Helgi Jónsson Föstudaginn 10. janúar fór ég ásamt Kára bróður mínum og fleirum fram að eyðibýlinu Skatastöðum í Austurdal til þess að liggja fyrir tófu við æti. Fyrrum samstarfsmenn á Stöð 2 slógust í för með okkur í þeim tilgangi að mynda tófuveiðarnar. Eftir að myndatökum lauk um daginn fór ég ásamt fréttamanni og myndatökumanni austur yfir Jökulsá heim að bænum Merkigili þar sem vinur minn Helgi Jónsson bjó einbúi. Helgi bjóst við okkur en ég hafði hringt á undan mér og beðið um gistingu um nóttina. Þó að þessi ferð hafi upphaflega ekki verið farin í þeim tilgangi að taka einbúann á Merkigili tali fór á endanum þannig að við tókum langt og merkilegt sjónvarpsviðtal við Helga.

Þetta var góð kvöldstund. Helga þótti gaman að fá góða gesti, ekki síst á þessum tíma árs. Sá er síðast hafði ritað í gestabókina á Merkigili var Einar bróðir minn en hann hafði komið gangandi yfir Merkigilið fimm vikum áður. Gestabókin er góð heimild um erfiðar samgöngur á þessum slóðum yfir vetrartímann og það rifjaðist upp fyrir mér að þegar við Elenora fórum gangandi í Merkigil seinnipart apríl 1995 hafði ekki borið gesti að garði frá því um áramót. Þannig gat skammdegið verið langt og erfitt fyrir einbúann í dalnum.

Lýsing Njálu á Skarphéðni átti vel við Helga. Hann var mikill maður vexti, tæpir tveir metrar á hæð, beinvaxinn og svipmikill. Hann var óhemju hraustur, snarpur til átaka og hafði mikið úthald. Hann var fær klettamaður og kjarkurinn svo óbilandi að mörgum hraus hugur við að sjá til hans. Helgi var hvatskeyttur í framgöngu, lá hátt rómur og sagði sínar skoðanir umbúðalaust við hvern sem var. Hann gat verið mikill grallari þegar svo bar undir og í góðra vina hópi var hann hrókur alls fagnaðar.

Helgi var sannarlega ekki hvers manns viðhlæjandi og mikill mannþekkjari. Mislíkaði honum eitthvað í fari annarra lét hann það í ljósi og gleymdi seint. En undir oft á tíðum hrjúfu yfirborði bærðist hlýtt og viðkvæmt hjarta. Þessi stóri hrausti maður, sem virtist ekki geta bognað en bauð náttúruöflunum birginn í ríki sínu í dalnum, hann var fyrst og fremst ljúfmenni og drengur góður.

Samband Helga og Moniku fannst mér einkennast af gagnkvæmri virðingu. Gamla konan var mikill sjúklingur síðustu ár ævi sinnar og án stuðnings Helga hefði hún aldrei fengið þá ósk sína uppfyllta að búa í dalnum fram á síðustu stundu. Hann gerði þar í raun miklu meira en skyldu sína.

Við strákarnir í Flatatungu fórum oft í gegnum árin fram að Merkigili til þess að hjálpa þeim Helga og Moniku við heyskap, smalamennsku eða annað. Frá vorinu 1984 stunduðum við grenjavinnslu í dalnum. Fyrsta vorið gekk okkur veiðin afskaplega illa enda einungis 16 og 17 ára gamlir, reynslulausir og illa búnir vopnum og verkfærum. Sjálfur var Merkigilsbóndinn miklu meiri veiðimaður en við og vön skytta. Það lýsir Helga betur en margt annað hvernig hann hvatti okkur áfram, bar í okkur mat um langan veg og talaði í okkur kjark á allan hátt á þessum köldu vordögum. Einhver hefði brugðist við með skömmum.

Annað atvik frá síðasta sumri er mér minnisstætt. Þá riðum við nokkur saman fram í dalinn og gistum á Merkigili. Á leiðinni til baka var aftur komið við hjá Helga en síðan riðið áfram niður dalinn, að Merkigilinu og yfir það. Við vorum komin upp úr gilinu að norðan þegar Helgi birtist á hesti á barminum að sunnan og kallar "lykilinn" styrkum rómi yfir þessa miklu ófæru. Ég sneri við og teymdi hest minn aftur niður gilið og sé þá mér til skelfingar að Helgi ríður sínum hesti talsverðri ferð niður einstigið að sunnan, sem liggur í krákustígum utan í klettum, snarbratt og háskalegt. Þegar við mættumst var Helgi kominn yfir gilið og hálfnaður upp að norðanverðu. Ég hafði í millitíðinni áttað mig á að ég var með bíllykilinn í vasanum og konan mín komst þar af leiðandi ekki af stað á bílnum frá bænum en hún átti að fara með farangur eftir akveginum niður að vestan.

Helgi sagðist ekki ætla að skamma mig fyrir hugsunarleysið að ríða af stað með bíllykilinn, það væri sennilega nóg að Elenora gerði það. Þegar hann kom til baka í Merkigil þar sem Elenora beið kvaðst hann hafa skammað mig rækilega og hún þyrfti þess vegna engu þar við að bæta.

Við nágrannar og vinir höfum nú kvatt góðan dreng. Helgi Jónsson var jarðsettur í Ábæjarkirkjugarði. Legstað sinn hafði hann sjálfur fyrir löngu valið og ég veit að hann kvaddi þennan heim sáttur þó að andlát hans hafi borið að með sviplegum hætti. Við í Flatatungu biðjum Guð að blessa góðan vin. Helgi var sannur af verkum sínum og minning hans lifir áfram í dalnum.

Árni Gunnarsson

frá Flatatungu.