María mey snýr aftur BÓKMENNTIR Skáldsaga ENDURKOMA MARÍU eftir Bjarna Bjarnason. Ormstunga, 1996 ­ 160 síður. Verð kr. 3.190.

María mey snýr aftur BÓKMENNTIR Skáldsaga ENDURKOMA MARÍU eftir Bjarna Bjarnason. Ormstunga, 1996 ­ 160 síður. Verð kr. 3.190. HÚN ER guðdómleg mærin sem sefur svo undur vær undir gullstirndum himni á málverki Kristínar Gunnlaugsdóttur, sem prýðir kápu Endurkomu Maríu eftir Bjarna Bjarnason. Og María þessi, önnur aðalpersóna bókarinnar, er heldur ekki þessa heims. Þegar hún verður kynþroska hættir hún að sjást í spegli. Og um það bil er hún er að ljúka doktorsprófi með hæstu einkunnir sem um getur í samfélagi sögunnar, þá eyðist allt sem hún hefur skrifað sem og allar opinberar upplýsingar um hana. María er ólík öllum öðrum, hún er undurfögur, ofurgóð og ósnertanleg gyðja sem sumt fólk vill trúa á en aðrir vilja eyða.

Sögusviðið er órætt, gæti verið eitthvert Mið-Evrópuland, og sagan er látin gerast í nútímanum, um það vitnar tölva Maríu, en að flestu öðru leyti er sögutíminn æði óljós og gæti allt eins verið fyrir einhverjum öldum. Þetta er ævintýri og sækir sitthvað til bókmennta sem hafa verið í tísku síðustu árin, svo sem töfraraunsæis og heimildaskáldsagna. Allt getur gerst, svo fremi sem það þjónar frásögninni. Og höfundurinn leyfir sér líka að leika með undarlega atburði þar sem hann setur einhverja mikilfenglegustu goðsagnaveru allra tíma, Maríu mey, hina óflekkuðu jómfrú og móður eingetins sonar Guðs, inn í samtíma okkar.

Sagan er í hefðbundnu minningaformi og hringlaga; maður sest niður til að rita endurminningar sínar og lok bókarinnar eru jafnframt upphaf hennar: "Afi var virtur guðfræðingur við Kristsháskóla þar til hann var hrakinn frá störfum vegna ásakana um að boða villutrú. Hann skrifaði spádómsrit . . . " Sögumaðurinn heitir Mikael ­ ber biblíunafn eins og margar aðrar persónur ­ og þetta spádómsrit Jóhannesar afa hans hét einmitt Endurkoma Maríu. Spádómsritið hafði vakið mikla athygli en Jóhannes var hrakinn frá störfum af æðsta embættismanni kirkjumála, biskupnum svarteygða, Jean Sebastían.

Mikael hefur alist upp hjá afa sínum en við fráfall hans heldur Mikael út í heim og starfar við sirkus í sjö ár ­ það er hans manndómsvígsla. Þegar hann snýr aftur smíðar hann mikla sirkusvél ­ hann er nefnilega uppfinningamaður ­ og heldur með hana inn í borg nokkra í von um að afla sér tekna. Þar ber fundum þeirra Maríu saman á lestarstöð og ævintýrið hefst; hún er á engan hátt venjuleg kona, karlar með líkamlegar langanir geta ekki snert hana og Mikael þarf að kljást við biskupinn Jean Sebastían sem hyggst kanna meydóm Maríu með vélum.

Sagan er skrifuð af snerpu og ævintýraleg frásögnin ber lesandann með sér. Hann fylgir þeim Maríu og Mikael og upplifanir þeirra eru í senn eins og úr fornri opinberunarbók og James Bond kvikmynd. Persónusköpunin minnir einmitt að ýmsu leyti á kvikmyndir, persónur eru týpur, góðar eða illar og eins og í spennukvikmynd drífur atburðarásin söguna áfram, einn atburður tekur við af öðrum; höfundur dregur ekki seiminn og sleppir málalengingum sem hefðu getað freistað margra sem væru að skrifa sögu sem býður upp á jafn fjölbreytilegar vísanir. Og vissulega er þetta ekki bara spennusaga byggð á goðsögum, heldur líka hugljúf saga um ást sem aldrei getur orðið. Hryllingurinn skýtur einnig upp kollinum, og minnir í senn á Særingarmanninn með Lindu Blair og Meistarann og Margarítu, þar sem María ætlar að gefa Mikael líkama sinn.

Það kemur þó fyrir að höfundi dveljist að óþörfu og missi marks, en aldrei eins og í frásögninni af þegar Mikael smíðar tól sem hann kallar "kynlífshjálpartæki óendanleikans," og lýsir yfir: " . . . Guð skapaði manninn sem kynlífssæluþraut svo að ég . . . gæti leyst hana" (122). Þessi vél bætir engu við skynjun lesandans á ást þeirra Maríu, frekar að það geri hana háðulega. Þá virðist höfundur ekki treysta lesandanum til að sjá í gegnum Jean Sebastían, þegar hann er sagður hafa símanúmerið 999­333, en útkoman úr því dæmi er hið djöfullega númer 666, einföld klisja og ofnotuð.

Í textanum fer höfundurinn óvenjulega leið þegar hann kýs að afmarka hugsanir Mikaels og Maríu með gráðumerkjum; litlum hringjum, einhverskonar hugsunarblöðrum. Það er sérkennilegt en venst þegar á líður. Og þá er skrýtið að skrifa ekki öll nöfn upp á íslensku, það hefði verið eðlilegt að sjá Salome og Judith sem Salóme og Júdit, rétt eins og Gabríel og Samúel.

Bjarni Bjarnason hefur áður sent frá sér ljóð, smásögur, skáldsögur og leiktexta sem ekki hafa farið hátt. Hér hefur hann skrifað ævintýralega sögu, sem ætti að vekja athygli á höfundinum, skemmta lesendum og ekki valda neinum vonbrigðum.

Einar Falur Ingólfsson.

Bjarni Bjarnason