REYNSLAN hefur sýnt að steinsteypan ein og sér þolir illa íslenzka veðráttu. Veðraskipti eru hér bæði snögg og tíð á veturna og sennilega má rekja hinar tíðu steypuskemmdir að verulegu leyti til þeirra. Einn daginn getur verið sunnanátt og hláka með svo hvassri rigningu, að það rignir upp í móti, eins og kallað er. Veggir húsanna rennblotna.
Elgo-múrkerfið hefur sannað gildi sitt REYNSLAN hefur sýnt að steinsteypan ein og sér þolir illa íslenzka veðráttu. Veðraskipti eru hér bæði snögg og tíð á veturna og sennilega má rekja hinar tíðu steypuskemmdir að verulegu leyti til þeirra. Einn daginn getur verið sunnanátt og hláka með svo hvassri rigningu, að það rignir upp í móti, eins og kallað er. Veggir húsanna rennblotna. Næsta dag er kannski komin hvöss norðanátt með hörkufrosti. Byggingamenn hafa því í vaxandi mæli farið að verja húsin betur að utan og tekið í notkun viðgerðarefni gegn steypuskemmdum, sem henta íslenzkum aðstæðum, en mikið er í húfi. Eitt þeirra fyrirtækja, sem haslað hefur sér völl á þessum vettvangi, er Steinprýði ehf. að Stangarhyl 7 í Reykjavík, en nú eru liðin um 25 ár frá stofnun þess. Á þessum aldarfjórðungi hefur Steinprýði verið eitt helzta fyrirtækið hér á landi í framleiðslu á sementsvörum fyrir byggingariðnaðinn með aðal áherzlu á á múrhúðunar- og viðgerðarefni fyrir steinsteypu. Nú framleiðir Steinprýði 29 tegundir af viðgerðar og frágangsefnum fyrir nýjar og gamlar byggingar úr steini og steinsteypu. Þessi efni hafa verið þróuð fyrir íslenzkar aðstæður og þeim fer stöðugt fjölgandi.

Ein helzta framleiðsluvara Steinprýði er svonefnt Elgo-múreinangrunarkerfi, sem byggt er upp á sementsbundnum múrefnum, glertrefjaneti og fleiri efnum. Húsin eru klædd með þessu múrkerfi, en síðan er kápan yfirborðsmeðhöndluð með t. d. málningu, steiningu, hraunun með lituðum múr eða á annan hefðbundinn hátt. Handbók um Elgokerfið Starfsmenn Steinprýði hafa unnið árum saman að þróun þessarar múrklæðningar fyrir ný og eldri hús og hafði Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins eftirlit með uppsetningu á þessu kerfi á nokkrum húsanna, á meðan það var í þróun. Nú hefur Steinprýði gefið út sérstaka handbók um Elgo-múrkerfið og aðferðirnar við notkun þess. Aðalhöfundur hennar er Egill Már Guðmundsson arkitekt. Í bókinni er að finna verklýsingar og deiliteikningar, sem lýsa vel framkvæmd og uppsetningu á Elgo- múrkerfinu. Bókin er byggð á meira en fimm ára reynslu af Elgo- múrkerfinu og er mikið af þeim upplýsingum, sem í henni er að finna, byggt á þeirri reynslu fremur en skýlausum tölum," segir Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Steinprýði. Bókin hefst á grundvallaratriðum varðandi Elgo-múrkerfi og síðan taka við hönnunaratriði, byggingarlýsingar, skilgreiningar og byggingaraðferðir. Bókin er ætluð eigendum bygginga, arkitektum, verktökum og öðrum, sem hanna, setja upp og nota Elgo-múrkerfi. Undirstöðuþekkingar er krafizt í byggingartækni, en ekki er gengið út frá reynslu af Elgo-múrkerfum. "Elgo-múrkerfið er varnarklæðning, segir Elías. "Ólíkt steinsteypu og tvöföldum hlöðnum veggjum, eins og t. d. múrsteins-holveggjum, þá treystir þetta kerfi eingöngu á ytra borð sitt til að verja vegginn fyrir vatni og veðrum.

Elgo-múrkerfið hefur ýmsa hagkvæma kosti. Það er t. d. óþarfi að rýma bygginguna, þegar Elgomúrkerfi er sett á hana, en öll vinnan fer fram utanhúss. Viðgerðir eru auðveldar og þær má vinna með handverkfærum og hægt er að gera við litla fleti, án þess að hrófla við aðliggjandi svæðum, á meðan verkið er unnið og nota má margar aðferðir við að setja það á." Verð á Elgo-múrkerfinu er mismunandi eftir gerðum og eftir aðstæðum hverju sinni. Efni með málningu á "plastkubbahús" er frá 2.298 kr. á fermetra og efni án einangrunar á múr og steinsteypu með málningu er frá kr. 505 á fermetra.

Hentar á margs konar hús Kerfið hentar vel á margs konar byggingar eins og lágar og nokkurra hæða verzlunar- og skrifstofubyggingar, hótel, smásöluverzlanir o. fl. Þá má nefna íbúðabyggingar þar á meðal einbýlis- og fjölbýlishús. Sérbyggð hús eru sérstaklega hentug fyrir Elgo-múrkerfi. Jafnframt hentar kerfið vel á gamlar byggingar, einkum þegar óskað er eftir snyrtilegu, nýtízkulegu útiliti, enda sé undirlagið þess eðlis, að unnt sé að leggja beint á það, þegar halda á óbreyttu útliti. Það er ekki þörf á að senda inn teikningar til byggingafulltrúa og byggingin getur verið í notkun, á meðan á viðgerðinni stendur. Enn má nefna léttar iðnaðarbyggingar, vöruhús, litlar verksmiðjur, sérhæfðar byggingar, eins og vinnslustöðvar. "Elgo-Múrkerfið er venjulega sett upp á staðnum," sagði Elías Guðmundsson að lokum. "En það er einnig hægt að framleiða það sem plötur í verksmiðju og setja þær síðan á veggfleti úr steinsteypu, múrhleðslur og plötur. Ekki skiptir máli, hvort um nýjar eða eldri byggingar er að ræða." Morgunblaðið/Ásdís

HÚS Mjólkursamsölunnar við Bitruháls. Stórbygging, sem er klædd Elgo-múrkerfi. ÍBÚÐARHÚS á Álftanesi, sem klætt er með Elgo-múrkerfi. Það hentar jafnt fyrir íbúðarhús sem atvinnuhúsnæði. ÍBÚÐIR Öryrkjabandalagsins við Sléttuveg er klæddar með Thoro-efnum frá Steinprýði.