FÓLK Ver doktorsritgerð við heimspekideild DOKTORSVÖRN við heimspekideild Háskóla Íslands fer fram laugardaginn 15. febrúar. Dagný Kristjánsdóttir, cand.mag. ver rit sitt Kona verður til.

FÓLK Ver doktorsritgerð við heimspekideild

DOKTORSVÖRN við heimspekideild Háskóla Íslands fer fram laugardaginn 15. febrúar. Dagný Kristjánsdóttir, cand.mag. ver rit sitt Kona verður til. Um skáldsögur Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir fullorðna sem dómnefnd skipuð af heimspekideild hefur metið hæfa til doktorsprófs.

Andmælendur af hálfu heimspekideildar verða dr. Ástráður Eysteinsson prófessor og dr. Sigríður Þorgeirsdóttir lektor, en auk þeirra sat í dómnefndinni Erik Skyum-Nielsen, bókmenntafræðingur í Kaupmannahöfn. Deildarforseti heimspekideildar, dr. Páll Skúlason prófessor, stjórnar athöfninni.

Dagný Kristjánsdóttir lauk cand.mag. prófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands 1979. Hún kenndi við Menntaskólann á Egilsstöðum 1979­1981 og var íslenskur lektor í Ósló 1982­1990. Hún hefur kennt bókmenntir í Skor íslensku fyrir erlenda stúdenta síðan 1991 og hefur gegnt starfi dósents síðan 1992. Dagný hefur setið í dómnefnd um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, íslensku bókmenntaverðlaunin og bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Hún hefur haldið fyrirlestra um íslenskar bókmenntir og skrifað fjölda greina um íslenskar bókmenntir heima og erlendis. Dagný Kristjánsdóttir er íslenskur ritstjóri í II.-V. bindi Nordisk kvinnelitteraturhistorie (1993-).

Kona verður til kom út 1996 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Doktorsvörnin fer fram í hátíðarsal háskólans og hefst kl. 14. Öllum er heimill aðgangur.