TILLAGA um skipun þriggja manna vinnuhóps til að fjalla um byggingu yfir íþrótta- og sýningarsvæði sem á að rúma knattspyrnuvöll í fullri stærð og frjálsíþróttaaðstöðu þar í kring var samþykkt í Íþrótta- og tómstundaráði í gær. Tillagan var lögð fram á fundi ráðsins fyrir tveimur vikum en afgreiðslu hennar var þá frestað að beiðni minnihlutans í nefndinni.

Yfirbyggður

knattspyrnu-

völlur til

athugunar

TILLAGA um skipun þriggja manna vinnuhóps til að fjalla um byggingu yfir íþrótta- og sýningarsvæði sem á að rúma knattspyrnuvöll í fullri stærð og frjálsíþróttaaðstöðu þar í kring var samþykkt í Íþrótta- og tómstundaráði í gær.

Tillagan var lögð fram á fundi ráðsins fyrir tveimur vikum en afgreiðslu hennar var þá frestað að beiðni minnihlutans í nefndinni. Fulltrúar í vinnuhópnum verða frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, Knattspyrnusambandi Íslands og Íþrótta- og tómstundaráði. Vinnuhópurinn á að skoða fjármögnun, framkvæmdir og rekstur á yfirbyggðu íþrótta-, knattspyrnu- og sýningarhúsi í Laugardal.

Steinunn V. Óskarsdóttir, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs, segir að til greina komi að nýta viðbyggingu Laugardalshallarinnar, sem byggð var í tengslum við heimsmeistaramótið í handknattleik, sem fram fór árið 1995. Viðbyggingin yrði þá nýtt sem tengibygging við nýtt hús austan Laugardalshallar. Steinunn segir að þegar viðbyggingin var byggð á sínum tíma hefðu slík áform um framtíðarnýtingu einmitt verið uppi. Með því væri hægt að samnýta Laugardalshöllina, tengibygginguna og nýtt hús til sýninga, íþróttaiðkana og fleiri nota.

Annar staður en Laugardalur mögulegur

Í greinargerð sem fylgir tillögunni er vinnuhópnum gefin heimild til þess að kanna aðra staðsetningu en í Laugardal. Húsið á að rúma knattspyrnuvöll í fullri stærð og frjálsíþróttaaðstöðu þar í kring. "Gert er ráð fyrir að vinnuhópurinn starfi í nánu samstarfi við Frjálsíþróttasamband Íslands enda verður að huga að hagsmunum frjálsíþróttafólks í þessu sambandi sem og knattspyrnumanna," segir Steinunn.

Ekki er ákveðið hvenær vinnuhópurinn skilar tillögum en ráðgert er að það verði með haustinu. Hópurinn verður skipaður á næstu dögum.