Kristín Oktavía Ingimundardóttir Fyrir rétt rúmu ári kvöddum við afa okkar, Ástvald Helgason, hinstu kveðju á sólbjörtum degi á Breiðabólstað á Fljótshlíð. Sólin skein einnig þann dag er þú kvaddir, amma mín. Bæði máttu þau glíma við ósigrandi andstæðinga í lok ævinnar, sjúkdóma sem grípa fram fyrir hendur á þeim sem þá hlýtur og orkan og krafturinn smám saman þverr. Amma kvaddi eiginmann sinn bein í baki og tiguleg eins og hún átti vanda til þrátt fyrir að veikindi hennar væru farin að segja verulega til sín. Ég veit að ekkert þótti afa verra en þurfa að yfirgefa þig þegar þú þurftir mest á honum að halda. Þeim stutta tíma, fyrr en skip mitt fer, sem flytur mig á brott í hinsta sinni, ég vildi gjarna verja í návist þinni og velta þungri byrði af hjarta mér.

Við börðumst lengi dags við óvin einn, og oftast litlum sigri hrósa máttum, hann beið við fótmál hvert í öllum áttum og andlit hans ei þekkti maður neinn.

Að sigra þennan óvin eða deyja var okkur báðum tveim á herðar lagt. Og þér, sem eftir verður, vil ég segja:

Eitt vopn er til, eitt vopn, þó enginn þekki, og vegna þess skal leyndarmálið sagt.

Nei, skip mitt býst á brott. Ég get það ekki. (Steinn Steinarr.) Hún amma lifði lífinu lifandi. Annað verður ekki sagt. Þrátt fyrir að hún hafi verið komin á áttræðisaldur þegar hún veiktist var hún enn í blóma lífsins. Hún var óstöðvandi lífsglöð. Atorku hennar voru engin takmörk sett enda ekki vanþörf á við uppeldi sjö barna. Öll nutu þau þess að amma var einstök saumakona og voru ófáir kjólarnir, jakkarnir og buxurnar sem hún útbjó á þau. Dreg ég í efa að slík natni sé algeng sjón. Amma hafði atvinnu af saumaskap lengi vel og kenndi m.a. handavinnu á Hvolsvelli. Á heimili hennar mátti einnig sjá ótal myndir, púða og aðra gripi sem hún hafði útbúið. Hún var órög að leita sér nýrrar þekkingar hvort sem var á sviði hannyrða eða annars. Lampaskerma lærði hún að útbúa eins og listaverk og prýða þeir mörg heimili barna og barnabarna. Hver sem slíkan grip hefur hreppt telur sig lukkunnar pamfíl. Þegar þau afi voru flutt til Reykjavíkur sótti hún námskeið í ensku og spænsku í kvöldskóla, framyfir sjötugt. Þessa þekkingu hafði hún gaman af að nýta sér í fjölmörgum ferðum þeirra erlendis. Einatt þegar heim kom úr slíkum ferðum hafði hún í fórum sínum gjafir til barnabarna sinna en þau eru alls 20. Amma var fyrirmyndar húsmóðir í smáu sem stóru. Hún útbjó glæsilegar veislur hvort sem var með tertum eða mat og oft stóð hún fyrir fjölskylduboðum þar sem borðið ætlaði að svigna af kræsingum. Í veikindum sínum gætti hún þess að valda börnum sínum og barnabörnum ekki áhyggjum. Hún reyndi að gantast og brosa eins lengi og henni var unnt. Hún kvartaði nánast aldrei yfir verkjum eða að hún ætti bágt að vera svona veik. Hún kvartaði aðeins yfir því að geta ekki verið við fermingar og útskriftir barnabarna sinna þetta árið. Hún vildi vera úti á meðal fólks, brosa og kætast. Sofið er ástaraugað þitt, sem aldrei brást að mætti mínu. Mest hef ég dáðst að brosi þínu. Andi þinn sást þar allt með sitt. (Jónas Hallgrímsson.) Hvíl í friði, amma mín.

Sigrún.