Borgaralegt flug orðið meirihluti umferðar um Keflavíkurflugvöll Bandaríkin munu ekki taka á sig nýjan kostnað BANDARÍKIN hafa komið á framfæri við íslenzk stjórnvöld þeirri ákvörðun bandaríska flotans að taka ekki á sig neinn nýjan kostnað vegna...

Borgaralegt flug orðið meirihluti umferðar um Keflavíkurflugvöll Bandaríkin munu ekki taka á sig nýjan kostnað

BANDARÍKIN hafa komið á framfæri við íslenzk stjórnvöld þeirri ákvörðun bandaríska flotans að taka ekki á sig neinn nýjan kostnað vegna fyrirhugaðrar stækkunar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eða annarra framkvæmda á Keflavíkurflugvelli, sem kunna að verða nauðsynlegar vegna aukinnar borgaralegrar flugumferðar um völlinn. Borgaralegt flug er nú þegar meirihluti allrar umferðar um Keflavíkurflugvöll.

Samkvæmt viðauka við varnarsamninginn um greiðslu kostnaðar við rekstur Keflavíkurflugvallar skuldbinda Bandaríkjamenn sig til að bera allan kostnað af viðhaldi flugbrauta, akbrauta og flugvélastæða og af snjóhreinsun, hálkuvörnum og viðhaldi ljósabúnaðar. Þá standa Bandaríkin undir öllum kostnaði af slökkviliði flugvallarins. Íslendingar greiða hins vegar kostnað vegna flugumferðarstjórnar á vellinum og nam sá kostnaður rúmlega 250 milljónum króna í fyrra. Kostnaður Bandaríkjanna hefur hins vegar verið á bilinu 345-900 milljónir, eftir því hversu miklar viðhaldsframkvæmdir hafa verið.

Kostnaðarþátttöku hafnað en samvinna um sparnað

Á undanförnum árum hafa Bandaríkin knúið mjög á um kostnaðarþátttöku Íslendinga í rekstri flugvallarins, en íslenzk stjórnvöld hafa alfarið hafnað því, með tilvísun til varnarsamningsins. Ísland hefur hins vegar lýst sig reiðubúið að finna leiðir til sparnaðar í rekstri vallarins.

Bandaríkjamenn benda á að t.d. stækkun flughlaða, sem fyrirhuguð er, sé eingöngu vegna aukningar borgaralegrar umferðar um flugvöllinn og að þeir eigi því ekki að bera neinn kostnað af henni, til dæmis vegna snjómoksturs. Um þessi atriði þurfi að semja.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir að samningar við Bandaríkjamenn séu alveg skýrir. "Bandaríkjamenn kosta rekstur flugvallarins. Að því er varðar stækkun flugstöðvarinnar er það mál sem við munum að sjálfsögðu kosta og engin umræða hefur verið um annað," segir hann.

Samningarnir skýrir

"Samningarnir eru skýrir frá fyrstu tíð. Íslendingar hafa að sjálfsögðu haft ýmsan kostnað af varnarstöðinni og veru varnarliðsins hér. Við höfum aldrei látið okkur detta í hug að biðja um einhverjar greiðslur vegna þess. Þetta var ýtarlega rætt þegar gert var samkomulag um framkvæmd varnarsamningsins í fyrra, sem gildir í fimm ár. Það kemur mér á óvart ef einhver er að taka það upp á nýjan leik. Við höfum hins vegar fallizt á það og vinnum að því hörðum höndum í samstarfi við Bandaríkjamenn að gera tillögur til að lækka kostnað við rekstur varnarstöðvarinnar. Það er ýmislegt í gangi hvað það varðar og við munum vinna að því áfram í samræmi við niðurstöðuna frá í fyrra," segir utanríkisráðherra.

Bandaríkin borga ekki/6