JÓLIN NÁLGAST Lýsandi ávextir Ávexti og grænmeti af mörgu tagi má nota sem kertastjaka, eins og Þórunn Þórsdóttir bendir á í leiðbeiningum sínum um kertaljós og jólaskraut. LJÓS eru mikilvægasta jólaskrautið og mugga víkur fyrir litlu kerti.

JÓLIN NÁLGAST Lýsandi ávextir Ávexti og grænmeti af mörgu tagi má nota sem kertastjaka, eins og Þórunn Þórsdóttir bendir á í leiðbeiningum sínum um kertaljós og jólaskraut.

LJÓS eru mikilvægasta jólaskrautið og mugga víkur fyrir litlu kerti. Þeir sem ganga skrefi lengra vita að mörg lítil kerti breyta gömlu gráu herbergi í hátíðlega vistarveru, lituð smákerti sem ætluð eru á afmælistertur sóma sér til dæmis vel á diski með rausnarlegu lagi af salti. Þau standa prúð í saltinu og lita það fagurlega þegar þau brenna.

Stærri kerti, þessi venjulegu, fara vel við appelsínur, skornar í tvennt og holaðar. Tígullaga rifur er fallegt að skera í börkinn, hálfa leið að miðju appelsínunnar, svo úr verður blóm eða stjarna þegar börkurinn er flattur svolítið. Kertið er fest á appelsínublómið með dropa af vaxi. Prýði er af nokkrum svona appelsínukertum saman, hvítum og heilögum á appelsínubeði.

Mandarínur og melónur

Mandarínur eru líka fyrirtaks ljósberar og hér er ein aðferð: skerið lok af ávextinum, ekki stilkmegin. Holið en látið hvíta strenginn í miðjunni halda sér. Að þessu loknu getur hver og einn notað sitt listræna innsæi til að gera nokkur lítil göt í börkinn. Síðan er smá olíu hellt í botn mandarínunnar og kveikt á strengnum, sem nú er kveikur og logar glatt ef góðar vættir lofa.

Flöt kerti í málbolla, ofurvenjuleg, má taka upp úr kristalnum og setja á flot í vatni í hálfri kókoshnetuskel til að mynda eða papriku. Paprikan er þá skorin í helminga langsum og kjarninn fjarlægður. Fallegt er að hafa saman mismunandi liti af papriku á diski eða bakka. Holaðir melónuhelmingar eru líka ágætar kerfalaugar, vel má setja tvö, þrjú kerti á flot í hverja melónu og bæta kannski krónublöðum rósa eða litljum blómknúppum inn á milli ljósanna.

Laukar og granatepli

Artiskokkur eða þistilhjörtu eru listafínir stjakar fyrir löng kerti. Skerið einfaldlega stilkinn neðan af þistilhjarta svo það sé stöðugt og opnið efst í miðju, með fingrum eða hníf, fyrir kertið.

Fyrir fagurkera getur granatepli borið kerti af þokka, passleg hola rist í það ofanvert. Alþýðleg epli duga ekki síður, stilkurinn fjarlægður og hola rist gætilega svo kertið standa taustum fæti.

Þar sem vaxa laukar og gala gaukar geta kerti skinið. Grönnum kertum má stinga í hvítlauk eða lauk, sem skorið hefur verið hæfilega ofan í. Augað gleðst af ýmsum gerðum lýsandi lauka á diski.

Ávextir og grænmeti af mörgu tagi geta sem sagt verið ágætis kertastjakar, oft vellyktandi, og nú getur lesandinn litið í sinn ísskáp eða skúffu eftir nýjum kertastjaka, undirstöðu birtunnar.

Morgunblaðið/Þorkell

EINFALDIR kertastjakar og ódýrir, gerðir úr epli og mandarínu.