Í stormum sinna tíða Bókafélagið hefur gefið út bókina Benjamín H.J. Eiríksson Í stormum sinna tíða. Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrásetti. Í bókarkynningu kemur fram að Benjamín hafi átt ótrúlega ævi.

Í stormum sinna tíða Bókafélagið hefur gefið út bókina Benjamín H.J. Eiríksson Í stormum sinna tíða. Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrásetti. Í bókarkynningu kemur fram að Benjamín hafi átt ótrúlega ævi. Hann var stúdent í Berlín og varð þar vitni að valdatöku Hitlers og þinghúsbrunanum. Hann var byltingarmaður í Moskvu, þegar ógnarstjórn Stalíns var að ná hámarki, en seinna lauk hann doktorsprófi í hagfræði frá Harvard-háskóla, gerðist efnahagsráðunautur ríkisstjórnar og bankastjóri á Íslandi, þar til hann sagði af sér.

KAFLABROTUM hér á eftir lýsir Benjamín kynnum þeirra Veru Hertzsch, barnsmóður sinnar, og aðskilnaði þeirra, birtir lýsingu Halldórs Laxness í Skáldatíma á handtöku hennar og viðbrögðum hans sjálfs og mati á þessari lýsingu skáldsins:

Vera Hertzsch

UM JÓLALEYTIÐ 1935 hafði ég kynnzt þýzkri stúlku, sem bjó í heimavistinni á Vestur-háskólanum og stundaði þar framhaldsnám, var aspirant, eins og ég. Hún hét Elvira Hertzsch, kölluð Vera. Þótt undarlegt megi virðast gekk hún ekki undir dulnefni eins og aðrir nemendur. Hún var rúmlega þrítug, fædd í Mainz í Saxlandi árið 1904. Faðir hennar var járnbrautarstarfsmaður. Vera hafði komið til Rússlands frá Þýzkalandi árið 1927, stundað nám í Leníngrad árin 1929-1930, þar sem hún hafði gifzt manni að nafni Rosenblum, en var fráskilin þegar ég kynntist henni. Hún hafði stundað nám í Vestur-háskólanum 1930-1934 og framhaldsnám þar frá 1934, jafnframt því sem hún kenndi þar. Fyrrverandi maður hennar var miklu eldri en hún. Hann var Gyðingur og hafði verið forstjóri fyrirtækis, sem flutti inn bækur frá útlöndum, aðallega vísindarit. Hann var tekinn fastur árið 1936, á meðan ég var enn í Rússlandi, og sagði Vera mér frá því. Vera skrifaði fyrir Deutsche Zentral-Zeitung, DZZ, var lausapenni, Mitarbeiter, í Moskvu. Það blað var einkum ætlað Volgu-Þjóðverjum. Hún hafði hlotið hagfræðimenntun og skrifaði aðallega um efnahagsmál.

Halldór Laxness hitti Veru í Moskvu, eins og ég kem síðar að, og lýsir henni í Skáldatíma. Sú lýsing er ekki góð. Vera var fríð kona, svo sem sjá má af myndum, fremur há af konu að vera, með hátt og gáfulegt enni, enda vel greind, með dökkt liðað hár, óvenju fallegar tennur, nokkuð suðrænt yfirbragð, indæl manneskja. Það er rétt, sem Halldór segir, að hún sagðist vera "ein nach dem Norden verschlagener Spanier", Spánverji á norðlægum slóðum. Vera sagði mér, að læknir sinn hefði ráðlagt sér að eignast barn. Ég spurði hana, hvers vegna hún hefði ekki veitt sér það. Hún sagðist hafa orðið barnshafandi á meðan hún var gift Rosenblum, en látið eyða fóstrinu. Sig hefði ekki langað til að eignazt barn með eiginmanninum. Ég trúi því, að hún hafi þá ekki vitað, hvað hún var að gera. Við urðum góðir vinir. Ég elskaði þessa konu. Hún vildi eignast barn með mér. Við bjuggum ekki saman. Það var ekki um slíkt húsnæði að ræða. Við gerðum það, sem ástfangið fólk gerir á öllum tímum í öllum löndum, vorum mikið úti í náttúrunni sumarið 1936, syntum í ánum, sem renna í gegnum borgina. Við heimsóttum menningargarðinn, sem kenndur er við Gorkí, á einskonar grímubúningahátíð.

Eitt sinn fór ég með Veru í heimsókn að Hvítahafsskurðinum, sem liggur frá Eystrasalti og norður að Hvítahafi. Vera átti að skrifa um skurðinn fyrir blaðið. Menn, sem virtust vera fangar, óku jarðvegi upp úr skurðinum á hestvögnum. Skurðurinn var "sósíalismi" í framkvæmd. Hann hafði að mestu leyti verið grafinn árin 1931-1933. Alexander Solsénitsyn skrifar talsvert um Hvítahafsskurðinn í þriðja hluta Gúlag-eyjaklasans. Hann segir, að hundruð þúsunda fanga hafi fallið við gerð hans sökum vosbúðar og þrælkunar. Þetta vissi ég ekki þá, þótt mig grunaði ýmislegt. Í þessari heimsókn að Hvítahafsskurðinum sá ég, að sumt var líkt með Rússum og mínum eigin landsmönnum. Hjá báðum þjóðum höfðu salernislausar aldir sett mark sitt á menningu daglegs lífs. Í háskólanum í Moskvu var eitthvað af frumstæðu fólki, sem tók ekki í strenginn á vatnssalerninu. Þetta var þeim mun verra sem botninn var ofarlega. Í byrjun seinna stríðs var hér þýzkur flóttamaður, sem kvartaði við mig undan framferði Íslendinga í þessum efnum. Ég sagði honum, sem satt var, að þjóðin hefði verið nær salernislaus vel fram á þessa öld, einkum sakir timburskorts. Sumar nýjungar tækju sinn tíma.

Þegar Vestur-háskólanum var lokað missti Vera herbergið, sem hún hafði haft á heimavistinni, en þar höfðum við oftast átt fundi okkar. Hún leigði stuttan tíma herbergi hjá fólki, sem réð yfir tveggja herbergja íbúð. Hún fékk það með því skilyrði, að hún tæki ekki á móti karlmönnum. Sennilega stafaði þetta af því, að ákvæði í húsnæðislögunum bannaði húsráðanda þá að segja henni upp. Ég braut bannið að minnsta kosti einu sinni. Á meðan ég var á sjúkrahúsinu heimsótti hún mig reglulega og eftir að ég fór að hressast færði hún mér soðinn mat, grænmeti og ávexti. Um tíma bjó hún hjá systur fyrrverandi eiginmanns síns, Rosenblums. Við Vera vorum oft með Eymundi Magnússyni vorið 1936 og aftur um haustið, eftir dvöl mína suður á Krím-skaga. Skömmu eftir 1. maí-hátíðahöldin 1936 heimsóttum við Vera til dæmis Eymund, þar sem hann bjó um tíma í auðu menntaskólahúsi fyrir utan borgina. Þá hafði hann verið veikur, fengið blóðkreppusótt. Við gistum þar í skólahúsinu hjá honum. Það var kalt á næturnar, ekki komið sumar.

Enn til Svíþjóðar

Í þeim kafla, sem hér er birt brot úr, segir Benjamín frá því er hann yfirgefur Sovétríkin eftir langa bið eftir brottfararleyfi.

Þá var eftir að kveðja. Við stóðum þrjú í desemberkuldanum á járnbrautarstöðinni í Moskvu, við Vera og Eymundur Magnússon. Framundan var algjör óvissa. Ég var stimplaður í bak og fyrir og gat ekki búizt við að fá neina atvinnu í samræmi við menntun mína, auk þess sem ég hafði ekki lokið kandídatsprófi. Við þorðum hvorugt, Vera eða ég, að tala um framtíðina. Það var ekkert að gera annað en bíða hennar. Vera yrði prýðilegur lífsförunautur, ef allt yrði með felldu. Var ekki skynsamlegast að sjá, hveru fram yndi? Við myndum skrifast á, eins og við gerðum. En inn í þetta blandaðist þögult mál. Við höfðum aldrei rætt um stjórnmál í eiginlegum skilningi. Hvernig yrði Veru við, þegar hún kynntist raunverulegum skoðunum mínum? Sem góður flokksfélagi og þá um leið stalínisti, eins og allir urðu að vera á yfirborðinu, yrði hún að skilja við mig og fara. Hvert? Þarna var þó séð fyrir henni. En hverjar voru skoðanir mínar? Í Rússlandi var ekki unnt að ræða um stjórnmál af neinu viti. Minnsta hræring var beinlínis lífshættuleg. Þegar eitthvert alvörumál kom upp var viðkvæði mitt alltaf hið sama: Sovétríkin eiga við margvíslegan vanda að stríða í "byggingu sósíalismans", fyrsta stigi kommúnismans. Fasistaríkin vígbyggjust af kappi, einkum Þýzkaland og Japan. Yfir vofði árásarstríð. Sovétríkin þyrftu frið framar öllu og styrka stjórn. Eins og komið var, var Stalín augljóslega rétti maðurinn. Verkalýðurinn um allan heim ætti að styðja Sovétríkin. Þetta var líka hin raunverulega sannfæring mín þá.

Benjamín fer yfir landamærin til Rajajoki í Finnlandi 5. desember 1936. Þaðan heldur hann til Stokkhólms og síðan heim til Íslands.

Fyrstu vikurnar utan Sovétríkjanna fékk ég stundum martröð, þegar ég lagði mig. Mér leið ekki vel, ég var magur og tærður eftir veikindin. Þetta voru afleiðingar næringarskortsins. Það eru mikil viðbrigði að koma í land, þar sem nóg er af venjulegum mat. Mér varð hugsað til rússneskukennarans míns, sem hafði sagt, að Svíþjóð væri himnaríki á jörðu. Himnaríki! Þegar ég kom til Íslands í janúar 1937 beið mín ekkert. Í því erfiða ástandi, sem þá var, og með tilliti til stjórnmálaskoðana minna kom ekki til mála, að ég fengi neina atvinnu. Ég var próflaus. Helzta úrræðið virtist vera að halda áfram námi í Svíþjóð. En námsstyrkurinn, dúxastyrkurinn, hafði aðeins gilt fram á mitt ár 1936. Ég færði þetta í tal við Björn, bróður minn. Hann lofaði að hjálpa mér. Ég steig um borð í Gullfoss, áleiðis til Stokkhólms, 13. febrúar 1937. Frá Stokkhólmi skrifaðist ég á við Veru. Hún sagði mér, að 22. marz 1937 hefði okkur fæðzt dóttir, sem hún skírði Sólveigu Erlu, og sendi mér mynd af sér með henni. Hún vissi, að móðir mín hét Sólveig, en ég held, að Eymundur hafi valið Erlu-nafnið, fallegt, íslenzkt nafn. Hún sendi mér myndir af þeim mæðgum. Ég hafði líka fréttir af Veru frá Eymundi, sem umgekkst hana talsvert í Moskvu. Hann kom við í Stokkhólmi á leiðinni heim í nóvember 1937. Hann sagði mér, að Vera hefði misst flokksskírteinið og blaðið, sem hún vann við, DZZ, væri í rannsókn. Þetta vissi ekki á gott. Um svipað leyti fór Halldór Laxness til Moskvu. Ég bað hann fyrir böggul og kveðjur til Veru og litlu stúlkunnar.

Síðan barst fréttin. Vorið 1938 kom Halldór Laxness við í Stokkhólmi á leiðinni heim. Þar eystra hafði hann setið við að skrifa um Ólaf Kárason Ljósvíking og verið viðstaddur réttarhöldin yfir Búkharín, sem hann lýsir í Gerska ævintýrinu eftir stalínískri réttlínu. Bréfin frá Veru voru hætt að berast. Halldór gat gefið skýringuna. Hann færði mér þá frétt, að Vera hefði verið handtekin að sér viðstöddum, en barnið okkar væri sennilega komið á munaðarleysingjahæli. Halldór hafði kynnzt Veru vel í Moskvu. Þau fóru saman í leikhús og ræddu saman um daginn og veginn. Vera var þá flutt í húsnæði í einni hliðargötunni út frá Arbat-stræti, Leontyskhi pereúlok númer 24. Hún bjó þar ásamt Sólveigu litlu Erlu og barnfóstru úr sveit hjá fólki að nafni Spere. Eitt kvöldið hafði hún boðið Halldóri heim til sín, tveimur dögum áður en hann átti að fara frá Moskvu. Þar hafði handtakan farið fram. Það er erfitt að skrifa um þá tilfinningu, sem grípur mann við slíka frétt. Ég var samt ekki með öllu óviðbúinn, þar sem að þessu var talsverður aðdragandi.

Benjamín lætur fylgja í bókinni frásögn Halldórs Laxness af handtöku Veru, eins og hún birtist í Skáldatíma tuttugu og fimm árum síðar, en hefur breytt stafsetningu til samræmis við annað í bókinni.

"Sovétríkin eru barngóð"

Hún átti heima í hliðargötu í Arbatskí-hverfinu, á jarðhæð hússins. Vistarvera hennar ásamt með barni sínu og barnfóstru ofan úr sveit var eitt herbergi og eldunarpláss bak við forhengi. Vetrarhörkur voru á enda og ísabrot á fljótinu, en slydduél um kvöldið. Inni var auðvitað sú fátækt ríkjandi, sem óhugsanleg hefði verið hjá konu í hennar stöðu í löndum, þar sem ég þekkti til, sama útjaskaða allsleysið og í öðrum mannabústöðum, þar sem ég hafði rekizt inn á þessum erfiðu tímum í landinu. Tíminn var fljótur að líða, því Vera Hertzsch var ekki aðeins myndarhúsfreyja, heldur greind í viðræðu og skemmtileg, þegar hún ekki lauk upp kommúnísku postillunni; og blessunarlega laus við að ræða um sjálfa sig, enda var ég jafnnær um hana eftir stutta, en góða viðkynningu okkar. Þegar á leið kvöld var farið að hugsa til að útvega mér bíl, sem gekk eitthvað treglega, enda erfitt að ná í síma. Loks var afráðið, að ég skyldi fara heim í sporvagni, og frúin ætlaði að fylgja mér á stoppið. Það var liðið nær miðnætti og teygðist úr skrafinu yfir síðasta kaffibollanum.

Þá var allt í einu drepið á dyr. Dyravörzlukona hússins vísar inn í herbergið ókunnum manni, fölum og toginleitum, klæddum í hinn skylduga svarta frakka allra rússneskra kontórista þess tímabils. Þegar hann hafði sýnt frúnni merki sitt, hver hann væri, settist hann niður í stól rólegur og blátt áfram líkt og heima hjá sér, gott ef ekki ögn syfjaður, kveikti sér í papírosjku og var lengi að því. Síðan bað hann Veru Hertzsch um persónuskilríki hennar. Hann var lengi að lesa þetta og spurði við og við í vingjarnlegum og dálítið þreytulegum tón um skýringu á smámunum, sem bersýnilega voru aukaatriði. Síðan sagði hann: "Þér ættuð að ganga frá því, sem þörf er á, í snatri. Ég verð að biðja yður að fylgjast með mér." "Og barnið mitt?" sagði hún af fullkominni stillingu eins og það kæmi ekki heldur málinu við. "Barnið!" sagði gesturinn og brosti. "Það væsir nú ekki um börnin hér í Sovétríkjunum! Auðvitað fer barnið á fyrirmyndar- munaðarleysingjahæli. En fæðingarvottorðið verður að fylgja." Síðan benti hann til mín og spurði: "Með leyfi, hvur er þessi maður og má ég sjá skilríkin hans." Ég tók fram vegabréf mitt og sýndi manninum. Hann blaðaði í þessu lengi fram og aftur. Loks sagði hann: "Ég er hræddur um, gaspodín, að ég verði að fara með þetta skjal yðar á stöðina og láta rannsaka það. Viljið þér gera svo vel að sitja hér, þangað til ég kem aftur." Síðan stóð hann upp og sagði vingjarnlega, um leið og hann fór: "Sjáumst bráðum."

Kaffið var orðið kalt. Og boðið í rauninni búið. Vera Hertzsch tók fram eitthvað af hreinu líni og barnfóstran hjálpaði henni að láta ofan í tösku. Litla telpan hélt áfram að sofa rótt. Nú hlýtur hún að vera orðin mikil og glæsileg sovétkona, sem horfir móti nýjum degi. Vera Hertzsch fann fæðingarvottorðið hennar. Síðan fór hún ofan í hirzlu og tók fram nokkur ríkisskuldabréf sovézk, sem hún hafði eignazt, og bað barnfóstruna að fá þau í hendur þeim aðiljum, sem slíkra skilríkja áttu að gæta vegna þeirra, sem forfölluðust. Að lokum rétti hún þessari sveitastúlku, þjónustukonu sinni, eitthvað fatakyns og lítilfjörlegt kvenskraut að gjöf. Hún bað stúlkuna að vísa mér til vegar á sporvagnsstöðina og koma mér í réttan vagn áleiðis til gistihúss míns. "Vitið þér nema ég sláist í förina með þeim dökkklædda," sagði ég. "Ég skil ekki, hvernig mín skjöl ættu að vera betri en yðar." "Nitsjevo," sagði Vera Hertzsch. "Þér eruð ekki kommúnisti. Þér eruð borgaralegur, útlendur menntamaður. Ég ætla að biðja yður að skila kveðju til hans pabba litlu telpunnar í Stokkhólmi og segja, að hann þurfi ekki að óttast um hana. Sovétríkin eru barngóð." Það leið hér um bil klukkutími, þangað til sá svartklæddi kom til baka af leynilögreglukontórnum. Hann fékk mér vegabréfið mitt aftur, en í það hafði útferðaráritun rússnesku stjórnarinnar reyndar verið stimpluð fyrir tveim dögum. "Hér er passinn yðar, gaspodín. Þér megið fara." Ég stóð upp og sagði: "Auf wiedersehen!" við Veru Hertzsch og: "Bless, bless!" við dóttur hennar, sem svaf fallega. Bíllinn lögreglumannsins stóð í gangi eins og eina húslengd utar í götunni. Barnfóstran fylgdi mér á sporvagnsstöðina og beið, þangað til ég var kominn upp í réttan vagn. Ég var næstum einn í vagninum, því það var komið yfir miðnætti; kannski var þetta seinasti sporvagn. Ég horfði út um gluggann á bleytukafaldið drífa niður í löngum, hvítum skástrikum og verða að vatni.

Skáldatími

Í þessum kafla ræðir Benjamín um frásögn Halldórs og útkomu Skáldatíma, og segir m.a.:

Ég vissi af bókinni áður en hún kom út. Ég hafði hitt Ragnar Jónsson í Smára á götu einn góðan veðurdag árið 1963. Við vorum góðir kunningjar frá gamalli tíð og smám saman urðum við góðir vinir. Hann sagði mér, að Halldór Laxness vildi gjarnan hitta mig. Ég fór ásamt konu minni upp að Gljúfrasteini og fékk handrit að bókarkafla. Ég tók hann með mér heim, las hann og gerði engar athugasemdir við skrif Halldórs, ég vildi alls enga ábyrgð taka á þeim, breytti engu, skilaði kaflanum athugasemdalaust. En mér fannst Halldór ekki lýsa Veru rétt, ekki aðeins útliti hennar og framkomu, eins og ég hefi sagt hér á undan, heldur líka skoðunum hennar. Hann kallar hana "stalínista". En á þeim tíma, þegar Halldór ræddi við hana, var ógnaröld í landinu. Hún kostaði milljónir manna lífið, meðal annars kjarnann úr kommúnistahreyfingunni. Í rauninni var stórum hluta flokksins slátrað og nýju fólki skipað í raðir hans. Halldór virðist ekki hafa gert sér neina grein fyrir ástandinu. Það er ekkert gaman að láta hvísla að sér: "Fritz var tekinn í nótt, hérna á ganginum fyrir ofan." Blaðið DZZ hafði verið lagt niður, fyrrverandi eiginmaður hennar tekinn fastur og flokksskírteinið tekið af henni sjálfri. Hvað átti hún að segja við Halldór? Átti hún að gagnrýna það, sem var að gerast? Átti hún að gagnrýna Stalín? Allir höfðu verið fylltir skelfingu.

Þetta voru tímar réttarhaldanna miklu. Zínovév og Kamenév, félagar Leníns til margra ára, höfðu verið dregnir fyrir dóm og teknir af lífi, á meðan ég var í Rússlandi. Zínovév hafði nánast verið einkaritari Leníns í útlegðinni. Nú var sjálfur Búkharín fyrir dómi, sjálfur hugmyndafræðingur kommúnistaflokksins rússneska. Í brjóstum milljóna hlýtur að hafa ríkt svört angist dauðans. Fangelsanir, dauðinn eða Síberíuvist var það, sem menn hugsuðu mest um, enda bein eða óbein reynsla fjöldans og, eins og málum nú var komið, reynsla félaga í flokknum.

Vera talaði eins og hún talaði, og jafnvel það dugði ekki til. Þegar hér var komið sögu hefir hún sennilega áttað sig á því, að spurningin um sekt eða sakleysi átti ekki heima hér. Hún hefir gert sér grein fyrir því, að hún var að tala við pólitískan einfeldning, þegar hún var að tala við Halldór, og hagað máli sínu samkvæmt því. Annað hefði ekki aðeins verið lífsháski, heldur sennilega óumflýjanlegur dauðadómur. Hún var að tala við útlending. Og hvað var í fylgd með honum? Fangelsun. Halldór var enn úti á þekju, þegar hann skrifaði um þetta í Skáldatíma löngu síðar. Sjálfur skal ég ekkert fullyrða um hinar raunverulegu skoðanir Veru. Við ræddum ekki um slík mál. Þau voru of eldfim og hættuleg. Hún hefði sem flokksmaður þurft að tilkynna um öll vafasöm ummæli mín. Til hins sama var ætlazt af öðrum og fleirum en þeim, sem voru flokksbundnir. Þegar Ásgeir Blöndal Magnússon var í Lenín-skólanum 1937-1938 hitti hann stundum Eymund og Veru. Hann talaði mikið, segir Eymundur mér. Ásgeiri fundust rússnesku kommúnistarnir, stalínistarnir, ekki vera nógu sannir marxistar. Vera varaði hann við, bað hann lengst allra orða að vera ekki svona opinskáan.

Skáldatími olli miklu umtali. Sjálfur Halldór Laxness hafði í fyrsta skipti snúizt opinberlega gegn kommúnismanum, sagt afdráttarlaust satt um þá ógnarstjórn, sem hann hafði orðið vitni að. Morgunblaðið leitaði álits margra þekktra borgara á bókinni, þar á meðal míns álits. Ég ráðlagði öllum að lesa bókina. Brynjólfur Bjarnason og félagar hans voru í vandræðum. Eins og stundum áður var spurningin þessi: Ja, hvað eigum við að segja? Eitthvað varð til bragðs að taka.

Séra Gunnar Benediktsson skrifaði ritdóm í Þjóðviljann 17. nóvember 1963. Þar hældi hann Halldóri fyrir dramatíska stígandi í frásögninni af Veru og handtöku hennar, en bætti við: "Ég varð svo gagntekinn af þessari frásögn, að mig skar allt í einu í hjartað, þegar niður í vitund mína laust einhverjum minningarórum frá sumardögum 1953. Vera Hertsch [svo] varð mér allt í einu svo kunnugleg. Mér finnst, að Veru Hertsch, sem rússneska leynilögreglan druslaði að tjaldabaki að Halldóri Laxness ásjáandi 1938, hafi ég mínum eigin augum litið sumarið 1953. Og þessi kona, sem mig minnir endilega, að héti Vera Hertsch, var svo glöð og hamingjusöm, að aðra ósk á ég ekki betri til handa Halldóri Laxness en að hann alla sína ævidaga megi vera jafnglaður og hamingjusamur. En hvort sem Vera Hertsch er lífs eða liðin og hve oft sem ég á eftir að sjá hana glaða og hamingjusama, þá stendur það óútstrikað í minni vitund, að Vera Hertsch var af lífi tekin af leynilögreglu Stalíns árið 1938. Svo listilega hefir Halldór Laxness skráð sögu hennar án þess beinum orðum að tilkynna lát hennar."

Fljótlega eftir að blaðið kom út hringdi hjá mér síminn. "Þú hefir heyrt eða séð yfirlýsingu séra Gunnars Benediktssonar," sagði Halldór Laxness. "Ég er að fara í útvarpið í viðtal. Hverju get ég svarað?" Ég sá hér engin vandkvæði. Ég sagði honum, að ég hefði strax eftir stríð sett mig í samband við fjölskyldu Veru í Leipzig. Móðir hennar og systir, Erika, voru þá báðar á lífi. Við skiptumst á nokkrum bréfum og ég sendi þeim mæðgum matarpakka, en matur var þá af skornum skammti í Þýzkalandi. Þá höfðu þær ekkert heyrt frá Veru. Árið 1961 var ég staddur í Vestur-Þýzkalandi í opinberum erindagerðum. Þá hringdi ég í Eriku, systur Veru, og bað hana að koma vestur fyrir, svo að við gætum hitzt. Ég gat ekki sem opinber embættismaður farið austur fyrir. Hún sendi mér símskeyti um það, að hún gæti ekki komið. Hún væri "gesellschaftlich verhindert", hindruð af völdum opinberra aðila. En frá Veru hafði hún ekkert heyrt. Halldór fór síðan í útvarpið, en sagði aðeins eitthvað á þá leið, að fjölskylda Veru í Leipzig hefði ekkert frá henni heyrt. Eftir þetta varð hljótt um upplýsingar séra Gunnars Benediktssonar. Hér sem oftar hafði Brynjólfur sett saman lygasögu. Hann hafði þann sið að láta guðfræðinga og presta, sem fylgdu honum að málum, dreifa þeim.

Bókarheiti er Benjamín H.J. Eiríksson - Í stormum sinna tíða. 364 bls. Hannes Hólmsteinn Gissurarson skráði eftir sögn Benjamíns sjálfs. Útgefandi er Bókafélagið. Leiðb. verð er 3.280 kr.

BENJAMÍN og Elvira Hertzsch, Vera, kynntust í Vestur-háskólanum í Moskvu um jólaleytið 1935. Hún hafði komið frá Þýskalandi árið 1927 og verið gift áður. "Hana langaði til að eignast barn," segir Benjamín í bókinni. "Ég elskaði hana."

VERA með barn þeirra Benjamíns, Sólveigu Erlu, sem fæddist 22. mars 1937. Ári síðar var Vera handtekin í Moskvu og hún og Sólveig Erla hurfu.

BALINT, leynilögreglumaður á Vestur-háskólanum, tók þessa mynd á meðan Benjamín gekk undir dulnefninu Erik Torin í Moskvu.

DOKTOR frá Harvard vorið 1946, en Benjamín hafði þá áður numið í Berlín og Moskvu.