María, María BJARNI Bjarnason sendi nýlega frá sér skáldsöguna Endurkoma Maríu. Hún fjallar um Maríu mey í samfélagi nútímans, væntingar hennar til lífsins og áhrif hennar á samferðamenn sína.

María, María BJARNI Bjarnason sendi nýlega frá sér skáldsöguna Endurkoma Maríu. Hún fjallar um Maríu mey í samfélagi nútímans, væntingar hennar til lífsins og áhrif hennar á samferðamenn sína. Hvernig vaknaði hugmyndin að Endurkomu Maríu?

"Verkið er svar við óhugnaðarsögum eins og Dracula og Frankenstein þar sem óhugnanlegar persónur eru settar í normalt þjóðfélag" segir Bjarni og kímir. "Mér þótti gaman að setja persónu sem er tákn fyrir guðhræðslu, trúartraust, hreinleika og heilbrigði í nútímaþjóðfélag. Þetta er vangavelta um hvað myndi gerast ef María kæmi aftur, hvernig persóna hún væri. Hún bjó í allt öðruvísi þjóðfélagi á sínum tíma þar sem konur höfðu ekki mikinn rétt og gátu lítið valið. Ég er líka að skoða kvenpersónu sem frelsara. Frelsarar eru oftast karlmenn, Budda, Múhameð og Jesú. Það er oft talað um að karleðlið sé úthverft og aggresíft en kveneðlið meira passíft og innhverft. Meðan Jesú spreðaði kraftaverkum í kringum sig eins og töframaður á sviði þá gerast kraftaverkin meira á Maríu, eða undrin."

Er verkið trúarlegs eðlis?

"Ég er ekki vantrúaður á trú eða trúaður á vantrú. Fólk þarf ekki að hafa lesið Biblíuna eða vera trúað til þess að njóta verksins. Það eru margar skírskotanir í Biblíuna, nöfn og atburðir en lesandi þarf ekki að þekkja til. Verkið er ekki beinlínis trúarlegs eðlis en það fer eftir því hvernig lesandinn sér það. Það fjallar samt í aðra röndina um leit að einhverju að trúa á. Ég reyndi að byggja verkið þannig upp að allir eiga að geta haft gaman af. Þeir sem vilja kafa dýpra geta farið út í kristna táknfræði og almenna táknfræði. Verkið er skrifað bæði fyrir vitundina og undirvitundina."

Ástin er stór þáttur í lífi Maríu en það er erfitt að nálgast hana. Hvað um ástina í verkinu?

"Í öllum ástarsamböndum eru þrír aðilar; kona, maður og veröldin sjálf. Það getur verið guð og nærtækast þegar María er annars vegar. Maðurinn er að keppa við guð um konuna. María er þannig gerð að menn geta ekki nálgast hana nema þeir elski hana eins og hún er en meðan þeir elska hana eins og þeir halda að hún sé eða vilja að hún sé þá svíður þá undan snertingu við hana. Heitasta ósk Maríu er að lifa eðlilegu lífi en vegna þess hvernig hún er og hvaða áhrif hún hefur á aðra reynist það erfitt. Mikael, sögumaðurinn, þarf að sigrast á sjálfum sér til að geta nálgast hana og það verða mikil átök áður en það gerist."

iskupinn hnussaði fyrirlitlega og staðhæfði:

"Veistu, að ég held að þú hafir lesið bókina Endurkoma Maríua eftir prófessor Jóhannes á laun og þekkir mjög vel inntak hennar."

María rak upp stór augu. Hvers vegna var hann að tala um þessa bók? Af hverju ríkti þetta rafmagnaða andrúmsloft í salnum? Hún velti fyrir sér hvort stæði til að fella hana fyrir að hafa ekki lesið bók sem engin leið var að fá. Hún stundi upp:

"Það getur veri að ég þekki eitthvað til þess sem fjallaði er um í bókinni."

"Þú ert sem sagt að segja mér okkur að þú vitir hvað stendur í bókinni Endurkoma Maríu, þótt þú hafir aldrei lesið hana."

"Nei herra, ég meinti, maður les svo mikið . . ."

"Þú ætlar kannski næst að telja mér trú um að þú sért María mey, endurborin."

María kímdi. En það var grafarþögn í salnum. Hún hafði búist við almennum hlátri. Hún leit á Pétur í von um skilning en hann horfði jafn eftirvæntingarfullur á hana og allir aðrir. Það sló út á henni köldum svita.

Úr Endurkomu Maríu

Bjarni Bjarnason.