ÁSGEIR R. Helgason sálfræðingur varði 30. maí doktorsritgerð í læknavísindum við Krabbameinslækningadeild Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi. Ritgerðin er skrifuð á ensku og heitir: "Prostate cancer treatment and quality of life ­ a three level epidemiological approach." Efnið byggt á sjö ritgerðum
FÓLK Doktor í læknavísindum

ÁSGEIR R. Helgason sálfræðingur varði 30. maí doktorsritgerð í læknavísindum við Krabbameinslækningadeild Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi. Ritgerðin er skrifuð á ensku og heitir: "Prostate cancer treatment and quality of life ­ a three level epidemiological approach."

Efnið byggt á sjö ritgerðum Leitað er svara við þeirri spurningu hvort æskilegt sé að meðhöndla staðbundið krabbamein í blöðruhálsi. Efni ritgerðarinnar er tvíþætt og byggir á sjö aðskildum greinum sem birtar hafa verið í alþjóðlegum tímaritum um læknisfræði. Fyrri hlutinn fjallar um kynlíf og mikilvægi þess fyrir eldri menn og vandamál tengd þvagfærum og endaþarmi. Þessir þættir eru rannsakaðir í úrtaki manna, á aldrinum 50­80 ára, með krabbamein í blöðruhálsi og niðurstöðurnar bornar saman við jafnaldra þeirra sem ekki hafa sjúkdóminn. Leitað er svara við því að hve miklu leyti þessi einkenni tengjast sjálfum sjúkdómnum og að hve miklu leyti rekja megi þau til þeirra meðferðarúrræða sem í boði eru.

Áhrif einkenna á lífsgæði Í öðrum hluta ritgerðarinnar er athugað hvaða áhrif einkennin hafa á lífsgæði sjúklinganna og eldri manna almennt. Leitað er nýrra leiða til að meta lífsgæði með það að leiðarljósi að niðurstöðurnar hafi hagnýtt gildi við ákvörðun meðferðar.

Meginniðurstöðurnar voru að öll meðferðarúrræði við krabbameini í blöðruhálskirtli hafi í för með sér aukaverkanir. Þær algengustu eru "getuleysi" og minnkuð nautn við kynlífsfullnægingu en einnig eru algeng einkenni frá þvagfærum og endaþarmi m.a. þvagleki og hægðatregða. Þegar menn eru upplýstir um að ekki hafi verið hægt að sýna fram á að meðferð við staðbundnu blöðruhálskirtilskrabbameini auki lífslíkur sjúklinga en að u.þ.b. 80% þeirra séu á lífi 10 árum eftir greiningu, með eða án meðferðar, segjast u.þ.b. 1/5 hluti aðspurðra reiðubúinn að hafna meðferð til að komast hjá þessum aukaverkunum á meðan 2/5 hlutar mannanna voru ekki tilbúnir að hafna meðferð þrátt fyrir ofangreindar aukaverkanir.

Aukaverkanir og bati vegast á Í lok ritgerðarinnar er komist að þeirri niðurstöðu að heilbrigðisstarfsfólki beri að upplýsa sjúklinga um staðfestan árangur og aukaverkanir meðferða. Ennfremur að ákvörðunin um hvort og þá hvernig eigi að meðhöndla staðbundið krabbamein í blöðruhálsi sé matsatriði þar sem vega verður neikvæðar aukaverkanir á móti hugsanlegum bata.

Faðir Ásgeirs er Helgi Valdimarsson læknir, giftur Guðrúnu Agnarsdóttur lækni og móðir hans er Ólöf Ásgeirsdóttir húsmóðir, gift Sigurði Þormar verkfræðingi. Eiginkona hans er Sigrún M. Proppé, við framhaldsnám í sállækningum, og synir þeirra eru Hugi og Muni.