fyrir Blur BRESKA popphljómsveitin Blur hefur boðið hljómsveitinni Botnleðju að hita upp fyrir sig á átta daga tónleikaferð um Bretland frá 20. til 28. janúar næst komandi. Tilboð þetta kemur í kjölfar þess að Botnleðja hitaði upp fyrir Blur á

Botnleðja

hitar upp

fyrir Blur

BRESKA popphljómsveitin Blur hefur boðið hljómsveitinni Botnleðju að hita upp fyrir sig á átta daga tónleikaferð um Bretland frá 20. til 28. janúar næst komandi. Tilboð þetta kemur í kjölfar þess að Botnleðja hitaði upp fyrir Blur á tónleikum í Laugardalshöllinni í fyrrasumar.

Taka upp lög með enskum texta

Botnleðja mun koma fram undir nafninu "Silt", sem er þýðing á íslenska heiti hljómsveitarinnar, og spilar á tónleikum Blur í smærri tónleikasölum víðs vegar um Bretland.

Rafn Jónsson hjá R-músík sem annast hefur útgáfu á plötum hljómsveitarinnar, Drullumall og Fólk er fífl, segir að Botnleðja hafi undanfarna daga tekið upp útgáfur nokkurra laga hljómsveitarinnar með enskum textum undir sinni stjórn og upptökumannsins Ken Thomas.

Einstakt tækifæri sem ber að nýta vel

"Það er mat þeirra sem til þekkja í breskum tónlistarheimi að hér sé um einstakt tækifæri að ræða fyrir Botnleðju, sem beri að nýta vel," segir Rafn.

"Meðlimir Blur hafa látið ánægju sína með Botnleðju óspart í ljós síðan þeir heyrðu fyrst í þeim og settu það sem skilyrði að Botnleðja hitaði upp fyrir þá í Laugardalshöllinni síðast liðið sumar," segir Rafn Jónsson.