Opið alla daga frá kl. 12­18. Lokað mánudaga. Til 6. júlí. Aðgangur 200 krónur. MYNDLISTARKONAN Ása Ólafsdóttir er snúinn aftur úr Svíaríki, þar sem hún hefur endurtekið verið í víking, nú sem gestur á Listafárinu svonefnda í Gautaborg.

Forhlið/innra borð

MYNDLIST

Listasafn Kópavogs

BLÖNDUÐ TÆKNI

ÁSA ÓLAFSDÓTTIR

Opið alla daga frá kl. 12­18. Lokað mánudaga. Til 6. júlí. Aðgangur 200 krónur.

MYNDLISTARKONAN Ása Ólafsdóttir er snúinn aftur úr Svíaríki, þar sem hún hefur endurtekið verið í víking, nú sem gestur á Listafárinu svonefnda í Gautaborg. Alltaf er eitthvað sérstakt og róttækt við athafnir Ásu og þannig er nú vísað til yfirgefinna húsa, sem listamenn komu auga á og hagnýttu, hlutuðust svo til um að þau yrðu endurnýjuð. Fyrrum farsóttarhús og hæli skipti um hlutverk og varð að sýningarsölum og vinnustofum. Þetta tekið fram hér vegna þess að vinnubrögð Ásu eru ekki ósvipuð þeim er rata frá slíkum listamannanýlendum og grasrótarhreyfingum. Kemur því ekki á óvart, að hún sækir hugmyndir sínar til fornrar íslenzkrar myndlistar á miðöldum, í þessu tilviki Jónsbókarhandrits. Telur skrifara handritanna elztu myndlistarmenn okkar, sem þó má draga í efa, því eitthvað hlýtur að hafa verið til af þeim á sögu- og þjóðveldisöld þótt fátt sé um sýnilegar menjar. Hins vegar er alveg rétt að kalligrafían var að vissu marki myndlist, í sumum tilvikum ótvíræð myndlist.

­ Það sem við sjáum, og sjáum í raun ekki að hluta, eru myndir rýmisdýptar, þar sem listakonan notar tvo blindramma sem festir eru saman, innra og ytra borð. Ytra borðið blasir að sjálfsögðu við, en skorið er gat á það svo sér í málað uppstækkað letur á innra borði en aðeins að takmörkuðu leyti, þannig að hinn hlutinn er hulinn heimur sem opið er að spá í. Í útliti minna verkin stundum ekki svo lítið á helgimyndir, vinnsluferlið er að meginhluta til blönduð tækni, en á stundum krosssaumur, í einu tilviki myndaröð unnin af handverkskonum á Sléttuvegi 11­13, sem færðu borginni verkin til eignarhalds.

Í verkunum kemur glögglega fram sú ríka tilhneiging til rýmislegrar dýptar sem kom svo vel fram á sýningu í Norræna húsinu fyrir tveimur árum, en nú er skreytikennd áferð með trúarlegri skírskotun hluti heildarinnar og er maður ekki alltaf sáttur við þá blöndu. Og hvað sem öllum framsæknum tilraunum og nýjungum líður höfðaði krosssaumsverkið "Letur" (7) mest til rýnisins fyrir ferskleika og upprunalega sköpunargleði...

Litaflæði

MÁLVERK

SIGURBJÖRN JÓNSSONMálarinn Sigurbjörn Jónsson er helst þekktur fyrir óformlegar litasinfóníur, sem á hlutlægum grunni skara heim tónlistarinnar. Yfirmáta umbúðalausar og fjörlega málaðar litaheildir sem afar framandi undirtónn einkennir. Í upphafi voru myndverk minni stærða mjög áberandi hjá listamanninum, en á síðustu árum mjög stórir dúkar með miklu og nær óheftu flæði afmarkaðra litaheilda. Í báðum tilvikum kennir maður sterkra áhrifa frá amerísku málverki, jafnt í hlutlægri sem óhlutlægri gerð, en Sigurbjörn virðist þó hafa fjarlægst þau ákveðnu hlutlægu myndefni sem voru svo áberandi framan af. Einkennandi fyrir vinnubrögðin er hve litirnir liggja laust á yfirborðinu og að gerandinn vinnur hratt og létt, líkt og sársaukinn og átökin við dýpri lífæðar litarins séu honum framandi og helzt gildi að ná fram hrifsterku samræmi. Þetta virðast þannig fyrst og fremst vera vinnustofumálverk máluð samkvæmt fyrirfram gefnum stefnumörkum, sem leyfa síður skapandi kenndum að fá útrás og alls ekki þeim sem einungis vakna við yfirlegur, átök og vægðarlausa krufningu grunnatriðanna. Maður getur helzt nefnt þetta stemmur augnabliksins og hraða atburðarás á myndfleti og vissulega er hér gengið afar hraustlega til verks. Vinnsluferlið á auðvitað rétt á sér, enda notað af mörgum, en maður saknar ósjálfrátt greinilegra jarðtengdra hrifa frá umhverfinu, vel að merkja íslenzku umhverfi, ramman safaríkan undirtón eins og sér stað í litasinfóníum Svavars Guðnasonar. Það er svo helst í dúkum eins og "Ógn" (9) og "Draumur Hafmeyjunar" (11) að Sigurbjörn þrengir sér inn í sjálf grunnmál myndflatarins, og litrófsins um leið.

Fullkomleiki

INNSETNING

IRIS ELVA

FRIÐRIKSDÓTTIRSjaldan hefur maður orðið vitni af jafn algjörri innsetningu og við blasir í kjallararými safnsins, þannig að maður freistast til að nefna hana samgróning eða fullkomleika.

Listakonan Iris Elva nefnir þetta list hugans, og segist líta á myndlist sína sem röð af tilraunum til að draga fram kvenlegt næmi í efni sem flestir álíta "dauð" ­ efni eins og pólýester og steypu. Þetta hef ég gert með því að tefla saman andstæðum ­ hita kulda, mýkt og hörku, líf og dauða ... Í efnið set ég tilvísun um kvenlega nálægð. Stundum örlar aðeins á nálægðinni, en einmitt þannig vil ég að hún yfirgnæfi andstæðu sína. Ég vil láta í mér heyrast með því að hvísla. Öll sköpun er hugmynd. Ef sköpun á sér ekki rætur í ígrundaðri hugmynd er hún eins og rótlaust tré, ­ eingöngu á yfirborðinu og hlýtur að falla. Þetta er allt saman gott og gilt og auðvelt að samsinna listakonunni eftir skoðun sýningarinnar. Hún virkjar þannig þenslumátt þagnarinnar til hins ýtrasta, myndverkin þrengja sér ekki á vit skoðandans, heldur gera vart við sig hægt og hljótt. Rýmið er ein heild og fátt annað sem vekur athygli skoðandans en þessi einfalda ákveðna og markaða heild. Hvernig einstök verk njóta sín svo til að mynda á samsýningu er ekki gott að segja, undantekning er þó röð átta láréttra ferhyrndra eininga, þar af eru fjórar með endurtekinni fuglsímynd. Hér á sér stað afar verðmæt litræn þróun, og þetta er nú einmitt það sem maður nefnir gjarnan að virkja innri lífæðir litarins, getur jafnt gerzt í veikum sem sterkum litaheildum. Og rétt er það hjá Irisi Elvu, að myndirnar afhjúpi kvenlegar kenndir gagnvart umhverfinu, og mikið gott til þess að vita að enn eru til konur er afneita ekki þeim sérstöku og dýrmætu eðliskostum.

Bragi Ásgeirsson

ÁSA Ólafsdóttir

SIGURBJÖRN Jónsson

IRIS Elva Friðriksdóttir