VELTA í viðskiptum með verðbréf á Verðbréfaþingi Íslands jókst stórlega á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Heildarviðskipti sem skráð eru á þinginu námu alls rúmum 70 milljörðum króna frá áramótum til loka júnímánaðar og urðu um 25 milljörðum kr. meiri en á sama tíma í fyrra en þá var heildarveltan 54.496 milljónir kr.
Viðskipti á Verðbréfaþingi Íslands hafa aukist stórlega á fyrri hluta ársins

Hlutabréfavelta rúmum 5

milljörðum meiri en í fyrra

VELTA í viðskiptum með verðbréf á Verðbréfaþingi Íslands jókst stórlega á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Heildarviðskipti sem skráð eru á þinginu námu alls rúmum 70 milljörðum króna frá áramótum til loka júnímánaðar og urðu um 25 milljörðum kr. meiri en á sama tíma í fyrra en þá var heildarveltan 54.496 milljónir kr. Velta hlutabréfaviðskipta jókst verulega á fyrstu sex mánuðum ársins eða um rúmlega 5 milljarða kr., úr 2.117 milljónum kr. á fyrri árshelmingi árið 1996 í 7.211 millj. kr. frá áramótum til loka júní á þessu ári.

Hér eru ekki meðtalin viðskipti utan þingsins, s.s. hlutabréfaviðskipti á Opna tilboðsmarkaðnum, en Verðbréfaþingið hefur ekki eftirlit með viðskiptum á honum. Sl. föstudag voru heildarviðskipti með hlutabréf á OTM frá áramótum orðin 2.340 milljónir kr. Samanlögð heildarvelta hlutabréfa á Verðbréfaþingi og OTM frá áramótum er því rúmlega 9,5 milljarðar kr.

Velta húsbréfa 3,8 milljarðar

Skv. upplýsingum um veltu einstakra tegunda verðbréfa, sem fengust á Verðbréfaþingi Íslands í gær, kemur fram að velta húsbréfa hefur margfaldast miðað við sama tíma í fyrra og var rúmir 3,8 milljarðar á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við um 637 milljónir kr. á fyrri árshelmingi í fyrra. Kaup og sala húsnæðisbréfa var 859 millj. kr. á fyrri árshelmingi 1996 en 186 millj. kr. það sem af er þessu ári. Velta ríkisbréfa var um 5,3 milljarðar á fyrri árshelmingi í fyrra en 4,8 milljarðar á sama tíma í ár og velta ríkisvíxla var svipuð og í fyrra eða rúmir 35 milljarðar. Nýjar tegundir skammtímabréfa hafa verið skráðar á þinginu, s.s. bankabréf og bankavíxlar, en velta þeirra frá áramótum var um 8,5 milljarðar

Í júní dró nokkuð úr veltuaukningunni á Verðbréfaþingi en í nýliðnum mánuði var heildarvelta á Verðbréfaþingi um 11,5 milljarðar samanborið við 10,3 í sama mánuði 1996.

Hlutabréfaviðskipti tæpir 2,2 milljarðar í apríl

Hlutabréfaviðskipti á Verðbréfaþingi drógust verulega saman í júni miðað við mánuðina á undan en hlutabréfaviðskipti voru þrátt fyrir það nærfellt tvöfalt meiri í nýliðnum mánuði en í júnímánuði í fyrra eða rúmlega 663 milljónir samanborið við 384 millj. í fyrra.

Mest urðu viðskipti með hlutabréf í mánuðunum frá febrúar og út maímánuð eða um 1,2 milljarðar í febrúar, rúmlega einn milljarður í mars og hámarki náðu viðskiptin í apríl en þá voru skráð viðskipti með hlutabréf fyrir 2.171 milljónir króna samanborið við 242 milljóna kr. skráð hlutabréfaviðskipti á Verðbréfaþingi í aprílmánuði í fyrra.

Samfara stóraukinni veltu í hlutabréfaviðskiptum á fyrstu sex mánuðum þessa árs er fjöldi skráðra viðskipta með hlutabréf þrefalt meiri en í fyrra en samanlagður fjöldi viðskipta með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands var 5.837 á fyrra helmingi ársins samanborið við 1.680 skráð viðskipti á sama tímabili í fyrra.

Samfelldar verðhækkanir fjórða árið í röð

Eiríkur Guðnason, stjórnarformaður Verðbréfaþings Íslands, segir að á síðustu tveimur árum hafi peningamarkaðurinn staðið undir aukinni veltu á Verðbréfaþingi, fyrst og fremst vegna ríkisvíxla og svo bankavíxla sem komu á markaðinn undir lok seinasta árs og má rekja stærstu fjárhæðirnar í veltu þingsins til viðskipta með slík skammtímabréf.

Hins vegar hafi orðið greinileg aukning í hlutabréfaviðskiptum sem stafi af gífurlegum áhuga á hlutabréfum. Á því séu ýmsar skýringar, ekki síst mikil verðhækkun hlutabréfa á undanförnum árum. Eiríkur segir þetta fjórða árið í röð þar sem hefur orðið stöðug verðhækkun á hlutabréfum, sem hafi hækkað um 25% árið 1994, um 35% árið 1995, um 60% í fyrra og það sem af er þessu ári er verðhækkunin rúm 28%. "Þetta hvetur fólk til að eiga viðskipti og fyrirtækin sem eru á þessum markaði og geta selt bréf á góðu verði njóta góðs af," segir Eiríkur.