HÚS við Selvogsgrunn hafa ávallt verið mjög eftirsótt, enda er gatan ein af glæsilegri götum borgarinnar. Hjá Eignamiðluninni er nú til sölu stórt og sérlega vandað einbýlishús við Selvogsgrunn 27. Þetta er steinhús, byggt 1957. Það er á tveimur hæðum auk kjallara og alls 364 ferm. að stærð fyrir utan bílskúr. Ásett verð er 24,9 millj. kr.
Glæsilegt hús við Selvogsgrunn HÚS við Selvogsgrunn hafa ávallt verið mjög eftirsótt, enda er gatan ein af glæsilegri götum borgarinnar. Hjá Eignamiðluninni er nú til sölu stórt og sérlega vandað einbýlishús við Selvogsgrunn 27. Þetta er steinhús, byggt 1957. Það er á tveimur hæðum auk kjallara og alls 364 ferm. að stærð fyrir utan bílskúr. Ásett verð er 24,9 millj. kr.

"Ég tel þetta eðlilegt verð fyrir jafn góða eign, en þetta hús er eitt það glæsilegasta, sem ég hef séð lengi og það koma ekki oft slíkar eignir á markaðinn," sagði Sverrir Kristinsson hjá Eignamiðluninni. "Húsið er teiknað af Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt og er það verk frábærlega vel að hendi leyst. Innréttingar eru sérlega vandaðar og greinilegt, að ekkert hefur verið til sparað í upphafi, þegar húsið var byggt. Jafnframt hefur húsinu verið haldið afar vel við." Húsið skiptist þannig, að á 1. hæð eru tvær stofur, borðstofa, eldhús, búr, hol, snyrting, forstofa og bakforstofa. Á 2. hæð eru fimm herbergi, fataherbergi, tvö baðherbergi og hol. Í kjallara eru stofa, eldhús, herbergi, hol, geymsla, sem nú er nýtt sem herbergi, kyndiklefi, þrjár geymslur, þvottahús og forstofa. Bílskúr fylgir húsinu. "Það er mikið lagt í þetta hús," sagði Sverrir Kristinsson. "Þannig er gólfið allt lagt marmara í forstofunni á 1. hæð. Stofurnar eru samliggjandi með fallegum arni og teppalagðar, en borðstofan er parketlögð. Eldhúsið er með gegnheilli innréttingu úr aski. Upp á efri hæðina er gengið um teppalagðan stiga, en þar tekur við rúmgott, parketlagt hol. Út af því eru mjög stórar svalir til suðurs. Herbergin á þessari hæð eru fimm og öll teppalögð, en út af einu þeirra eru svalir.

Kjallarinn er það rúmgóður, að þar mætti auðveldlega innrétta sér 2-3 herb. íbúð með sérinngangi. Garðurinn er gróinn og mjög fallegur." HÚSIÐ stendur við Selvogsgrunn 27. Það er steinhús á tveimur hæðum auk kjallara og alls 364 ferm. að stærð fyrir utan bílskúr. Ásett verð er 24,9 millj. kr., en húsið er til sölu hjá Eignamiðluninni.