Egilsstaðir-Laugardagur þeirra forsetahjónanna Ólafs Ragnars Grímssonar og Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur á Egilstöðum hófst með heimsókn á elliheimili og sjúkrahús að loknum morgunverði. Þá var Félagsmiðstöð aldraðra að Miðvangi heimsótt, en þar stendur yfir handverkssýning frá tómstundastarfi aldraðra.
Lómatjörn ­ nýr skrúðgarður

opnaður á

Egilsstöðum Egilsstaðir - Laugardagur þeirra forsetahjónanna Ólafs Ragnars Grímssonar og Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur á Egilstöðum hófst með heimsókn á elliheimili og sjúkrahús að loknum morgunverði. Þá var Félagsmiðstöð aldraðra að Miðvangi heimsótt, en þar stendur yfir handverkssýning frá tómstundastarfi aldraðra.

Því næst opnaði forsetinn formlega nýjan skrúðgarð á Egilsstöðum er hlotið hefur nafnið Lómatjarnargarður. Á svæði því sem sá garður er nú, óx hér áður fyrr villtur gróður og þar var Lómatjörn sem mikið var notuð sem skautasvell á vetrum. Fyrir 10 árum var efnt til samkeppni um skipulag þessa svæðis og bar Þóra Guðmundsdóttir arkitekt á Seyðisfirði sigur úr bítum. Fyrir tveimur árum var síðan það skipulag endurskoðað og vinna eftir því nýja hafin af krafti með það fyrir augum að opna garðinn formlega á 50 ára afmæli bæjarins. Hefur svæðið umhverfis tjörnina verið lagfært og villtur gróðurinn fengið að njóta sín sem mest. Veg og vanda af allri þeirri framkvæmd hefur garðyrkjustjóri Egilsstaðabæjar Sigrún Theodórsdóttir haft.

Þar næst var haldið til félagsmiðstöðvar unga fólksins Nýjungar, en þar var skoðuð sýning nokkurra unglinga í Egilsstaðabæ sem hafa notað frístundir sínar vel í vetur við gerð ýmissa muna úr ýmsum efnum. Hefur Lára Vilbergsdóttir verið leiðbeinandi unglinganna við þessi verkefni. Því næst var Golfvöllur Fljótsdalshéraðs í Fellahreppi heimsóttur, en þar hófst kl. 10 um morguninn golfmót í boði Kaupþings í tilefni 50 ára afmælis Egilsstaðabæjar.

Í hádeginu snæddu forsetahjónin með formanni bæjarráðs, Einari Ragnari Haraldssyni og konu hans Guðlaugu Ólafsdóttur. Kl. 14 hófst síðan hátíðarsamkoma á íþróttavellinum. Hófust þau hátíðarhöld með ávörpum Helga Halldórssonar bæjarstjóra, Þuríðar Bachmann forseta bæjarstjórnar og forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar. Einnig undirrituðu þeir Guðmundur Bjarnason landbúnaðarráðherra og Helgi Halldórsson afsal vegna kaupa Egilsstaðabæjar á landi ríkisins sem bærinn stendur á.

Flutt voru margvísleg skemmtiatriði sem stóðu til dagskrárloka um kl. 16. Hátíðarkvöldverður með bæjarstjórn, afmælisnefnd, þingmönnum og ráðherrum hófst síðan í Valaskjálf kl. 18.30 og að honum loknum voru forsetahjónin gestir á Jasshátíð Egilsstaða, en þetta laugardagskvöld var jafnframt síðasta jasskvöld þeirrar hátíðar að þessu sinni. Forsetahjónin flugu síðan aftur til síns heima á sunnudagsmorgun kl. 10. Lauk þar með þessari fyrstu heimsókn forsetahjónanna til Egilsstaða.

Morgunblaðið/Ragnheiður Kristjánsdóttir FRÁ opnun Lómatjarnargarðs. Ólafur Ragnar Grímsson og frú Guðrún Katrín Þorbergsdóttir ásamt Sigrúnu Theodórsdóttur, garðyrkjustjóra Egilsstaðabæjar.

EYSTANKÓRINN frá Runavík flutti nokkur lög.

W. KEITH Reed söngkennari á Egilsstöðum flutti lagið "I got plenty of nothin" úr Porgy og Bess, ásamt syni sínum Jóhanni Keith Schram.

VÍÐA sáust konur uppáklæddar í íslenskum þjóðbúningi í tilefni forsetaheimsóknarinnar og eins og sjá má á myndinni voru það jafnt háir sem lágir.