DANSKI Rauði krossinn hefur nú í fyrsta skipti rofið hlutleysi sitt samkvæmt frétt Jyllands-posten. Þetta var gert með sögulegri ákvörðun um að styðja alla þá sem krefjast þess að stríðsglæpamenn í Bosníu verði dregnir fyrir rétt.

Rauði krossinn

rýfur hlutleysið

Haag. Reuter

DANSKI Rauði krossinn hefur nú í fyrsta skipti rofið hlutleysi sitt samkvæmt frétt Jyllands-posten . Þetta var gert með sögulegri ákvörðun um að styðja alla þá sem krefjast þess að stríðsglæpamenn í Bosníu verði dregnir fyrir rétt.

Rauði krossinn hefur alltaf lagt ríka áherslu á hlutleysi sitt. Hann hefur einblínt á hjálparstarf án íhlutunar í stjórnmál eða önnur deilumál og því kemur ný afstaða stofnunarinnar í Danmörku á óvart.

Samkvæmt Jyllands-Posten var þessi sögulega ákvörðun tekin vegna þess hversu illa uppbyggingarstarf hefur gengið í Bosníu. Jörgen Paulsen, starfsmaður danska Rauða krossins, sagði í viðtali við blaðið að vonleysið í landinu sé svo mikið að það jaðri við örvæntingu. Þá sagði hann að stofnunin teldi það einu leiðina fram á við og í átt til varanlegs friðar að draga stríðsglæpamenn fyrir dóm.

Reynt að koma lögum yfir stríðsglæpamenn

Samkvæmt Dayton-friðarsamkomulaginu eiga stríðsglæpamenn að koma fyrir sérstakan stríðsglæpadómstól í Haag. Þetta hefur hins vegar ekki náð fram að ganga þar sem fylkingar í Bosníu hafa neitað að framselja menn sína. Einungis níu af 76 mönnum sem eru á lista yfir bosníska stríðsglæpamenn eru nú í haldi. Það hefur flækt málin enn frekar að Vesturlönd hafa ekki komist að samkomulagi um það hvernig þeim beri að snúa sér í málinu.

Sama dag og talsmaður danska Rauða krossins gaf út yfirlýsingu sína gaf hins vegar Louise Arbour, saksóknari við stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag, út þá yfirlýsingu að hún muni í framtíðinni láta gera ráðstafanir til að handtaka stríðsglæpamenn frá lýðveldum fyrrverandi Júgóslavíu án viðvörunar.

Yfirlýsing hennar kom í kjölfar vel heppnaðrar aðgerðar þar sem Slavko Dokmanovic var handtekinn vegna gruns um þátttöku í morðum á 260 Króötum í nóvember árið 1991. Skrifstofa Arbour hafði áður gefið út ákæru á hendur þremur Serbum, sem voru háttsettir innan júgóslavneska hersins, fyrir að fyrirskipa morðin.

Júgóslavneska ríkisstjórnin mótmælti handtöku Dokmanovics harðlega og sagði hana geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir friðarferlið. Arbour sagði hins vegar ekkert óeðlilegt við að handtaka mann, sem gefin hafi verið út ákæra á, án viðvörunar. Þannig vinni lögregla um allan heim.