ÞRÓTTARAR úr Reykjavík sitja enn í toppsæti 1. deildar karla í knattspyrnu eftir góðan 3:1 sigur á Dalvíkingum í Laugardalnum í sunnudag. Lengi vel áttu Þróttarar þó í miklum vandræðum með að brjóta vörn gestanna á bak aftur og voru það Dalvíkingar sem fengu kjörið tækifæri til þess að komast yfir eftir 17 mínútna leik þegar Grétar Steindórsson átti þrumuskot í þverslá.
Þróttarar gefa ekkert eftir

ÞRÓTTARAR úr Reykjavík sitja enn í toppsæti 1. deildar karla í knattspyrnu eftir góðan 3:1 sigur á Dalvíkingum í Laugardalnum í sunnudag. Lengi vel áttu Þróttarar þó í miklum vandræðum með að brjóta vörn gestanna á bak aftur og voru það Dalvíkingar sem fengu kjörið tækifæri til þess að komast yfir eftir 17 mínútna leik þegar Grétar Steindórsson átti þrumuskot í þverslá.

Dalvíkingar þurftu hins vegar ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu og kom það eftir vel útfærða skyndisókn. Gestirnir unnu knöttinn á eigin vallarhelmingi, brunuðu fram völlinn og eftir glæsilega stungusendingu Jóns Örvars Eiríkssonar inn fyrir vörn heimamanna átti Grétar ekki í neinum erfiðleikum með að leggja knöttinn örugglega framhjá Axel Gomez í marki Þróttar.

Í síðari hálfleik voru Þróttarar öflugri á miðjunni en áttu í vandræðum með að komast framhjá sterkri vörn Dalvíkinga ­ og var það ekki fyrr en á 71. mínútu að Vignir Þór Sverrisson náði að jafna metin fyrir heimamenn með laglegu skoti eftir góðan undirbúning Sigurðar Hallvarðssonar.

Ísinn var þar með brotinn og Þróttarar voru fljótir að ganga á lagið. Vignir bætti öðru markinu við sjö mínútum síðar og átta mínútum fyrir leikslok gulltryggði Einar Örn Birgisson sigur heimamanna með marki úr vítaspyrnu.

Mikilvægur sigur Víkinga Fylkismenn sóttu á sunnudagskvöld Víkinga heim í Fossvoginn og biðu Árbæingar 1:0 ósigur. Fylkismenn voru öllu ákveðnari í fyrri hálfleik og voru sóknarlotur þeirra hættulegri en heimamanna, en vörn Víkinga var þétt fyrir og áttu Fylkismenn í erfiðleikum með að brjóta hana á bak aftur.

Í síðari hálfleik færðust Víkingar svo allir í aukana og fengu nokkur ágæt marktækifæri, en Fylkismenn fengu einnig sín færi og var það þeim því áreiðanlega reiðarslag þegar heimamenn náðu að taka forystuna í leiknum með marki frá Þrándi Sigurðssyni, fyrirliða, á 71. mínútu.

Þetta eina mark dugði Víkingum til sigurs og er staða Fylkis í deildinni nú orðin heldur slæm. Atli Eðvaldsson, þjálfari Árbæinga, er þó ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát og hefur fulla trú á að liðið nái að hrista af sér slenið. "Strákarnir eru að berjast vel og gera marga góða hluti. Ég er enn bjartsýnn og hef trú á að við náum að rífa okkur upp úr lægðinni," sagði Atli eftir leikinn.

Sigurgeir

Guðlaugsson

skrifar