BAKTERÍAN Chlamydia pneumoniae er ekki jafn kunn og nafna hennar trachomatis, sem veldur kynsjúkdómi, en hún er miklu útbreiddari og hugsanlega miklu hættulegri. Allir komast í kynni við þessa bakteríu fyrr eða síðar og margir oft en hún berst á milli manna með hósta og hnerra. Veldur hún sýkingu í öndunarfærum, sem stundum getur orðið að lungnabólgu.
Er baktería undirrót

hjartasjúkdóma?

Margt bendir til að baktería, sem veldur annars sýkingu í öndunarfærum, geti verið völd að æðaþrengslum

BAKTERÍAN Chlamydia pneumoniae er ekki jafn kunn og nafna hennar trachomatis, sem veldur kynsjúkdómi, en hún er miklu útbreiddari og hugsanlega miklu hættulegri. Allir komast í kynni við þessa bakteríu fyrr eða síðar og margir oft en hún berst á milli manna með hósta og hnerra. Veldur hún sýkingu í öndunarfærum, sem stundum getur orðið að lungnabólgu.

Frá þessu segir í síðasta hefti af bandaríska tímaritinu Newsweek og þar segir, að æ fleiri sérfræðingar séu að komast á þá skoðun, að bakterían sé miklu hættulegri en talið hefur verið. Það er að vísu ekki fullsannað enn en margt bendir til, að Chlamydia pneumoniae geti komist inn í æðaveggi og verið þar árum saman. Þar valdi hún bólgum, sem aftur leiði til hjartaáfalla og heilablóðfalls.

Með þessu er ekki verið að halda því fram, að bakterían ein valdi æðakölkun eða að rétt mataræði og hreyfing skipti ekki máli, heldur, að líkur séu á, að ástæðan fyrir helsta banameini á Vesturlöndum sé smitandi og hægt sé að ráða við hana með sýklalyfjum.

Cp-mótefni í blóði

Það voru tveir finnskir læknar, Pekka Saikku og Maija Leinonen, sem vöktu fyrst athygli á Cp 1988 en þá sýndu þeir fram á, að fólk með einhverja hjartasjúkdóma væri miklu líklegra en heilbrigt fólk til að vera með mótefni gegn Cp í blóðinu. Önnur rannsókn sýndi óvanalega mikið af þessum mótefnum í fólki, sem orðið hafði fyrir hjartaáfalli.

Flestir sérfræðingar litu bara á þessa niðurstöðu sem tölfræðileg skringilegheit en Thomas Grayston, faraldursfræðingur við Washington-háskóla, vildi skoða þetta betur. Komst hann að sömu niðurstöðu í Seattle og Saikku í Helsinki og síðan hafa átta rannsóknahópar í fimm löndum staðfest hana.

Þetta sannaði þó ekki eitt né neitt og því var sérstaklega farið að leita að Cp í stífluðum æðum. Það bar árangur 1993 þegar suður- afrískur vísindamaður fann bakteríur í vef, sem skorinn hafði verið úr sjúkum æðum. Var þar aðallega um að ræða Cp. Þetta var staðfest í öðrum rannsóknum og 1995 fann James Summersgill við háskólann í Louisville bakteríuna lifandi í æðum manns, sem átti að fá nýtt hjarta.

Graystone segir, að nú sé ekki lengur efast um, að bakteríur eða aðrar örverur eigi sinn þátt í æðasjúkdómum. Sama sé á hvaða aldri fólk er, þjóðerni eða kyni, ef það er með æðaþrengsli, þá ber það merki um sýningu af völdum Chlamydia pneumoniae. Hún finnst líka aðeins í sjúkum æðavef en ekki í alveg heilbrigðum eins og er með ýmsar aðrar örverur.

Smitandi átfrumur

Eftir sem áður er sekt Cp ekki fyllilega sönnuð en vísbendingarnar hrannast upp. Vísindamenn hafa lengi vitað, að æðaþrengsli eru bólgusjúkdómur, sem leggst á æðar í öllum líkamanum, en æðar, sem þjóna hjarta og heila, eru sérstaklega viðkvæmar. Ferlið hefst með því, að ónæmiskerfið hefst handa við að fjarlægja fitu, kólesteról og annað óæskilegt efni úr æðaveggjunum. Um það sjá svokallaðar átfrumur en þær geta valdið ertingu á þessum stöðum og bólguþrymlum, sem aftur geta stíflað æðarnar. Margir telja, að Cp geti komið þessu af stað.

Kenningin er sú, að átfrumur, sem hafa hreinsað Cp úr öndunarfærum, geti stundum orðið smitberar. Þegar þær fari um æðarnar geti þær smitað frumur í æðaveggjum. Smituðu frumurnar kalli síðan á enn fleiri átfrumur, sem sýki þá enn fleiri frumur, og útkoman verði enn meiri bólgumyndun. Hefur verið sýnt fram á það í rannsóknastofum, að Cp getur lifað inni í átfrumu og í frumum í æðaveggjum, og líka, að sjúkar frumur eru eins og segull á átfrumurnar.

Hjartveikar kanínur

Tilraunir á dýrum hníga einnig að þessu sama. Á Michael's-sjúkrahúsinu í Toronto var hópur kanína sýktur með Cp í gegnum nasir og eftir hálfan mánuð höfðu myndast sár í meginslagæð tveggja þeirra. Finnsku læknarnir, Saikku og Leinonen, sýktu fimm kanínur með sama hætti en kanínur fá annars ekki æðaþrengsli þótt þær fái fituríkt fæði. Eftir sjö vikur voru þrjár þeirra komnar með æðaþrengsli. Ef í ljós kemur, að sýklalyf geta unnið á bólguþrymlunum, þá er ekki lengur vafi á um hvað olli þeim.

Þótt á daginn komi, að Cp eigi þátt í hjartaáföllum, þá er mörgum spurningum enn ósvarað. Til dæmis hvers vegna sumum sé hættara en öðrum; hvort fita og kólesteról séu ástæða út af fyrir sig eða aðeins ásamt bakteríunni og hvernig þetta vinni allt saman. Hugsanlega sest Cp að í sárum, sem fita og kólesteról hafa myndað, og gerir þau verri, og kannski veldur bakterían sárum, sem safna í sig óæskilegum efnum.

Hjartaáföllum fækkar

Dauðsföllum af völdum hjartaáfalla hefur fækkað um helming frá því á miðjum sjöunda áratugnum og ástæðan er meðal annars heilsusamlegra líferni og betri læknisþjónusta. Fækkunin fer líka vel saman við aukna notkun lyfja eins og "tetracycline" og "erythromycin" og til stendur að gera sérstakar tilraunir með þessi lyf og önnur. Raunar hefur þegar verið gerð tilraun á St. George's-sjúkrahúsinu í London með lyfið "azithromycin" og kom í ljós við samanburð á tveimur hópum hjartasjúklinga, að það dró úr bólgum.

Fylgst með hér á landi

Guðmundur Þorgeirsson hjartalæknir sagði í samtali við Morgunblaðið, að með þessum rannsóknum væri vel fylgst hér á landi enda væru þær orðnar að mikilvægri grein í æðakölkunarrannsóknum. Sagði hann, að komið hefði til umræðu hér að kanna mótefni í hjartaverndargögnum, frystum sýnum, en um það hefði þó ekkert verið ákveðið enn.

Guðmundur sagði, að það væri ekki aðeins, að Chlamydia pneumonia gæti komið við sögu, heldur einnig ákveðnar veirur en æðakölkun væri ákaflega flókinn sjúkdómur og aðdragandinn langur. Því gæti verið erfitt að skera úr um hvað væri orsök og hvað fylgifiskur. Það væri því ekki ráðlegt að kasta fyrir róða þeirri áherslu, sem nú væri á heilbrigða lífshætti, enda líklegt, að óhollar lífsvenjur byggju sjúkdómnum betri skilyrði en ella hver sem frumorsökin væri.