Hólmfríður Ólafsdóttir Kragh Hólmfríður Ólafsdóttir Kragh lést á Vífilsstaðaspítala sunnudaginn 22. júní eftir löng og erfið veikindi. Kynni okkar hófust fyrir tæpum 30 árum er ég leigði íbúð í sama húsi og þau hjón, hún og Hans heitinn Kragh, bjuggu í ásamt Kristjáni, bróður Fríðu. Ég var ósköp feimin við þau í fyrstu, en síðan þróaðist það þannig að ég varð smám saman kostgangari hjá þeim hjónum. Alltaf um kvöldmatarleytið kom Hans niður til mín, bankaði og kallaði "matur", eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Þau hafa ályktað sem svo að réttast væri að sjá til þess að þessi pía borðaði ætan bita. Þetta var þeim svo eiginlegt að ég tók vart eftir fyrr en löngu síðar. Þannig vill almættið trúlega að við vinnum verkin okkar.

Mér var ekki í kot vísað því Fríða var einkar góður kokkur og hafði gaman af matargerð. Þykir mér ég aldrei hafa goldið þeim fósturlaunin sem skyldi. Síðan liðu tímar og ég eignaðist börnin mín tvö og fylgdist Fríða grannt með þeim, enda mátu þau hana mikils. Fríða var ákaflega hlý og góð manneskja, jákvæð, lagði ekki illt orð til annarra og tróð ekki skóna niður af samferðafólki sínu. Hún og umhverfi hennar var ætíð hið snyrtilegasta. Hún naut þess að hlýða á tónlist og lagði á yngri árum stund á píanónám. Kristjáni bróður sínum var hún alltaf til mikils stuðnings en hann fæddist mjög heyrnarskertur. Hann hefur um áratugi búið undir sama þaki og Fríða.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þeim Fríðu og Hans Kragh og eftirlifandi bróður hennar, Kristjáni, sem nú þarfnast styrktar.

Far þú í friði og guð blessi þig og þína, Fríða mín.

Helga Hrönn Þórhallsdóttir.