Helga Guðrún Þórðardóttir Engill Drottins laut þér og leysti þig úr böndum og leiddi þína sál inn í Drottins helgidóm. (Davíð Stef.) Hæglát, prúð og hrekklaus kona hefur nú lokið sinni lífsgöngu meðal okkar. Eftir lætur hún minningu góðra kynna.

Í minningu æskuára minna var Helga frænka mín hin ljúfa og góða kona sem var sívinnandi. Bar heimili hennar þess merki hve þrifin hún var. Aldrei sást neins staðar ryk eða kusk þrátt fyrir að smíðaverkstæði eiginmanns hennar væri með sama inngang og heimili þeira og alltaf man ég hvað koparlistarnir á stiganum voru vel fægðir.

Það var svo ótrúlega margt sem þessi hægláta kona kom í verk. Hún var virkur félagi í Kvenfélaginu Ársól í Súgandafirði þar til hún flutti til Reykjavíkur árið 1951 en þá hafði hún verið ritari félagsins í 27 ár. Það er öllum félögum mikils virði að hafa góða fundaritara og þegar það kom í minn hlut að taka saman 50 ára sögu Ársólar fann ég hvað hún hafði lagt mikla alúð í þetta embætti sitt.

Eftir að Helga kom til Reykjavíkur starfaði hún í Félagi framsóknarkvenna og var hún heiðursfélagi þess. Þar átti ég þess kost að starfa með henni og vil ég fyrir hönd okkar sem með henni störfuðum þar þakka henni hjartanlega fyrir hennar framlag til félagsins og alla þá miklu vinnu sem hún lagði í hinn árlega basar okkar. Við minnumst hennar með virðingu og þökk.

Ég og fjölskylda mín höfum átt þess kost að hafa gott samband við fjölskyldu Helgu eftir að við fluttumst á Reykjavíkursvæðið. Alltaf dáðist ég að því hvað hún var minnug á alla afmælisdaga og á nöfn barna minna og barnabarna. Hún fylgdist líka vel með því sem var að gerast í þjóðlífinu fram á síðustu ár.

Helga átti barnaláni að fagna og öll eru þau vel gefin og mikið mannkostafólk, sannir vinir vina sinna. Þau umvöfðu hana ástúð og hlýju til hinstu stundar.

Ég og fjölskylda mín vottum börnum hennar, tengdabörnum og barnabörnum innilega samúð og þökkum ómetanleg kynni af góðri konu og tökum undir með Theodóru Thoroddsen:

Ljáðu mér, Drottinn, líknarmund,

lof mér hér að festa blund,

vaktu hjá mér stutta stund,

strjúktu mein úr hjarta.

Ljúft er að sofna í logaskininu bjarta.

Vertu kær kvödd og góðum Guði falin.

Sigrún Sturludóttir.