FEÐGIN Í MÝRI ÝTT gallerí, Gallerí Mýri, hefur tekið til starfa í kjallaranum á Löngumýri 15 í Garðabæ. Reksturinn hafa húsráðendur, hjónin Jón Hörður Jónsson og S. Anna E.

FEÐGIN Í MÝRI

ÝTT gallerí, Gallerí Mýri, hefur tekið til starfa í kjallaranum á Löngumýri 15 í Garðabæ. Reksturinn hafa húsráðendur, hjónin Jón Hörður Jónsson og S. Anna E. Nikulásdóttir, með höndum og er sú síðarnefnda jafnframt þátttakandi í fyrstu listkynningunni sem fram fer í galleríinu ásamt föður sínum, Nikulási Sigfússyni, og systur sinni, Sigrúnu Nikulásdóttur.

Anna lauk námi frá Myndlistar- og handíðaskóla Íslands vorið 1992 en "fór ekki af stað" fyrr en síðastliðið vor, svo sem hún kemst að orði. Grafíkin er hennar fag og hefur listakonan verið með vinnustofu í gömlu Ísafoldarverksmiðjunni í Reykjavík. "Síðan var mig tilfinnanlega farið að vanta vinnuaðstöðu heima og þar sem ég tek svo mikið pláss með allt mitt hafurtask ákvað ég að innrétta íbúð í kjallaranum sem gallerí."

Anna kveðst fyrst og fremst líta á Gallerí Mýri sem vinnustofu og vettvang fyrir kynningu á list þeirra feðgina, þótt ekki sé útilokað að aðrir listamenn fái þar inni í framtíðinni. Opnunartíminn verði sveigjanlegur, "fólk þarf bara að hringja", og alltaf verði einhver kynning í gangi. "Ætli ég skipti ekki um verk, þegar ég verð orðin leið á þeim sem fyrir eru."

Nikulás sýnir nýlegar vatnslitamyndir í Gallerí Mýri. Hann er yfirlæknir að atvinnu og sinnir myndlistinni eingöngu í tómstundum, þótt hann hafi efnt til nokkurra einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga. "Ég málaði mína fyrstu mynd níu ára gamall og hef verið að dútla við þetta síðan, einkum síðastliðna tvo áratugi. Ég mála eingöngu vatnslitamyndir enda eru minni líkur á að maður nái árangri ef maður dreifir kröftunum, auk þess sem vatnslitirnir eru svo erfiðir viðureignar að þeir krefjast eiginlega óskiptrar athygli manns."

Sigrún á keramikverk á kynningunni. Hún útskrifaðist frá Myndlistar- og handíðaskóla Íslands á liðnu vori og sýnir verk sín nú í fyrsta sinn á opinberum vettvangi, ef undan er skilin útskriftarsýningin. Sigrún stundar list sína á handverkstæðinu Ösku í Reykjavík, ásamt tveimur stöllum sínum, og kveðst hafa valið keramik fyrir þær sækir að handverkið liggi betur fyrir henni en málverkið.

Morgunblaðið/Halldór

NIKULÁS Sigfússon, Sigrún Nikulásdóttir og S. Anna E. Nikulásdóttir í Gallerí Mýri.