ÍSLAND endaði í 10. sæti í opna flokknum á Evrópumótinu í brids eftir að hafa tapað tveimur síðustu leikjum sínum. Ítalir vörðu Evrópumeistaratitil sinn og unnu mótið með yfirburðum. Íslenska liðið tapaði bæði fyrir Tékkum og Ungverjum, 8-22, síðasta dag mótsins og endaði með 599,5 stig í 10. sæti. Liðið skorti þó aðeins 16 stig í 5.
Evrópumótið í brids Ísland endaði í 10. sæti eftir slakan lokadag

ÍSLAND endaði í 10. sæti í opna flokknum á Evrópumótinu í brids eftir að hafa tapað tveimur síðustu leikjum sínum. Ítalir vörðu Evrópumeistaratitil sinn og unnu mótið með yfirburðum.

Íslenska liðið tapaði bæði fyrir Tékkum og Ungverjum, 8-22, síðasta dag mótsins og endaði með 599,5 stig í 10. sæti. Liðið skorti þó aðeins 16 stig í 5. sætið sem gaf rétt til þátttöku á næsta heimsmeistaramóti í brids. Í efstu sætunum 5 voru Ítalir, Pólverjar, Norðmenn, Danir og Frakkar en í næstu sætum komu Hollendingar, Bretar, Svíar, Spánverjar og Íslendingar.

Áfram í hópi þeirra bestu

Björn Eysteinsson, fyrirliði íslenska liðsins, sagði að það jákvæða við mótið væri að eftir það gætu Íslendingar áfram talið sig í hópi bestu bridsþjóða heims enda verið í baráttunni um efstu sætin allt mótið. Þá hefðu Íslendingar m.a. unnið stórsigra bæði á Evrópumeisturum Ítala og Ólympíumeisturum Frakka.

"En það leyna sér ekki vonbrigðin meðal liðsmannanna yfir að enda í 10. sætinu því menn ætluðu sér miklu meira. Ástæðurnar fyrir því að svona fór eru sjálfsagt margar en sú stærsta var að mínu mati sú að menn voru að gera of mikið af einstaklingsvillum og þar fuku mörg stig út um gluggann. Þá áttu öll pörin þrjú misjafna daga. En ég er sannfærður um að það er engin ástæða til að missa móðinn vegna þessara úrslita. Það þarf að hafa stríðsgæfuna með sér í svona móti og okkur fannst hún hafa yfirgefið okkur í seinni hlutanum," sagði Björn.