Hvernig bera erlendir ferðamenn landi og þjóð söguna þegar heim er komið? Upplifunin er besta landkynningin HUGMYND útlendinga að Íslandsferð kviknar oftast eftir spjall við vini og kunningja sem hafa komið hingað, samkvæmt könnun sem Ferðamálaráðs...

Hvernig bera erlendir ferðamenn landi og þjóð söguna þegar heim er komið? Upplifunin er besta landkynningin

HUGMYND útlendinga að Íslandsferð kviknar oftast eftir spjall við vini og kunningja sem hafa komið hingað, samkvæmt könnun sem Ferðamálaráðs Íslands lét gera á viðhorfum erlendra ferðamanna í ágúst annars vegar og september og október 1996 hinsvegar.

Orðið sem fer af hreinum kynnum af náttúru, landi og þjóð er því þyngst á metunum en ekki sérstakir atburðir sem hér er efnt til eða þekktir Íslendingar, sem mælast aðeins rétt yfir 10% í könnuninni. Besta landkynningin virðist því felast í frásögn erlendra ferðamanna af ferðinni eftir að heim er komið, en um 90% þeirra geta hugsað sér að koma hingað aftur. "Það skiptir höfuðmáli að gestir fari héðan ánægðir," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri í samtali við Morgunblaðið. "Besta landkynningin er þjónustan sem gestir þjóðarinnar fá og hversu góð upplifun fylgir þeim aftur heim."

Sund vinsælasta afþreyingin

Sundsprettur er vinsælasta afþreying erlendra ferðamanna á íslandi, en yfir 60% þeirra fara í íslenska sundlaug. Í náttúruskoðun fara um 55% þeirra, í hveralaug um 50% og á söfn fara líka margir. Jöklaferðir og bátsferðir hafa átt vaxandi vinsældum að fagna undanfarin ár og yfir 30% erlendra ferðamanna sem tóku þátt í viðhorfskönnuninni, skemmtu sér þannig í ágústmánuði. Þátttakendur í könnuninni voru um 1500 og í ágúst sögðust 12,2% aðspurða hafa farið í hvalaskoðun.

Helsta samkeppnin um ferðamennina sem vilja heimsækja Ísland er við önnur Norðurlönd, Stóra-Bretland, Mið- og Suður-Evrópu og Bandaríkin. Friðsældin, hreinleikinn og óbeisluð náttúran valda síðan mestu um að ákvörðun er tekin um að koma hingað, eftir könnuninni að dæma.

Áður en hingað er komið fá ferðamenn þær upplýsingar um Ísland sem ekki eru fengnar frá vinum og ættingjum, oftast í gegnum Flugleiðir og bæklinga og handbækur. 52,5% þeirra sem komu á haustmánuðum fengu upplýsingar sínar hjá Flugleiðum.

Hvað kostar miði til Íslands?

Pakkaferð til Íslands kostar að meðaltali 83.064 krónur, en oftast eru flugmiði, gisting og ferðir innifalin í verðinu. Útgjöld einstaklinga í þessum ferðum voru að jafnaði 26.732 krónur eða 4.795 krónur á dag.

Flugmiði til Íslands handa þeim sem ferðast á eigin vegum kostar að jafnaði 51.363 krónur og eyða þeir að meðaltali 46.862 krónum til viðbótar hér á landi.