Clinton sver embættiseið öðru sinni BILL Clinton sór embættiseið sem forseti Bandaríkjanna sl. mánudag og er hann aðeins annar demókratinn um meira en hálfrar aldar skeið, sem gegnir embættinu tvö kjörtímabil.

Clinton sver embættiseið öðru sinni

BILL Clinton sór embættiseið sem forseti Bandaríkjanna sl. mánudag og er hann aðeins annar demókratinn um meira en hálfrar aldar skeið, sem gegnir embættinu tvö kjörtímabil. Í ræðu sinni lýsti Clinton hugmyndum sínum um þróun bandarísks samfélags á næstu öld og skoraði á repúblikana að aðstoða sig við að byggja upp "land nýrra fyrirheita". Í því sambandi nefndi hann meðal annars bætt samskipti kynþáttanna, hallalaus fjárlög og ný lög um fjármögnun stjórnmálaflokka. Um utanríkismálin fór hann aðeins almennum orðum og lagði áherslu á varðveislu friðar og baráttu gegn hermdarverkum. Tugþúsundir manna voru við embættistökuna og lauk hátíðarhöldunum með skrúðgöngu og viðhafnardansleikjum.

Suður-Kóreustjórn hopar

KIM Young-sam, forseti Suður-Kóreu, tilkynnti sl. þriðjudag, að ríkisstjórnin væri tilbúin til að endurskoða nýsamþykkta vinnulöggjöf en andstaða launþega við hana hefur hrint af stað miklum verkföllum í landinu. Jafnframt kvaðst hann reiðubúinn að taka aftur til umfjöllunar á þingi ný lög um aukin völd leyniþjónustunnar og lýsti yfir, að dregnar yrðu til baka skipanir um handtöku ýmissa verkalýðsleiðtoga. Kom þessi yfirlýsing á óvart en talsmenn verkalýðsfélaganna og stjórnarandstöðunnar krefjast þess enn, að vinnulöggjöfin verði afnumin skilyrðislaust. Ætla verkalýðsfélögin að halda verkföllum áfram einn dag í viku þar til við því hefur verið orðið.

ÁSTANDIÐ í Alsír verður skelfilegra með hverjum degi sem líður en skæruliðar bókstafstrúarmanna hafa myrt um 200 manns á rúmum hálfum mánuði. Hefur Hocine Ait Ahmed, einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í landinu ef bókstafstrúarmenn eru undanskildir, skorað á Bill Clinton Bandaríkjaforseta að koma til hjálpar og miðla málum en ekki er líklegt að af því verði vegna andstöðu herforingjastjórnarinnar við afskipti erlendra ríkja af borgarastríðinu.

HEILSULEYSI Borís Jeltsíns, forseta Rússlands, er farið að valda miklum efasemdum um, að hann sé eða verði fær um að stýra ríkinu. Í dúmunni hefur verið rætt um, að hann verði neyddur til að segja af sér og sambandsþingið hefur skorað á Jeltsín að reka einn ráðgjafa sinn, Borís Berezovskí, vegna glannalegra yfirlýsinga hans. Jeltsín kom aftur til vinnu á miðvikudag í stutta stund en það varð aðeins til að sýna enn betur en áður hve langt hann á í land með að ná fyrra starfsþreki.

LÖGREGLAN í Serbíu beitti valdi gegn mótmælendum á fimmtudag en þeir höfðu þá lokað veginum til bæjarins Kragujevac. Særðust nokkrir menn þegar kylfurnar voru látnar ganga á þeim og nokkrir stjórnarandstæðingar og tveir kvikmyndatökumenn AP-fréttastofunnar voru handteknir. Talið er, að þessi átök muni auka á spennuna milli stjórnarandstöðunnar og sósíalistastjórnar Slobodans Milosevics forseta.