LEIDARI ÁBYRGÐ KÍNA Í HONG KONG AÐ VAR söguleg stund er Bretar afhentu Kínverjum Hong Kong, síðustu stóru nýlendu sína, í gær. Með sameiningu Kína og Hong Kong er endi bundinn á nýlendusögu Evrópuríkja í Asíu. Jafnframt sameinast þarna hreinræktaðasta markaðskerfi og fjölmennasta kommúnistaríki veraldar í eina heild.
LEIDARI ÁBYRGÐ KÍNA Í HONG KONG

AÐ VAR söguleg stund er Bretar afhentu Kínverjum Hong Kong, síðustu stóru nýlendu sína, í gær. Með sameiningu Kína og Hong Kong er endi bundinn á nýlendusögu Evrópuríkja í Asíu. Jafnframt sameinast þarna hreinræktaðasta markaðskerfi og fjölmennasta kommúnistaríki veraldar í eina heild.

Saga breskra afskipta í Hong Kong hefur á sér margar hliðar, sumar miður fallegar. Bretar lögðu landsvæði þetta undir sig eftir að hafa háð styrjöld til að koma á ópíumviðskiptum við Kínverja í andstöðu við kínversk stjórnvöld. Undir þeirra stjórn hefur hins vegar á þessari öld byggst upp auðugt og frjálst ríki í Hong Kong, sem er einn af miðpunktum viðskipta í heiminum.

Grunnurinn að auðlegð Hong Kong var ekki síst lagður er kínverskir kaupsýslumenn flúðu meginlandið í kjölfar byltingar kommúnista. Eftir að Bretar og Kínverjar sömdu um framtíð ríkisins árið 1984 veltu margir kaupsýslumenn því fyrir sér hvort ástæða væri til að hugsa sér til hreyfings á ný.

Grannt verður fylgst með því hvernig Kínverjar munu taka á málum við stjórn borgarinnar. Efnahagslega er það þeim í hag að viðhalda óbreyttu ástandi. Auðlegð og efnahagslegt afl Hong Kong getur orðið gífurleg lyftistöng fyrir kínverskt efnahagslíf ef rétt er haldið á málum. Efnahagslegur uppgangur í Kína hefur verið mestur á svæðunum í grennd við borgina undanfarin ár og stór hluti erlendra fjárfestinga í Kína kemur frá Hong Kong.

Meiri ástæða er hins vegar til að hafa áhyggjur af hinni pólitísku þróun í Hong Kong. Ein fyrsta aðgerð kínverskra stjórnvalda var að leysa upp þingmannasamkundu borgarinnar og skipa nýja fulltrúa í stað þeirra er kjörnir höfðu verið af íbúum borgarinnar í lýðræðislegum kosningum. Þá hefur þótt bera á því nú þegar að fjölmiðlar í Hong Kong hiki við að fjalla um kínversk stjórnvöld á gagnrýninn hátt af ótta við refsiaðgerðir. Þótt Kínverjar hafi skuldbundið sig til að halda óbreyttu kerfi í hálfa öld má gera ráð fyrir að breytinga fari að gæta strax frá upphafi.

Stjórn Hong Kong er mikil prófraun fyrir Kína. Takist vel til styrkir það stöðu Kína á flestum sviðum, efnahagslega jafnt sem pólitískt.

KIRKJAN OG MÓÐURMÁLIÐ

RESTASTEFNA, sem háð var á Akureyri á dögunum, hvatti presta Þjóðkirkjunnar til að vanda málfar sitt og framburð í predikunarstóli. Þessi hvatning á ríkulegt erindi við okkur öll, en ekki hvað sízt við þá, sem ná eyrum þorra landsmanna í skólum og kirkjum, hljóðvarpi og sjónvarpi. Menningarlegt sjálfstæði er forsenda stjórnarfarslegs fullveldis. Fátt er því mikilvægara en að standa trúan vörð um menningararfleifð okkar, tungu og bókmenntir.

Það fer vel á því að kirkjan beiti áhrifum sínum á þessum vettvangi. Fornar bókmenntir okkar voru ekki sízt skráðar á skinn í skjóli biskupssetra og klaustra, sem voru nánast einu fræðslu- og menningarsetur þjóðarinnar í kaþólskum sið. Nýja testamentið í þýðingu Odds Gottskálkssonar um 1540 var fyrsta bókin prentuð á íslenzku. Talið er að sú útgáfa og biblía Guðbrands biskups Þorlákssonar, sem prentuð var árið 1584, eigi hvað drýgstan þátt í því að íslenzk tunga hefur varðveitzt lítt breytt gegnum aldirnar og fram á okkar daga. Og þá ekki síður sú staðreynd að hér hefur ávallt verið predikað á íslenzku.

Við stöndum í ævarandi þakkarskuld við kaþólsk biskupssetur og klaustur fyrir þeirra hlut í skráningu fornra bókmennta okkar. Við stöndum ekki síður í ævarandi þakkarskuld við siðbótarmennina Odd Gottskálksson og Guðbrand biskup Þorláksson, sem eiga drjúgan þátt í því að íslenzk tunga hélt velli á erfiðum öldum í þjóðarsögunni. Það fer vel á því að Þjóðkirkjan brýni þjóna sína og þjóðina alla að vanda mál sitt og framburð á tímum vaxandi utanaðkomandi máláhrifa.