Kristín Ísfeld Nú ert þú búin að kveðja okkur, elsku amma mín. Fréttin um andlát þitt var mér þungbær þótt ég vissi sem var að heilsu þinni hafði hrakað mikið á liðnum vikum. Ég veit að nú ert þú búin að finna frið og þannig verður það ávallt.

Það er svo margs að minnast, elsku amma. Góðu stundirnar voru svo margar. Frá því að ég var krakki man ég svo vel eftir gleðinni og eftirvæntingunni þegar amma var væntanleg frá Akureyri í heimsókn til okkar í Hrútafjörðinn. Til okkar var nefnilega að koma kona sem vildi allt fyrir okkur gera. Hún taldi ekki eftir sér að labba með okkur út um tún og móa til að sjá allt það sem við höfðum að sýna henni. Hún var alltaf til í að taka þátt í öllu sem við báðum hana um og alltaf fann hún eitthvað til að gera til að stytta okkur stundir.

Heimsóknir okkar til Akureyrar eru mér líka mjög minnisstæðar. Þá var okkur tekið opnum örmum og boðið upp á það besta og þær voru margar gönguferðirnar sem þú fórst með mér um Akureyri til þess að sýna mér bæinn sem þér þótti svo vænt um. Fyrir þessar sakir verður Akureyri ávallt sérstakur staður í mínum augum.

Umhyggja ömmu var mikil, hún vildi öllum vel og hún var alltaf tilbúin að gefa af sjálfri sér. Enda vann hún alla sína ævi við að hjúkra og hjálpa þeim sem voru hjálpar þurfi. Hún var réttsýn kona og ekki síst mikil bjartsýnismanneskja. Það var alveg sama á hverju gekk, alltaf voru bjartari tímar fram undan. Þegar eitthvað bjátaði á hjá mér voru bjartsýnisorð ömmu mikils virði vegna þess að hún talaði af sannfæringu og ég trúði á orð hennar.

Ég get ekki annað en minnst á áhugamál ömmu, handavinnuna og frímerkjasöfnun. Í öllum sínum frístundum var hún ýmist að vinna með frímerkjasafn sitt, sem er stórt í sniðum, eða handavinnuna og ekki er umfang hennar minna. Hún hafði mikið yndi af handavinnu og bar þar hæst útsaum og taumálun. Fallegt handbragð hennar prýðir nú ófá heimilin.

Amma var falleg kona sem ávallt var vel klædd og alltaf vel til höfð. Það var reisn yfir henni og hún hélt þessari reisn þar til undir það síðasta. Þrátt fyrir veikindi sem ágerðust lét hún sem ekkert væri og við mættum brosi hennar sem áður fyrr.

Ég kveð þig nú, elsku amma, og þakka þér fyrir stundirnar sem við áttum saman. Ljúfa minningin um þig mun fylgja mér alla ævi.

Ég bið góðan Guð að taka á móti þér og gefa þér þann frið sem þú átt skilið.

Kristín.