Enskir kylfingar settu heimsmet á Jaðarsvelli í gær Léku sautján hringi á tæpum sólarhring ENSKIR kylfingar, sem til Akureyrar komu til að reyna við nokkuð sérstakt heimsmet, náðu takmarki sínu kl. 17.45 í gær.
Enskir kylfingar settu heimsmet á Jaðarsvelli í gær Léku sautján hringi

á tæpum sólarhring

ENSKIR kylfingar, sem til Akureyrar komu til að reyna við nokkuð sérstakt heimsmet, náðu takmarki sínu kl. 17.45 í gær. Þá höfðu þeir spilað golf á Jaðarsvelli á Akureyri í rétt tæpar 24 klukkustundir og spilað sautján 18 holu hringi, eða samtals 306 holur. Auk þess að slá heimsmetið, sem sett var á Jaðarsvelli árið 1991 og var 16 hringir á einum sólarhring, söfnuðu Englendingarnir 20.000 pundum, rúmlega 2,3 milljónum króna fyrir krabbameinssamtök í heimalandi sínu.

Fimm kylfingar lögðu af stað í mettilraunina á sunnudag, fjórir spilarar og einn varamaður, auk þess sem þeim fylgdu aðstoðarmenn er skráðu niður högga- og holufjölda og fylgdust með að farið væri að leikreglum.

Gamli methafinn hætti

Eftir sex hringi varð einn spilarana að hætta vegna meiðsla og tók þá varamaðurinn við og lék síðustu 11 hringina. Sá er meiddist er Simon Gard en hann var eimitt í hópi þeirra sem settu gamla metið árið 1991.

Spilað var með tvær kúlur og slógu tveir kylfinganna upphafshöggin en hinir tveir biðu úti á vellinum, tilbúnir að slá næstu högg í átt að holunum. Tom Hawkings og James Male léku alla 17 hringina saman en Bruce Hopkins lék fyrstu sex hringina með Simon Gard og síðustu 11 hringina með Tom Priday.

Gífurleg lífsreynsla

Þeir voru að vonum glaðir ensku kylfingarnir er þeir höfðu sett niður á 18. flöt á 17. hring en þreyttir og aumir í fótunum. "Þetta var gífurleg lífreynsla en ég treysti mér ekki til að gera þetta aftur," sagði Tom Hawkings í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði að veðrið hafi leikið við þá félaga, fyrir utan að það var heldur hvasst er þeir hófu leik seinni part á sunnudag.

Fyrstu hringina léku þeir félagar á um einni klukkustund en eftir því sem hringjunum fjölgaði lengdist tíminn og fór alveg upp í 1 klst. og 50 mínútur.

Bruce Hopkins, sagði að erfiðasta tímabilið hafi verið eftir 10-12 klukkustundir en menn hafi með harðfylgi náð að komast yfir þann hjalla og halda út til loka. Talið er að hver þeirra hafi lagt að baki um 75 mílur, eða um 120 km.

Léku vel allan tímann

Kylfingarnir léku mjög vel allan tímann, þrátt fyrir að vera í kapphlaupi við tímann og sem dæmi lék annað liðið á 43 höggum seinni 9 holurnar á 17. hring. Golfvöllurinn á Akureyri varð fyrir valinu fyrir heimsmetstilraunina þar sem hann er nyrsti 18 holu völlur heims og þar er dagsbirta allan sólarhringinn í júnímánuði.

Morgunblaðið/Björn Gíslason ÞAÐ þótti vel við hæfi að skála í kampavíni eftir að heimsmetið frá 1991 hafði verið slegið á Jaðarsvelli í gær. F.v. James Male, Tom Priday, Simon Gard, Bruce Hopkins og Tom Hawkings.