Tímamótasamningur Svargrein Um hvað snerist eiginlega, spyr Birgir Björn Sigurjónsson, samstaða launamanna á síðastliðnu vori? Í MORGUNBLAÐINU 11. og 12. des. sl. birtust greinar eftir þá Pétur Blöndal og Guðmund Gunnarsson um frumvarp til laga um...

Tímamótasamningur Svargrein Um hvað snerist eiginlega, spyr Birgir Björn Sigurjónsson, samstaða launamanna á síðastliðnu vori? Í MORGUNBLAÐINU 11. og 12. des. sl. birtust greinar eftir

þá Pétur Blöndal og Guðmund Gunnarsson um frumvarp til laga um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins. Báðir greinarhöfundar ráðast af alefli gegn frumvarpinu og finna því allt til foráttu.

Gagnrýni Péturs

Pétur heldur því fram að frumvarpið leysi ekki vanda lífeyriskerfis starfsmanna ríkisins þrátt fyrir samtímagreiðslur í A-deild vegna þess að skuldir gamla kerfisins séu nú yfir 110 milljarðar og vaxandi. Pétur sér enga lausn "nema að opinberir starfsmenn sætti sig við lægri laun vegna góðra lífeyrisréttinda". Pétur veit að umræddir starfsmenn ríkisins hafa einmitt þurft að sætta sig við lægri dagvinnulaun en ella til að fjármagna þessi réttindi. Umsamin kjör hafa tekið mið af þessu. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að tekjur lífeyrissjóðsins aukist sérstaklega um 850 milljónir á ári og aflétt verði takmörkunum á sjóðsstjórn að leita öruggrar og hárrar ávöxtunar á eignum sjóðsins í framtíðinni með sama hætti og aðrir lífeyrissjóðir.

Pétur gefur í skyn að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) hafi hagað sér óábyrgt, þar sem tryggingafræðilegar úttektir hefðu átt að leiða til tillagna hennar um hækkun iðgjalds. Skv. 9. gr. laga um LSR á stjórnin að gera tillögur "um aðgerðir til að efla sjóðinn" ef athugun sýnir að fjárhagur er ótryggur. Stjórn LSR hefur látið gera tryggingafræðilegar athuganir, síðast vegna 1995. Þessi athugun sýnir að LSR á mikið útistandandi vegna áfallinna skuldbindinga, eða yfir 100 milljarða, en þessar inneignir eru hjá tryggum greiðendum, einkum ríkissjóði. Þær inneignir eru ekki lakar tryggðar en helstu eignir annarra lífeyrissjóða í ríkisverðbréfum. Þrátt fyrir þetta gerir sjóðsstjórn þá tillögu að felld verði brott 2. mgr. 25. gr. gildandi laga sem veitir launagreiðendum heimild til að draga vaxtatekjur frá skyldugreiðslum sínum til LSR, enda býr enginn annar lífeyrissjóður við slíkan sjóðsleka uppá 750 milljónir á ári. Ásakanir um óábyrga stjórnun eru fráleitar. Það vekur hins vegar furðu að tryggingafræðingar eins og Pétur skuli ekki reikna ábyrgðir launagreiðenda á ógjaldföllnum skuldbindingum (með ríkisábyrgð) sem eign!

Pétur heldur því einnig fram að með frumvarpinu hafi mistekist að gera lífeyrisréttindi sambærileg. Þetta er alrangt. Frumvarpið felur í sér að réttindi ríkisstarfsmanna munu í framtíðinni byggja á sömu grundvallarreglum og lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóðum, þ.e. á stigakerfi sem verður fjármagnað með samtímagreiðslum. Það hefur áreiðanlega ekki verið trú Péturs að ríkisstjórnin hafi ætlað að svipta sjóðfélaga réttindum og jafna réttindi niðrávið. Forsætis- og fjármálaráðherrar hafa staðfest opinberlega að standa ætti við áunnin réttindi og ávinnslurétt núverandi sjóðfélaga og tryggja jafnverðmæt réttindi í nýju kerfi. Þetta voru markmiðin og þau hafa náðst.

Ófriðarbál Guðmundar

Guðmundur Gunnarsson hefur í frammi ýmsar rangfærslur um efni frumvarpsins sem vekja furðu. Hann heldur því t.d. fram að "kostnaður vegna örorkulífeyristryggingar í nýja lífeyrissjóðnum mun eftir 3 ár, þegar réttindi hafa skapast, vaxa svo að iðgjald það sem skattgreiðendur verða að greiða vex líklega úr 11,5% í ríflega 20%. Þessi fullyrðing er algerlega órökstudd enda alger firra. Valinkunnir tryggingafræðingar hafa lagt á ráðin um allar forsendur vegna lífeyrisréttinda og reiknað áhrif þeirra. Guðmundur heldur því einnig fram að makalífeyrir verði betri í nýja kerfinu en í því gamla. Þessu er algerlega öfugt farið. Fullyrðingar Guðmundar eru annað hvort byggðar á mikilli vanþekkingu eða meðvitaðri tilraun til að vekja tortryggni og andúð meðal almennings á starfsmönnum ríkisins.

Guðmundur segir árslaun opinberra starfsmanna ekki lakari en árslaun annarra launamanna og þess vegna réttlæti ekkert mismun í lífeyriskjörum. Réttindi starfsmanna ríkis hafa byggt á dagvinnulaunum en ekki árslaunum. Dagvinnulaun háskólamanna hjá ríki eru 30-70% lægri en á almennum markaði. Ýmsir hópar háskólamanna, t.d. læknar og verkfræðingar, hafa samið sig undan LSR og um leið undan því launakerfi sem gildir fyrir þá sem eru í þessu lífeyriskerfi. Guðmundur þekkir af eigin raun þann kerfisbundna launamun sem ríkir á milli þeirra starfsmanna Pósts og síma sem eru á launakerfi BSRB og í LSR og hinna sem eru t.d. í Rafiðnaðarsambandi Íslands og Lífeyrissjóði rafiðnaðarmanna.

Þetta með launasamanburðinn er þó ekki áhugavert í sjálfu sér heldur hitt að Guðmundur viðurkennir ekki rétt stéttarfélaga opinberra starfsmanna til að gera sjálfstæðan kjarasamning um launa- og lífeyriskjör. Hann segir frumvarpið brot á jafnræðisreglu án frekari útskýringa. Sennilega meinar hann að stéttarfélög ríkisstarfsmanna í BSRB og BHM og vinnuveitendur megi ekki gera kjarasamning um annað en það sem býðst öðrum stéttarfélögum, þ.e. aðildarfélögum ASÍ. Ef þetta er rétt skilið, þá er krafa Guðmundar sú, að ríkinu og jafnvel öðrum vinnuveitendum beri nú skylda til að verða við kröfum stéttarfélaga innan ASÍ um aukin lífeyrisréttindi gegn tilsvarandi lækkun launa. Þetta kann að hljóma sanngjarnt en fæli í sér mikla skerðingu á samningsrétti vinnuveitenda (sem mér er ósárt um). Aðalatriðið er þó að þessi hugmyndafræði á sér enga stoð í jafnræðisreglu (stjórnarskrár).

Ef til vill meinar hann hitt að frumvarpið takmarki kjarasamningsbundna aðild að nýja kerfinu við tilgreind heildarsamtök. Skv. samningi BHM, BSRB og KÍ við fjármálaráðherra fá þeir sjálfvirka aðild að sjóðnum sem eru í stéttarfélögum innan þessara samtaka sem hafa kjarasamningsbundna aðild við vinnuveitendur að sjóðnum. Einstökum aðildarfélögum verður einnig heimilt að semja sig út úr sjóðnum í kjarasamningi. Ekki er ljóst hvort nokkur vinnuveitandi annar en ríki vilji semja við aðildarfélög BHM um aðild að þessum sjóði; það þarf vissulega tvo til. Lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði byggjast á kjarasamningum stéttarfélaga. Með frumvarpinu er verið að tryggja sams konar réttarstöðu stéttarfélaga innan BHM, BSRB og KÍ eins og almennt gildir á almennum vinnumarkaði. Í því felst að komið er á jafnræði sem ekki var fyrir hendi.

Guðmundur virðist ekki muna eftir því að öll heildarsamtök stéttarfélaga sneru bökum saman á síðastliðnu vori til að verjast árásum á réttindi launafólks, þar með töldu skerðingarfrumvarpi um LSR. Nú, þegar liggur fyrir frumvarp um lífeyrisréttindin, sem felur í sér óskert verðmæti á lífeyrisréttindum starfsmanna ríkisins, þá gleðst hann ekki með þeim heldur myndar bandalag með vinnuveitendum gegn frumvarpinu.

Lokaorð

Það vekur furðu að Pétur sem er einn af höfundum þeirrar hugmyndafræði að mynda beri sjóði um lífeyrissparnað landsmanna skuli ekki skilja meginefni tímamótasamnings fjármálaráðherra og samtaka opinberra starfsmanna. Hitt er fremur sorglegt að Guðmundur sem einn af forystumönnum stéttarfélaga í landinu skuli veitast að kjarasamningi stéttarfélaga opinberra starfsmanna um lífeyrisréttindi sem felur aðeins í sér varnarsigur um óskert heildarverðmæti á lífeyriskjörum félagsmanna. Um hvað snerist eiginlega samstaða launamanna á síðastliðnu vori?

Höfundur er framkvæmdastjóri Bandalags háskólamanna.

Birgir Björn

Sigurjónsson