Leiftur frá Ólafsfirði gerði sér lítið fyrir og sigraði OB frá Danmörku í Inter-Toto keppninni í knattspyrnu á laugardaginn. Leikið var í Óðinsvéum og fóru leikar þannig að Ólafsfirðingar gerðu fjögur mörk en heimamenn þrjú. Kristinn Björnsson, þjálfari Leifturs, var að vonum ánægður með leikinn og ferðina til Danmerkur.
KNATTSPYRNA

Komum sjálfum okkur

skemmtilega á óvart Leiftur frá Ólafsfirði gerði sér lítið fyrir og sigraði OB frá Danmörku í Inter-Toto keppninni í knattspyrnu á laugardaginn. Leikið var í Óðinsvéum og fóru leikar þannig að Ólafsfirðingar gerðu fjögur mörk en heimamenn þrjú.

Kristinn Björnsson, þjálfari Leifturs, var að vonum ánægður með leikinn og ferðina til Danmerkur. "Ég var satt best að segja ekkert alltof bjartsýnn fyrir leikinn, en við settum okkur það markmið fyrir leikinn að leggja okkur alla fram og reyna að ógna marki þeirra eins og kostur væri," sagði Kristinn í samtali við Morgunblaðið. "Ég held við höfum komið Dönum dálítið á óvart. Þeir byrjuðu rólega, virtust vera að átta sig á við hverja þeir væru að leika, en fljótlega fengum við á okkur hálfgert klaufamark. Míló [Slobodan Milisic] ætlaði að hreinsa frá marki, en boltinn lenti í Dana og yfir Cardaklija.

Við markið jókst hraðinn í leiknum og við náðum að jafna með marki frá Lazorik, hann skallaði í markið eftir fyrirgjöf af kantinum. Baldur Bragason braust síðan í gegnum vörn þeirra og bætti öðru marki við fyrir hlé."

Kristinn sagði að menn hefðu verið ánægðir í búningsklefanum í leikhléinu enda full ástæða til. "Við vorum mjög sáttir við frammistöðu okkar fyrir hlé og staðan breyttist ekkert fyrr en uppúr miðjum síðari hálfleik. Ég var orðinn nokkuð bjartsýnn um að þetta gengi upp hjá okkur þegar þeir jafna með skallamarki. Markið hafði þau áhrif á okkur að við sóttum meira en áður og gerðum tvö mörk með stuttu millibili, fyrst Ragnar Gíslason með þrumuskoti eftir að hann fékk boltann fyrir utan teig og síðan Sindri Bjarnason, en hann náði frákasti eftir að markvörðurinn hafði misst boltann eftir fast skot frá Herði Má Magnússyni." Þess má geta að Ragnar hélt uppá þrítugsafmæli sitt á laugardaginn.

Verulegt líf færðist nú í leikinn að sögn Kristins og Danir áttu hættuleg færi, skutu meðal annars í slána og stöngina. "Það teygðist nokkuð á okkar liði og Danir minnkuðu muninn og við það náðum við aftur áttum og héldum út. Ég er mjög ánægður með leikinn og við komum okkur skemmtilega á óvart. Við höfum leikið nokkra þokkalega leiki hér heima, vörnin verið sterk en vantað aðeins uppá að sóknin væri nógu beitt. Þarna gerum við fjögur mörk og það er góðs viti. Strákarnir sáu þarna hvað þeir geta og nú þarf að fylgja þessu eftir," sagði Kristinn.

Auðun Helgason meiddist eftir tíu mínútna leik og Hörður Már Magnússon kom inná í hans stað en aðrir í vörninni voru Milisic, Andri Marteinsson og Daði Dervic. Á miðjunni voru Ragnar Gíslason, Júlíus Tryggvason og Gunnar Már Másson, sem skipti við Sindra snemma í síðari hálfleik. Á vinstri vængnum var Baldur og hinum megin Þorvaldur Makan Sigbjörnsson en Pétur Björn Jónsson kom inná fyrir hann í síðari hálfleiknum. Lazorik var frammi. Davíð Garðarsson var meiddur og Arnar Grétarsson fór ekki með liðinu út, "það er annað í gangi hjá honum þessa dagana", sagði Kristinn.

Morgunblaðið/Ingi Rósinberg Jónsson BALDUR Bragason skoraði annað mark Leifturs, eftir að hann komst einn inn fyrir vörn OB.