ÞAU tímamót hafa orðið í Japan, að aldrað fólk, 65 ára eða eldra, er orðið fjölmennara en unga fólkið eða þeir, sem eru 15 ára og yngri. 1. júní síðastliðinn voru öldungarnir 50.000 fleiri en börnin og er það afleiðing miklu færri fæðinga en áður og aukins langlífis.
Japanir hafa áhyggjur af framtíðinni

Ungt fólk í minnihluta

Tókýó. Reuter.

ÞAU tímamót hafa orðið í Japan, að aldrað fólk, 65 ára eða eldra, er orðið fjölmennara en unga fólkið eða þeir, sem eru 15 ára og yngri.

1. júní síðastliðinn voru öldungarnir 50.000 fleiri en börnin og er það afleiðing miklu færri fæðinga en áður og aukins langlífis.

"Lengi hefur stefnt í þessa átt og þetta er jafnframt í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar sem gamla fólkið hefur vinninginn yfir ungdóminn," sagði í tilkynningu frá japönsku stjórninni. Um síðustu mánaðamót voru 19,54 milljónir Japana 65 ára eða eldri en 19,49 millj. 15 ára eða yngri. Þessir tveir aldurshópar eru rétt rúmlega 30% þjóðarinnar. Búist er við, að þessi þróun haldi áfram og verði gamla fólkið hálfu fleira unga fólkinu árið 2025.

Þróunin í þessa átt hefur hvergi verið hraðari en í Japan og er farin að valda verulegum áhyggjum. Útilokað þykir, að unnt verði að halda uppi sömu eftirlaunum og nú og vinnufæru fólki fækkar hlutfallslega ár frá ári.