárhagserfiðleikum. Þá hefur rígurinn milli félaganna í Eyjum áreiðanlega haft sitt að segja, sumir hafa líkt honum við trúarbrögð.

Fyrir nokkrum mánuðum breyttist andrúmsloftið, forráðamenn félaganna spurðust fyrir um það hjá bæjarstjórn hvernig hún gæti komið að málinu ef félögin sameinuðust. Kosin var viðræðunefnd allra aðila og þar tókst samkomulag um málið.

Bærinn leggur fram 52 millj.

Týr og Þór sameinast í eitt félag, Knattspyrnu- og handknattleiksfélag ÍBV, skammstafað KH-ÍBV, sem aðeins mun vera með knattspyrnu og handknattleik á sinni könnu eins og nafnið bendir til. Félagið verður aðili að Íþróttabandalagi Vestmannaeyja ásamt fleiri en smærri félögum um aðrar íþróttagreinar sem stundaðar eru í Eyjum. Vestmannaeyjabær kaupir öll mannvirki félaganna, þ.e. tvö félagsheimili, tvo íþróttasali og þrjá knattspyrnuvelli, fyrir 52 milljónir kr. gegn því að félögin falli frá samningi sem þau gerðu við bæinn um uppbyggingu íþróttamannvirkja en þar er kveðið á um byggingu nýs íþróttahúss. Kaupverð eignanna mun ásamt fjármagni frá helstu stuðningsaðilum félaganna duga til að greiða allar skuldir félaganna, að sögn forráðamanna þeirra.

"Félögin leituðu til okkar og við buðumst til að kaupa eignirnar á 52 milljónir kr. Þetta eru eðlileg viðskipti en ekki styrkur til félaganna," segir Guðjón Hjörleifsson bæjarstjóri. Hann segir að það hafi þó einnig haft áhrif að menn telji að sameining félaganna verði mikið framfaraspor í æskulýðsmálum og muni vafalaust bæta árangur íþróttafólksins í framtíðinni. Aðspurður um kaupverðið og áhrif á fjárhag bæjarins bendir bæjarstjórinn á að sumum íþróttamönnum hafi þótt þetta of lágt verð miðað við hvað kostar að byggja svona aðstöðu en sumum skattgreiðendum hafi þótt þessar eignir of dýru verði keyptar. "Ég tel að flestir geti verið sáttir við niðurstöðuna," segir Guðjón. Hann segir að á móti sé hætt við áform um að byggja nýtt stórt íþróttahús. Samkvæmt samningum hafi bærinn átt að greiða 80% byggingarkostnaðar, eða 107 milljónir kr., en íþróttafélögin 20%. Í staðinn verður íþróttahús Týs nýtt betur. Guðjón segir að vissulega hefði verið gott að fá nýtt íþróttahús með handboltavelli samkvæmt Evrópustöðlum en það yrði að bíða.

ÍBV vantar bakland

En hvað breyttist hjá félögunum? Viktor Helgason svarar því til að þeim íþróttamönnum sem hafi alist upp við það að keppa meira undir merkjum ÍBV en Þórs eða Týs hafi runnið til rifja umkomuleysi ÍBV. Það hafi verið andlitið út á við en eignalaust og enginn vildi eiga það þegar illa gengi. "ÍBV hefur ekki haft neitt bakland og það hefur lent á fáum mönnum að reka félagið. Það var orðin brýn nauðsyn að breyta þessu," segir Viktor sem var í sameiningarnefndinni fyrir hönd Týs. "Þessi félög áttu sinn tilverurétt en eru börn síns tíma. Nú erum við ekki aðeins í samkeppni innbyrðis heldur alveg eins í samkeppni um íþróttafólkið við félög uppi á landi og jafnvel erlendis," segir hann einnig.

Þór I. Vilhjálmsson, sem sat í sameiningarnefndinni fyrir hönd Þórs, segir að Þórarar hafi staðið á móti sameiningu vegna þess að félagið hafi staðið vel fjárhagslega en það hafi verið fjármálin sem á endanum ýttu félögunum í eina sæng. "Sameiningin er ekki sársaukalaus. Það eru margir búnir að vinna mikið fyrir félagið sitt, sumir í áratugi. Þessi hús og íþróttasvæði voru byggð í sjálfboðavinnu, og menn hafa miklar taugar til félaganna. En það þýðir ekki að velta sér upp úr fortíðinni heldur líta fram á veginn," segir Þór.

Jóhannes Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, segir að mikið óhagræði hafi verið að því að reka þrjár einingar með tveimur þjálfurum og framkvæmdastjórum og tvöföldu kerfi á öllu. Það væri öllum fyrir bestu að nýta fjármagnið betur. En ástæðurnar fyrir sameiningu eru ekki síður faglegar. "Það er fleira sem glepur hjá unglingunum en áður og sífellt að verða erfiðara að halda úti tveimur liðum í yngri flokkunum," segir Jóhannes.

Íþróttaklúbbur í Týsheimilinu

Aðalfundir beggja félaganna samþykktu samrunann í nóvember. Ágreiningur kom upp um afgreiðsluna hjá Þór og ákvað stjórn félagsins að leita álits dómstóls ÍSÍ. Niðurstaðan varð sú að boða nýjan fund næstkomandi fimmtudag til að bera málið aftur upp. Þór Vilhjálmsson á ekki von á að það breyti neinu. Þegar er farið að vinna að undirbúningi að stofnun og starfi nýja félagsins, KH-ÍBV, og telur Þór allar líkur á að það verði stofnað í lok desember. Þá verður kosin stjórn og ráðinn framkvæmdastjóri. Félagið fær afnotarétt af félagsheimilunum og Vestmannaeyjabær mun fela því rekstur allra íþróttamannvirkja bæjarins gegn ákveðinni greiðslu á ári. Þórsheimilið verður stjórnstöð félagsins en gert er ráð fyrir að Týsheimilið verði félagsmiðstöð, þar verði einhvers konar íþróttaklúbbur ÍBV með aðstöðu.

Bærinn stefnir að því að koma upp búningsaðstöðu og tækjageymslu fyrir Hásteinsvöll í viðbyggingu við Týsheimilið. Myndi það bæta úr brýnni þörf fyrir knattspyrnumennina, að sögn Jóhannesar, og jafnframt gætu þeir nýtt aðra aðstöðu í félagsheimilinu. Þá er að því stefnt að laga aðstöðu fyrir handboltamenn við íþróttahúsið, meðal annars fyrir félagsstarf og veitingar, en sú framkvæmd hefur ekki verið ákveðin.

Fjögur lið í fyrstu deild

Íþróttaforystan í Eyjum er bjartsýn á framtíðina. Félagið byrjar með hreint borð í fjármálum en fær til sín þær tekjur sem Þór og Týr hafa haft af þjóðhátíð og stórum íþróttamótum yngri aldursflokka, til viðbótar þeim tekjum sem handboltinn og fótboltinn höfðu fyrir. "Nú fer fjármagnið í starfið en ekki í það að greiða afborganir og vexti af húsunum," segir Jóhannes. Viktor segir að hægt verði að vinna skipulegar að uppbyggingu yngri flokkanna. ÍBV er með karla- og kvennalið í 1. deild, bæði í handbolta og fótbolta. Ólíklegt er að tæplega 5.000 manna bæjarfélag hafi áður átt fjögur fyrstudeildarlið í þessum greinum á sama tíma. Forystumenn félaganna segja að þetta sé fullstór biti en segja að með þeim aðgerðum sem nú er verið að grípa til skapi möguleikar til að stefna enn hærra.

"Við erum að feta okkur inn á nýjar slóðir og þurfum að byggja upp nýtt skipulag. Það skiptir miklu máli að bæjarbúar styðji strax vel við bakið á þessu nýja félagi svo starf þess verði árangursríkt," segir Þór. Jóhannes segist verða var við miklar væntingar en segir að það taki sinn tíma að stokka spilin upp á nýtt og menn verði að sýna þolinmæði á meðan.

Eyjamenn eru þegar farnir að velta því fyrir sér hvaða áhrif það muni hafa á bæjarbraginn þegar íþróttafélögin Þór og Týr verða lögð niður. Hvaða farveg félagsrígurinn finnur sér. Þegar er orðið ljóst að Týsgata og Þórsgata verða áfram á þjóðhátíð Vestmannaeyja.

Morgunblaðið/Sigurgeir

FORYSTUMENN íþrótta í Eyjum, f.v. Þór I. Vilhjálmsson Þórari, Viktor Helgason Týrari og Jóhannes Ólafsson ÍBV-maður.