Mér hefur ávallt þótt það undarlegt hve lítið hefur verið minnst konu Gríms Thomsens í skrifum um skáldið á Bessastöðum. Í Bessastaðakirkju er minnst allra síðustu ábúenda Bessastaða og í kirkjunni er minningartafla um Grím en ekki getið frú Jakobínu.
Húsfreyjan á Bessastöðum

HIN GLEYMDA EIGIN-

KONA ÞJÓÐSKÁLDSINS

EFTIR JÓNÍNU VIGDÍSI SCHRAM

Þjóðskáldið Grím Thomsen þekkja flestir, jafnvel þótt liðin sé öld frá því hann féll frá. Eiginkona hans, Karólína Jakobína Jónsdóttir, er hins vegar óþekkt eða gleymd og var hún þó mikil merkiskona og var raunar talin besta kvonfang á Íslandi þegar Grímur fluttist ókvæntur heim til Íslands.

Mér hefur ávallt þótt það undarlegt hve lítið hefur verið minnst konu Gríms Thomsens í skrifum um skáldið á Bessastöðum. Í Bessastaðakirkju er minnst allra síðustu ábúenda Bessastaða og í kirkjunni er minningartafla um Grím en ekki getið frú Jakobínu. Ég hef orðið þess áskynja að ýmsir, þar á meðal háskólamenntað fólk, hefur sagt við mig er ég hef nefnt við það konu Gríms: "Átti Grímur Thomsen konu?"

Eiginkona Gríms Thomsens var Karólína Jakobína Jónsdóttir Thomsen, f. 30. nóv. 1835, dóttir hjónanna Þuríðar Hallgrímsdóttur og Jóns Þorsteinssonar, prests í Reykjahlíð við Mývatn. Var Jakobína yngst 13 barna þeirra. Séra Jón var talinn gáfumaður og merkur prestur, íþróttamaður góður og mikill ferðagarpur og búmaður. Þuríður kona hans var ekki síðri að mannkostum. Fjórir bræður Jakobínu urðu prestar og systkinin öll betur menntuð en algengt var á þessum tíma, ekki síst dæturnar.

Jakobína ólst upp í Reykjahlíð til 14 ára aldurs. Þá fer hún með foreldrum sínum austur í Hróarstungu en þegar hún er 17 ára hættir faðir hennar prestskap og flyst hún þá með foreldrum sínum að Hólmum við Reyðarfjörð til bróður síns, séra Hallgríms, og konu hans, Kristrúnar Jónsdóttur, prests að Grenjaðarstað. Áttu þau fjögur börn, sem ólust upp með henni. Kristrún var heilsuveil og kom það í hlut Jakobínu að hugsa um foreldra sína og hjálpa til við að stjórna þessu stóra heimili. Séra Hallgrímur, bróðir hennar, var mikill búmaður á þessari kostajörð og því margt heimilisfólk.

Á heimilinu var góður bókakostur, íslenskar bækur og erlendar. Séra Hallgrímur þýddi ýmislegt, t.d. Wallin. Öll ungmennin á heimilinu ásamt Jakobínu og öðrum skyldmennum, sem ólust þar upp, komust vel niður í dönsku, sænsku, þýsku og frönsku. (Sjá bréf frá Tómasi, syni séra Hallgríms, til Þuríðar systur hans.) En Jakobínu finnst skorta meira á menntun sína og nokkru eftir að faðir hennar andaðist, 1865, fer hún til Reykjavíkur, þá þrítug. Hún býr hjá Þórdísi Thorsteinsen, systur Páls Melsteðs. Sjálf leitar hún sér menntunar bæði til munns og handa, sækir frönskutíma hjá Ágústu, dóttur Gríms amtmanns Jónssonar. Systir Ágústu var Þóra Melsteð sem stofnaði Kvennaskólann í Reykjavík. Ágústa var vel menntuð og gerði mikið að því að kenna ungum stúlkum tungumál og veitti þeim tilsögn í framkomu og háttprýði. Þau tvö ár, sem Jakobína er í Reykjavík, er hún óþreytandi við að afla sér menntunar og víkka sjóndeildarhringinn.

Þetta, sem hér er sagt, er formáli um Jakobínu áður en hún giftist Grími Thomsen. Grímur kemur alkominn til Íslands 1867. Höfðu þá foreldrar hans selt ýmsar eignir sínar til að kosta hann til náms og fleira í 30 ár. Hann var hámenntaður og hafði getið sér frægðarorð erlendis og kynnst mörgum tignarmönnum í mörgum löndum. Sest hann nú að á Íslandi sem bóndi á Bessastöðum. Þá átti hann (hafði erft) kostajörð, Belgsholt í Borgarfirði. Selur hann nú jörðina og kaupir Bessastaði sem höfðu verið í eigu konunga allt frá dauða Snorra Sturlusonar.

Grími var að sjálfsögðu ljóst, að ekki væri gott að hafa ekki húsfreyju sér við hlið. Heimsækir hann þá frænku sína, Ágústu Jónsson, en Ingibjörg, móðir Gríms, var systir Gríms Jónssonar amtmanns, föður Ágústu, og spyr hana hvar sé besta kvonfang á Íslandi. Hún segir honum þá frá Jakobínu.

Árið 1869 kemur bréf að Hólmum. Reyndist það vera frá Grími Thomsen og biður hann þar Jakobínu að verða húsfreyju á óðalssetri sínu, Bessastöðum. Þau höfðu þá aldrei hist svo að ekki var um neitt ástarbréf að ræða. Jakobína hafði heyrt um Grím sem einn af nafnkunnustu Íslendingum. Ljóst er að Jakobína hefur engan veginn fengið sig til að játast manni, sem hún hafði aldrei hitt og á erfitt með að ræða þetta við fjölskyldu sína. Trúir hún því Sólveigu, systur sinni á Gautlöndum, fyrir þessu í bréfi í mars 1870. Jakobína svarar síðan Grími og setur honum þann kost að koma austur að Hólmum svo að þau geti sést og ræðst við. Líklegt er að svo vitur maður sem Grímur var hafi kunnað að meta þessi hyggindi Jakobínu. Fór Grímur austur að Hólmum um sumarið og allt féll í ljúfa löð. Seint í júlí gefur Waldemar Olivarius, sýslumaður Sunnmýlinga, þau saman. Olivarius var tengdasonur séra Hallgríms á Hólmum. Þykir því einkennilegt að sýslumaðurinn skuli gefa þau saman en ekki séra Hallgrímur, bróðir brúðarinnar, og Jakobína sjálf prestsdóttir og á fjórða bræður, sem allir eru prestar. Þau hjónin fóru landveg suður og komu við hjá systkinum Jakobínu. Tókust með þeim Grími góðar ástir en ekki varð þeim barna auðið og þráði þó Jakobína mjög að eignast barn. Tóku þau þá til fósturs Þorlák Jónsson frá Gautlöndum, systurson Jakobínu. Kom hann til þeirra níu ára og varð þeim mjög kær. Einnig ól Jakobína að miklu leyti upp tvær bróðurdætur sínar og margt af ungum ættingjum Jakobínu var langdvölum á Bessastöðum og amaðist Grímur aldrei við því. Guðmundur Tómasson, Hallgrímssonar frá Hólmum, var þar í mörg ár og kenndi Grímur honum undir skóla. Þótti Grími hann óvenjuskýr og skemmtilegur. Setti hann sér að koma honum ellefu ára gömlum í annan bekk Latínuskólans. Einu sinni var Grímur að hlýða Guðmundi yfir latneska málfræði. Gat Guðmundur þá ekki svarað og sló Grímur hann þá utanundir en leggur svo aðra spurningu fyrir Guðmund. Enn svarar hann ekki og fékk þá annan löðrung með latínubókinni. Í því setti að Grími hnerra. Segir þá Guðmundur: "Guð hjálpi þér, Grímur minn." Þá hló Grímur.

Ættmenn Jakobínu kölluðu hana yfirleitt "tanta Bína" en Grímur einn kallaði hana Bobbu. Þann sið höfðu þau að kl. 5 á eftirmiðdögum kom Jakobína með tesopa inn til Gríms og drukku þau teið ein. Með þeim hjónum var gagnkvæm virðing og ást til æviloka. Gestkvæmt var oft hjá þeim, bæði íslenskir gestir og erlendir, og kom það sér vel þá hve víðlesin tungumálakona Jakobína var og gat haldið uppi samræðum við hvern sem var. Stóð Jakobína fyrir rausn og höfðingsskap. Grímur var ekki búmaður enda hafði hann aldrei vanist slíkum störfum. Hvíldi því bústjórn öll að mestu á Jakobínu sem fór það vel úr hendi.

Jakobína fékk töluverðan heimanmund sem fór að mestu í að hressa upp á heimili og búskap á Bessastöðum. Mun fjárhagur þeirra Gríms hafa verið frekar þröngur.

Um tíma var talið að Grímur væri lítill trúmaður því að hann sótti ekki messur hjá séra Þórarni í Görðum en það var af missætti þeirra. Höfðu hross séra Þórarins sótt í haga Bessastaða og lauk svo að Grímur lokaði þau inni í hlöðu. Þurfti séra Þórarinn að sækja þau. En ekki hafði þetta áhrif á vináttu Jakobínu og prestshjónanna og skrýddi Jakobína ávallt séra Þórarin fyrir messu og svo komu prestshjónin ásamt öðrum gestum í kaffi að lokinni messu. Mörgum árum síðar fór Grímur til Þórarins og þeir sættust. Grímur var trúmaður, las alla helgidaga húslestur og faðir vor og vildi að allir væru viðstaddir.

Grímur andaðist haustið 1896 úr lungnabólgu. Þegar hann fann dauðann nálgast bað hann Jakobínu að kveikja á öllum kertum heimilisins og var þeim komið fyrir inni hjá honum. Grímur var jarðsettur að Bessastöðum. Eftir dauða hans seldi Jakobína Bessastaði og lauk þar búsetu fyrstu íslensku bændanna á þessum fræga stað í margar aldir. Fluttist nú Jakobína til Reykjavíkur og kvaðst ekki fara aftur til Bessastaða fyrr en hún yrði lögð við hlið manns síns.

Frú Jakobína var hámenntuð og víðlesin. Gáfur og góðmennska voru aðaleinkenni hennar. Eftir að hún varð ekkja kvartaði hún um að sér þætti einna verst hve sjaldan hún hefði tækifæri til að tala við og hlýða á tal menntaðra manna. Hún andaðist 1919 og var jarðsett við hlið Gríms á Bessastöðum.

Þetta sem ég hef hér skrifað, er mest frá tengdamóður minni, Kristrúnu, en hún var á heimili sonar síns, Ragnars Tómasar, í mörg ár. Þegar hún var að segja mér frá "töntu Bínu" talaði hún oftast eins og Jakobína væri lifandi, þetta var allt svo ljóslifandi fyrir henni. Einnig hef ég farið í aðrar frásagnir í bókum og tímaritum til að fá staðfestingu á þessu, t.d. Frásögn Sigrúnar Bjarnason, frænku Gríms, í viðtalsbók Valtýs Stefánssonar við Sigrúnu, einnig það sem Málmfríður Sigurðardóttir skrifaði í Árbók Þingeyinga um prestsdótturina frá Reykjahlíð. Þá las ég bók Vilhjálms Vilhjálmssonar, Fólkið í landinu þar sem hann ræðir við Kristrúnu Ketilsdóttur sem var vinnukona nokkur ár á Bessastöðum. Stenst allt sem tengdamóðir mín hafði sagt mér. Einnig má nefna bréf Jakobínu til Sólveigar, systur sinnar á Gautlöndum.

Að lokum ætla ég til gamans að segja eina sögu sem tengdamamma sagði mér. Þá var hún sjö ára og bróðir hennar, Guðmundur, sem áður hefur verið nefndur, fimm ára í veislu með foreldrum sínum, frú Ástu og Tómasi Hallgrímssyni lækni, en þau voru einhverjir bestu vinir hjónanna á Bessastöðum. Þar voru margir gestir og lagt á langborð en börnin látin sitja við annað borð til hliðar. Einn gestur var ókominn er sest var að borðum en þegar hann kom er honum vísað til sætis hjá börnunum. Honum þótti sér víst misboðið og ákvað að gera börnunum grikk. Hann fékk eins og aðrir rauðvín með matnum og segir börnunum að þetta sé saft, og lætur þau drekka með matnum. Lauk svo að börnin fóru að finna vín á sér.

Eins og flestir vita átti Grímur á fyrstu Kaupmannahafnarárunum í ástarsambandi við danska stúlku, gáfaða og glæsilega, Magdalene Kragh, sem síðar giftist til Noregs prófasti og ekkjumanni, Thoresen, og gekk þá með barn Gríms Thomsens. Fæðir hún svo barnið í Kaupmannahöfn og kemur því fyrir á uppeldisstofnun. Var það skírt Axel Peter Jensen. Fékk Grímur ekki að vita um barnið fyrr en nokkrum árum síðar og gekkst aldrei formlega við því en tók þó drenginn að sér og borgaði fyrir hann sem ættingi. Er Magdalene heimsótti drenginn var hún líka "ættingi". Axel Peter tók sjóliðsforingjapróf, fór síðar með kaupskipi til Kína og hefur líklega látist þar.

Magdelene Thoresen varð þekkt skáldkona. Skrifuðust þau á, Grímur og hún. Eftir lát Gríms sendi Jakobína Magdalene öll bréfin en tvö þeirra urðu (óvart) eftir og eru þau hin einu sem til eru af bréfum þeim sem þeim Grími fóru á milli. Á Bessastöðum var einnig til gifsstytta af Magdalene og er ekki annað vitað en Jakobína hafi látið sér það vel lynda. Reyndar talaði Grímur mjög lítið um það sem á daga hans hafði drifið þau 30 ár sem hann var erlendis.

Höfundurinn er húsmóðir í Reykjavík og ekkja eftir Ragnar Tómas Árnason útvarpsþul.

KARÓLÍNA Jakobína Jónsdóttir Thomsen. Heim kominn til Íslands og enn ókvæntur, spurðist Grímur Thomsen einfaldlega fyrir um það hvað besta kvenkost landsins væi að finna og var honum bent á Jakobínu.

Myndina teiknaði Árni Elfar eftir ljósmynd sem tekin var af Jakobínu á efri árum hennar.