Eyvör Ingibjörg Þorsteinsdóttir Hinn 21. júní sl. andaðist Eyvör Ingibjörg Þorsteinsdóttir á Hrafnistu í Hafnarfirði á 90. aldursári. Með henni er gengin glæsileg og gáfuð mannkostakona. Fallegt svipmót hennar og tignarleg framganga bar vott um sterkan vilja og festu í athöfn og hugsun. Hún var heil í afstöðu sinni og hafði til að bera umhyggju fyrir velferð sinna nánustu, er hún helgaði líf sitt. Hún var dugmikil og traust atorkukona, lét sér aldrei verk úr hendi falla, þar til hún skyndilega varð fyrir heilsubresti 18. júní á sl. ári. Veikindum mætti hún með einstakri hugarró og æðruleysi, umvafin ástúð og umönnun barna, tengdabarna og barnabarna.

Eiginmaður hennar, Oddur Jónsson, framkvæmdastjóri Mjólkurfélags Reykjavíkur lést hinn 7. nóvember 1975 á 84. aldursári. Oddur lét af störfum 1965 fyrir aldurs sakir þá 74 ára að aldri. Áfram gegndi hann þó ýmsum störfum. Var meðal annars um árabil endurskoðandi reikninga Vinnuveitendasambands Íslands. Oddur var fæddur á Álftanesi á Mýrum, foreldrar hans voru hjónin, Jón Oddsson óðalsbóndi þar og Marta María Níelsdóttir frá Grímstöðum á Mýrum. Föður sinn missti Oddur 18. janúar 1895 og var Oddur næstyngstur í sjö barna systkinahópi, en seinni maður Mörtu Maríu var Haraldur Bjarnason, bóndi á Álftanesi, og eignuðust þau tvö börn. Oddur fór á þriðja ári til Þuríðar móðursystur sinnar og eiginmanns hennar, Páls Halldórssonar, skólastjóra Stýrimannaskólans, og ólst að verulegu leyti upp hjá þeim, en dvaldi um sumur hjá móður sinni á Álftanesi. Oddur var glæsilegur maður og hafði á sér svipmót virðugleika og hógværðar. Hið innra svaraði til hins ytra. Höfðingsskapur var honum runninn í merg og bein. Hann var farsæll í störfum sínum og stjórn umfangsmikilla viðskipta á tímum mikilla framfara og breytinga í íslensku þjóðlífi. Hann var fastur fyrir og ávann sér hvarvetna traust. Orð hans stóðu. Að Oddi stóðu traustar ættir merkra gáfu- og athafnamanna.

Fundum Eyvarar og Odds bar fyrst saman um sumarsólstöður, 21. júní, er þau heitbundust á björtum sumardegi á aðdraganda Jónsmessu. Sumarhátíð þessi var því ætíð sveipuð rómantískum ljóma hjá þessum glæsilegu hjónum og er ekki að efa, að endurfundir þeirra nú á Jónsmessu hafa verið ljúfir.

Heimili Eyvarar og Odds var hlýlegt og glæsilegt menningarheimili. Bar það glögg merki smekkvísi og listfengi húsráðenda. Þar ríkti frábær gestrisni og ljúfmennska. Innan fjölskyldunnar var ástúðleg samheldni og engin hátíð þar á bæ var með öðrum hætti en að börnin væru þar þátttakendur.

Æskuheimili Eyvarar var í Garðhúsum við Bakkastíg í Reykjavík. Að henni stóðu listfengar og dugmiklar ættir, þar sem tónlistin skipaði öndvegi. Móðir frú Eyvarar varð ung ekkja. Faðir hennar dó úr spönsku veikinni 1918, er hann vann að hjálparstörfum í Reykjavík á fátækum heimilum er illa höfðu orðið úti af völdum hennar. Þorsteinn skipstjóri, faðir Eyvarar, hafði m.a. starfað sem leiðsögumaður á Íslands Falk og var einn helstu hvatamanna um stofnun slysavarnarfélaga hér á landi. Með óhemjudugnaði stóð Kristín móðir Eyvarar eftir með sinn stóra barnahóp. Kom hún öllum börnum sínum til mennta og jafnhliða heimilishaldi stóð hún fyrir ýmsum atvinnurekstri s.s. fiskverkun á lóðinni við Garðhús. Sögu Kristínar svipar þannig að mörgu leyti til sögu móður hennar, Kristrúnar á Bjargi á Akranesi, sem er þjóðkunn.

Eftir fráfall Odds Jónssonar bjó Eyvör áfram á heimili sínu þar til hún veiktist skyndilega 18. júní 1996. Gekk hún óskipt og af áhuga til allra verka. Síðustu árin stundaði hún m.a. saumaskap á heimili sínu. Á yngri árum starfaði Eyvör sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn um Ísland og hafði næmt auga fyrir náttúrufegurð landsins og kunni vel að meta ljóðlínur Klettafjallaskáldsins, Stephans G. Stephanssonar, úr Íslendingadagsræðu hans, sem henni þótti fegurst vísna, þar segir;

Yfir heim eða himin

hvort sem hugar þín önd

skreyta fossar og fjallshlíð

öll þín framtíðar lönd!

Fjarst í eilífðar útsæ

vakir eylendan þín;

nóttlaus voraldar veröld

þar sem víðsýnið skín.

Við Lúlú þökkum frú Eyvöru að leiðarlokum frábærlega góð kynni og vináttu í rúmlega fjóra áratugi. Börnum hennar, tengdabörnum og fjölskyldum þeirra vottum við innilega samúð.

Blessuð sé minning frú Eyvarar Ingibjargar Þorsteinsdóttur.

Barði Friðriksson.